Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 25. janúar 2019 10:45 frá upprunalegri útgáfu.

Ráðstöfunartekjur heimilageirans, samkvæmt uppgjöri þjóðhagsreikninga, jukust árið 2017 um 9,9% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 7,4% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 5,5%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna, reiknaðs rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, þar með talið íbúðarhúsnæðis, en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Heildartekjur heimilageirans árið 2017 jukust um 9,2% frá fyrra ári. Þar af jukust heildar launatekjur um 8,4%, eignatekjur um 13,9% og rekstrarafgangur vegna eigin eignarhalds um 5,8%. Heildartilfærslutekjur jukust um 13,2% milli ára.

Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 9,0%, þar af jukust tilfærsluútgjöld um 10,6% en eignaútgjöld drógust saman um 2,8%.

Samhliða birtingu talna fyrir árið 2017 hafa niðurstöður fyrri ára verið endurskoðaðar að hluta. Tölur um rekstrarafgang af rekstri eigin íbúðarhúsnæðis hafa verið endurskoðaðar fyrir árin 2009 til 2016. Í hagtíðindahefti þjóðhagsreikninga sem birt var í júní 2018 var tilkynnt um fyrirhugaða endurskoðun á áður birtum tölum aftur til ársins 1997. Stærsti einstaki liðurinn sem tekin var til endurskoðunar í einkaneyslu er húsnæðisliðurinn en hann var endurskoðaður aftur til ársins 2009. Um er að ræða reglubundna endurskoðun sem fram fer þegar fyrir liggja gögn um leiguverð húsnæðis samkvæmt niðurstöðum lífskjararannsóknar. Tölur um hreinar tekjur af atvinnurekstri á árunum 2011-2016 hafa einnig verið endurskoðaðar, sem og tölur um nettólaun frá útlöndum og óbeint mælda fjármálaþjónustu (FISIM) á árunum 2015-2016, en áhrif á heildarniðurstöður eru óveruleg.

Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að samræma við uppgjör þjóðhagsreikninga. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Söluhagnaði (þ.e. hagnaði af sölu hlutabréfa og almennum söluhagnaði) er einnig sleppt í uppgjörinu, með hliðsjón af tekjuhugtakinu í þjóðhagsreikningum. Tekjuhugtakið nær hér til þeirra tekna sem unnt er að ráðstafa án þess að gengið sé á eignir. Er þá átt við eignastöðu í byrjun viðkomandi tímabils áður en hann tekur breytingum vegna fjármagnstilfærslna, söluhagnaðar eða -taps (e. capital gain/losses).

Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007

Talnaefni