FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 25. SEPTEMBER 2015

Ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust árið 2014 um 7,7% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 6,5% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 4,4%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs einstaklingsfyrirtækja en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Heildartekjur heimilageirans jukust um 7,1% frá árinu 2013 til 2014. Þar af var 6,6% aukning á heildarlaunatekjum, 7,7% aukning á heildareignatekjum og 3,5% aukning á rekstrarafgangi einstaklingsfyrirtækja. Heildartilfærslutekjur jukust um 11,1% milli ára. Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 6,2% milli ára, vegna 3,2% meiri eignaútgjalda og 6,7% aukningar tilfærsluútgjalda.

 


Samhliða birtingu talna fyrir árið 2014 hafa niðurstöður fyrri ára verið endurskoðaðar. Megin endurskoðunin, sem nær til allra áranna (1994-2014) er sú að tekið er tillit til óbeint mældrar fjármálaþjónustu (e. FISIM) í reikningunum. Er sú endurskoðun gerð með hliðsjón af endurbótum sem kynntar voru í septemberhefti Hagtíðinda 2014 varðandi þann lið (bls.13-16).

Til að koma í veg fyrir tvítalningu á óbeint mældri fjármálaþjónustu í niðurstöðu fyrir sparnað heimilageirans er mældri neyslu heimilageirans á þeirri þjónustu (í tengslum við innlán) bætt við innlánsvaxtatekjur heimilanna. Á sama hátt er neysla á óbeint mældri fjármálaþjónustu vegna útlána dregin frá útlánavaxtagjöldum. Ástæðan er að sú þjónusta sem hér um ræðir er þegar inni í einkaneysluútgjöldum heimilanna skv. ráðstöfunaruppgjöri Hagstofunnar. Sparnaður heimilanna skilgreindur sem ráðstöfunartekjur að frádreginni einkaneyslu.

Auk ofangreindra breytinga í aðferðafræði uppgjörsins er notast við endurskoðaðar tölur yfir skattfrjálsar greiðslur frá Tryggingarstofnun aftur til 2006 og dagpeninga yfir allt tímabilið.

Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að laga þær sem best að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við á. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Söluhagnaði, t.d. vegna sölu hlutabréfa, er einnig sleppt í uppgjörinu.

Einn nýr tekjuliður kemur fram í uppgjörinu fyrir árið 2014. Það er útborgun úr séreignasjóðum í tengslum við íbúðakaup, en samkvæmt lögum nr. 40/2014 er veitt heimild til að nýta viðbótariðgjald í séreignarsjóð á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007 sem finna má hér

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.