Samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands voru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar almannatrygginga um 1.606 milljarðar króna í lok árs 2015. Í samanburði námu lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða starfsmanna á almennum vinnumarkaði um 2.170 milljörðum og opinberra starfsmanna um 1.377 milljörðum í lok árs 2015.
Mat á uppsöfnuðum lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga er ný tölfræði á Íslandi og er hluti af innleiðingu ESA 2010 þjóðhagsreikningastaðals Evrópusambandsins, tafla 29. Mörg aðildarlönd ESB auk Íslands birta nú þessa tölfræði í fyrsta sinn fyrir viðmiðunarárið 2015.
Við útreikning á lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga er stuðst við svokallaða „uppsöfnun-að-dagsetningu“ (e. accrued-to-date (ADL)) aðferð, en inntak hennar er uppsafnaðar skuldbindingar gagnvart þeim sem þegar hafa unnið sér inn réttindi í lok viðmiðunarársins. Þessi aðferð tekur því ekki mið af mögulegum réttindum út starfsævi þeirra sem eru þegar í kerfinu né nýja réttindahafa, heldur einungis punktstöðu réttindauppsöfnunar við lok viðmiðunarársins. Niðurstöðurnar gefa ekki mynd af sjálfbærni lífeyriskerfis almannatrygginga enda ekki um uppsöfnunarkerfi að ræða. Ellilífeyrir í almannatryggingum sem hér er skilgreindur nær til grunnlífeyris, heimilisuppbótar ellilífeyrisþega og tekjutryggingu sem greidd er af Tryggingastofnun ríkisins. Lífeyrir eftirlifenda ásamt örorku undir lífeyristökualdri er undanskilinn.
Raunvaxtarprósenta til núvirðingar lífeyrisskuldbindinga almannatrygginga er samkvæmt samræmdri aðferðafræði 3%, en virði skuldbindinga er mjög háð raunvöxtum, eins og sést á mynd 1. Við 1% lækkun vaxtastigs hækka áætlaðar lífeyrisskuldbindingar úr 1.606 milljörðum króna í 1.921 milljarð króna, og við samskonar hækkun myndu lífeyrisskuldbindingar standa í 1.366 milljörðum króna.
Lífeyrisskuldbindingar almannatrygginga sem hlutfall af landsframleiðslu hér á landi námu um 72% sem er nokkru lægra en í þeim samanburðarlöndum sem sýnd eru á mynd 3. Hafa ber í huga í þessu sambandi að lífeyriskerfi ríkja og samfélagsgerðir geta verið mismunandi, sem gerir samanburð milli landa erfiðari.
Hafa ber í huga að ekki hafa allar þjóðir sem aðild eiga að evrópska hagskýrslusamstarfinu enn birt niðurstöður sínar en gert er ráð fyrir að þær verði gerðar aðgengilegar á vef Eurostat síðar á þessu ári.
Næsta áætlaða birting lífeyrisskuldbindinga í þjóðhagsreikningum er árið 2021.
Lífeyrisskuldbindingar í þjóðhagsreikningum – upplýsingar um aðferðafræði og hugtök, sjá lýsigögn.
Talnaefni