FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 08. SEPTEMBER 2017

Samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsreikningum reyndist landsframleiðslan hafa aukist nokkru meira en fyrri tölur bentu til eða um 7,4% á árinu 2016, samanborið við 7,2% samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Einkaneysla og fjárfesting vógu þyngst í vexti landsframleiðslunnar en árlegur vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst meiri frá árinu 2005. Alls jukust þjóðarútgjöld um 8,9%.

Einkaneysla jókst um 7,1%, samneysla um 1,9% og fjárfesting jókst um 22,8%. Árlegur vöxtur fjárfestingar hefur ekki mælst meiri frá árinu 2006, en umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 26,4% og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 29,4%. Fjárfesting, sem hlutfall af landsframleiðslu, nam 21,3% á árinu 2016 sem er töluvert nær sögulegu meðaltali en verið hefur síðustu ár.

Útflutningur jókst um 10,9% á árinu 2016, þar af jókst útflutningur þjónustu um 18,6% og vöruútflutningur um 3,7%. Innflutningur jókst um 14,5% á árinu 2016 og dró utanríkisverslun úr hagvexti þrátt fyrir 155,4 milljarða króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári. Er það áttunda árið í röð sem afgangur er af viðskiptum Íslands við útlönd.

Afgangur sem nam um 45,7 milljörðum króna var af launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum á síðasta ári. Viðskiptakjaraáhrif, sem hlutfall af landsframleiðslu fyrra árs, voru sömuleiðis jákvæð um 1,4% á árinu. Það, ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði, varð til þess að þjóðartekjur jukust meira en sem nam vexti landsframleiðslu eða um 11,3%.

Landsframleiðslan 2016 - endurskoðun - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.