FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 07. SEPTEMBER 2009

Ráðstöfunartekjur heimilageirans eru taldar hafa aukist um 18% á árinu 2008 frá fyrra ári í krónum talið. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 15,1% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 2,4%.

Heildartekjur heimilageirans eru taldar hafa aukist um 14,5% frá fyrra ári og heildareigna- og tilfærsluútgjöld um 9,3%. Ráðstöfunartekjur heimilanna í heild hafa þar með aukist að meðaltali um 8,9% á ári frá árinu 1994. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og aukningar mannfjölda jókst kaupmáttur á mann um tæp 82% frá árinu 1994 til 2008, eða að meðaltali um 4,4% á ári. Þróun ráðstöfunarteknanna kemur fram í eftirfarandi mynd

Þær tölur sem hér eru birtar eru sem fyrr að mestu unnar út frá skattframtölum einstaklinga. Varðandi einstaka liði er rétt að vekja á því athygli að upplýsingar um vaxtatekjur af bankainnistæðum einstaklinga eru ekki að fullu sambærilegar fyrir árið 2008 við önnur ár. Ástæða þess er sú að fyrir tekjuárið 2008 var í fyrsta sinn lögð sú skylda á fjármálastofnanir að veita skattyfirvöldum upplýsingar um innistæður og vaxtatekjur. Ef borinn er saman fjöldi einstaklinga sem telja fram vaxtatekjur af bankainnistæðum fyrir árið 2007 annars vegar og 2008 hins vegar kemur fram 144% aukning í fjölda einstaklinga með vaxtatekjur. Þessi aukning útskýrir að stærstum hluta þá 197% aukningu sem kemur fram milli ára í vaxtatekjum af bankainnistæðum og bendir til þess að nokkur vanhöld hafi verið á framtöldum innstæðum og vaxtatekjum í eldri tölum.

Samhliða birtingu talna fyrir árið 2008 hafa eldri tölur verið að hluta til uppfærðar með tilliti til nýjustu gagna.   Nánari upplýsingar um  einstaka þætti ráðstöfunartekna heimilanna koma fram í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007. 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.