FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 15. NÓVEMBER 2007

Ráðstöfunartekjur heimilageirans eru taldar hafa aukist árið 2006 um 18,7% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 15,4% á milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 8%.

Heildartekjur heimilageirans eru taldar hafa aukist um 16,5% frá árinu 2005 til 2006 og heildareigna- og tilfærsluútgjöld um 13,1%. Ráðstöfunartekjur heimilanna í heild hafa þar með aukist um 199% frá árinu 1994, eða að meðaltali um 9,6% á ári. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og aukningar mannfjölda jókst kaupmáttur á mann um tæp 71% frá árinu 1994 til 2006, að meðaltali um 4,6% á ári. Þróun ráðstöfunarteknanna kemur fram í eftirfarandi mynd.

 

Samhliða birtingu talna fyrir árið 2006 hafa eldri tölur verið uppfærðar. Helsta breyting á tímabilinu er sú að í áður birtum tölum frá því í apríl síðastliðnum vantaði hluta af tilfærslutekjum frá sveitarfélögunum, þ.e. tölur yfir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum til heimila. Önnur leiðrétting er vegna þess að upplýsingar um bifreiðahlunnindi og önnur hlunnindi svo sem fatnað, síma- og tölvuafnot o.s.frv. höfðu ekki verið taldar með í launatekjum árin 1994 til 1996 annars vegar og árið 2005 hins vegar. Tafla með upplýsingar um fjármögnun á einkaneyslu heimilanna fyrir árin 1997 til 2005 hefur verið uppfærð með hliðsjón af nýjum tölum um ráðstöfunartekjurnar, en sambærilegar niðurstöður fyrir árið 2006 eru ekki tiltækar nú.

Nánari upplýsingar um  einstaka þætti ráðstöfunartekna heimilanna koma fram í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.