Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust árið 2019 um 6,1% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 3,8% á milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 0,7%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna, reiknaðs rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, þar með talið íbúðarhúsnæðis, en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Heildartekjur heimilanna jukust árið 2019 um 6,0% frá fyrra ári. Þar af jukust heildar launatekjur um 4,3%, rekstrarafgangur vegna eigin eignarhalds um 10% og eignatekjur um 6,4%. Heildartilfærslutekjur jukust um 10,7% á milli ára.

Þá jukust heildareigna- og tilfærsluútgjöld um 5,8% en þar af jukust tilfærsluútgjöld um 5,8% og eignaútgjöld um 5,3%.

Um gögnin
Samhliða birtingu talna fyrir árið 2019 hafa niðurstöður fyrri ára verið endurskoðaðar að hluta. Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga en leitast er við að samræma þær við uppgjör þjóðhagsreikninga. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Söluhagnaði (þ.e. hagnaði af sölu hlutabréfa og almennum söluhagnaði) er einnig sleppt í uppgjörinu með hliðsjón af tekjuhugtakinu í þjóðhagsreikningum. Tekjuhugtakið nær hér til þeirra tekna sem unnt er að ráðstafa án þess að gengið sé á eignir. Er þá átt við eignastöðu í byrjun viðkomandi tímabils áður en hann tekur breytingum vegna fjármagnstilfærslna, söluhagnaðar eða -taps (e. capital gains/losses).

Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007.

Talnaefni