Landsframleiðslan á 3. ársfjórðungi 2018 jókst að raungildi um 2,6% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 0,5%. Einkaneysla jókst um 5,3% og samneysla um 3,4% á sama tíma en fjárfesting dróst saman um 5,6%. Útflutningur jókst um 5,1% og innflutningur um 0,6%. Helstu drifkraftar hagvaxtar á 3. ársfjórðungi 2018, borið saman við sama tímabil fyrra árs, voru einkaneysla og utanríkisviðskipti.
Landsframleiðslan jókst um 5% fyrstu níu mánuði ársins
Landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 jókst um 5,0% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2017. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 4,3%. Einkaneysla jókst um 5,4%, samneysla um 3,5% og fjárfesting um 2,7%. Útflutningur jókst um 4,1% og innflutningur um 2,4%. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla stóð í stað að raungildi frá 2. ársfjórðungi 2018.
Landsframleiðsla á 3. ársfjórðungi 2018 | |||||
Verðlag ársins millj. kr. | Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % | Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi,% | |||
3.ársfj. | 3.ársfj. | 1.-3. ársfj | 2.ársfj. | 3.ársfj. | |
Einkaneysla | 342.454 | 5,3 | 5,4 | 1,4 | 1,3 |
Samneysla | 162.256 | 3,4 | 3,5 | 0,6 | 0,8 |
Fjármunamyndun | 153.542 | -5,6 | 2,7 | 7,0 | -6,7 |
Birgðabreytingar | 2.510 | -1,0 | … | … | … |
Þjóðarútgjöld alls | 660.762 | 0,5 | 4,3 | 3,6 | -1,3 |
Útflutningur vöru og þjónustu | 398.164 | 5,1 | 4,1 | -1,5 | 1,4 |
Innflutningur vöru og þjónustu | -318.117 | 0,6 | 2,4 | 3,0 | -1,4 |
Verg landsframleiðsla | 740.810 | 2,6 | 5,0 | 1,4 | 0,0 |
Landsframleiðsla 2017, endurskoðun
Við birtingu þjóðhagsreikninga í september síðastliðnum var gerð grein fyrir því að vegna tafa á útgáfu Ríkisreiknings yrði landsframleiðsla ársins 2017 endurskoðuð þegar niðurstöður hans lægju fyrir. Sú endurskoðun hefur farið fram og er nú birt samhliða þessari útgáfu um landsframleiðsluna á 3. ársfjórðungi 2018. Samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsreikningum fyrir árið 2017 jókst einkaneysla um 7,9% að raungildi á árinu, borið saman við fyrra ár, samneysla um 3,7% (borið saman við 3,1% samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga sem birtir voru í september) og fjárfesting um 9% (borið saman við 9,5% samkvæmt þjóðhagsreikningum sem birtir voru í september). Alls jukust þjóðarútgjöld um 7% en aukning í landsframleiðslu reyndist 4% sem er óbreytt frá áður birtum niðurstöðum.
Landsframleiðslan á 3. ársfjórðungi 2018 – Hagtíðindi
Talnaefni (sjá Landsframleiðsla eftir ársfjórðungum 1997-2018)