Áætlað er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi dregist saman um tæplega 0,3% á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á árinu 2020 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 2,4% samanborið við árið 2019.
Hagstofan birtir nú niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörs fyrir alla fimm megingeira íslenska hagkerfisins ásamt útlöndum fyrir árið 2020 ásamt ársfjórðungslegum bráðabirgðaniðurstöðum heimilageirans fyrir annan ársfjórðung 2021. Hvorugt uppgjörið felur í sér nýtt mat á vergri landsframleiðslu í heild eða helstu undirliðum hennar heldur eru þau byggð á niðurstöðum ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga þar sem lögð er áhersla á að skrá verðmætastrauma á milli megingeira hagkerfisins.
Aukin verðbólga skýrir minni kaupmátt ráðstöfunartekna á öðrum ársfjórðungi
Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 5,5% á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama ársfjórðung í fyrra. Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,1 milljón króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 4,1% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar drógust ráðstöfunartekjur heimila hins vegar saman um tæpleg 0,3% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% á sama tímabili.
Ársfjóðungslegar ráðstöfunartekjur heimilanna 2020-2021 | ||||||
Milljónir króna | 2020-Á1 | 2020-Á2 | 2020-Á3 | 2020-Á4 | 2021-Á1 | 2021-Á2 |
1. Tekjur | 660.819 | 707.988 | 697.569 | 707.993 | 712.014 | 763.139 |
D.1 Laun | 384.357 | 396.328 | 407.059 | 408.638 | 401.752 | 435.877 |
D.4 Eignatekjur | 43.204 | 41.523 | 40.830 | 42.426 | 43.264 | 44.097 |
- D.41 þar af vaxtatekjur | 14.071 | 12.264 | 11.793 | 13.709 | 14.176 | 12.952 |
D.62 Lífeyrir og félagslegar bætur | 104.098 | 133.549 | 118.507 | 125.930 | 123.280 | 131.728 |
Aðrar tekjur1 | 129.160 | 136.587 | 131.174 | 131.000 | 143.718 | 151.436 |
2. Gjöld | 305.288 | 306.927 | 310.995 | 315.735 | 324.397 | 339.925 |
D.4 Eignagjöld | 20.728 | 18.445 | 19.564 | 21.835 | 23.932 | 21.397 |
- D.41 þar af vaxtagjöld | 20.087 | 17.823 | 18.899 | 21.119 | 23.366 | 20.865 |
D.5 Skattar á laun | 113.625 | 118.823 | 122.833 | 123.294 | 123.493 | 135.837 |
D.61 Tryggingagjöld | 110.414 | 110.953 | 112.821 | 116.180 | 110.270 | 115.278 |
Önnur gjöld2 | 60.521 | 58.706 | 55.776 | 54.428 | 66.701 | 67.412 |
B.6G Ráðstöfunartekjur (1. - 2.) | 355.531 | 401.061 | 386.575 | 392.258 | 387.617 | 423.214 |
Ráðstöfunartekjur á mann (í þús. kr.) | 971 | 1.094 | 1.050 | 1.064 | 1.048 | 1.139 |
Kaupmáttur ráðst.tekna á mann (%) | 0,7% | 5,4% | 0,3% | 3,1% | 3,5% | -0,3% |
1Aðrar tekjur innihalda framleiðsluvirði (P.1) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) tekjumegin. | ||||||
2Önnur gjöld innihalda aðföng (P.2), laun og launatengd gjöld (D.1), skatta á framleiðslu og innflutning (D.2) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) gjaldamegin. |
Heildartekjur heimilanna jukust um 7,8% á öðrum ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna eru launatekjur en þær jukust um 10% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Áætlað er að eignatekjur hafi aukist um 6% frá sama ársfjórðungi í fyrra sem skýrist að hluta af auknum innlánum en áætlað er að vaxtatekjur hafi aukist um 5,6% á tímabilinu. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur drógust saman um 1,4% en þær jukust töluvert á sama tímabili fyrra árs sem rekja má beint til áhrifa kórónuveirufaraldursins, aukins atvinnuleysis sem fylgdi honum og þeim aðgerðum sem stjórnvöld gripu til í þeim tilgangi að draga úr efnahagslegum áhrifum hans.
Heildargjöld heimilanna jukust um tæplega 11% á öðrum ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur jukust um 14% frá sama ársfjórðungi í fyrra og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 3,9% á tímabilinu. Eignagjöld jukust um 16% á á öðrum ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra en vaxtagjöld um 17% sem einkum skýrist af auknum útlánum lánastofnana til heimila vegna fasteignakaupa.
Ofangreindar niðurstöður eru skilgreindar sem bráðabirgðaniðurstöður en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila jókst um 2,4% árið 2020
Hagstofan birti bráðabirgðaniðurstöður vegna ársins 2020 í apríl á þessu ári og birtir nú endurskoðaðar niðurstöður. Samkvæmt þeim jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilageirans um 2,4% á árinu 2020. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 5,3% og ráðstöfunartekjur heimilageirans í heild um 7,0%. Heildartekjur heimilageirans jukust um 3% en heildargjöld drógust saman um 1,6% á milli áranna 2019 og 2020.
Ráðstöfunartekjur heimilanna 2017-2020 | ||||
Milljónir króna | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 |
1. Tekjur | 2.369.534 | 2.574.121 | 2.694.532 | 2.774.370 |
D.1 Laun | 1.427.269 | 1.574.433 | 1.621.511 | 1.596.382 |
D.4 Eignatekjur | 171.504 | 157.823 | 165.607 | 167.983 |
- D.41 þar af vaxtatekjur | 53.388 | 55.610 | 58.750 | 51.837 |
D.62 Lífeyrir og félagslegar bætur | 307.648 | 336.916 | 385.875 | 482.083 |
Aðrar tekjur1 | 463.114 | 504.950 | 521.539 | 527.921 |
2. Gjöld | 1.138.526 | 1.214.780 | 1.259.408 | 1.238.945 |
D.4 Eignagjöld | 89.929 | 89.662 | 94.204 | 80.571 |
- D.41 þar af vaxtagjöld | 87.730 | 87.045 | 91.698 | 77.928 |
D.5 Skattar á laun | 400.036 | 433.739 | 459.738 | 478.574 |
D.61 Tryggingagjöld | 417.855 | 440.017 | 454.066 | 450.368 |
Önnur gjöld2 | 230.706 | 251.362 | 251.399 | 229.431 |
B.6G Ráðstöfunartekjur (1. - 2.) | 1.231.008 | 1.359.341 | 1.435.124 | 1.535.425 |
Ráðstöfunartekjur á mann (í þús. kr.) | 3.585 | 3.854 | 3.980 | 4.190 |
Kaupmáttur ráðst.tekna á mann (%) | 6,6% | 4,7% | 0,2% | 2,4% |
1Aðrar tekjur innihalda framleiðsluvirði (P.1) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) tekjumegin. | ||||
2Önnur gjöld innihalda aðföng (P.2), laun og launatengd gjöld (D.1), skatta á framleiðslu og innflutning (D.2) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) gjaldamegin. |
Árið 2020 drógust launatekjur heimilanna saman um 1,5% frá fyrra ári en skattar á laun jukust hins vegar um 4,1% á sama tímabili sem skýrist að hluta vegna breytinga á fyrirkomulagi skattgreiðslna, fjölgun skattþrepa og lækkun persónuafsláttar. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 25% á milli áranna 2019 og 2020, meðal annars vegna umtalsverðrar aukningar í greiðslu almennra atvinnuleysisbóta, greiðslu hlutaatvinnuleysisbóta, greiðslu sérstaks barnabótaauka og tímabundinnar heimildar til úttektar séreignarlífeyrissparnaðar.
Samhliða birtingu niðurstaðna fyrir árið 2020 hafa niðurstöður fyrri ára verið endurskoðaðar að hluta. Á grundvelli betri gagna hafa útreikningar á vergum rekstrarafgangi heimilanna verið endurskoðaðar aftur til ársins 2000 með samsvarandi áhrifum á útreikning ráðstöfunartekna heimilanna.
Aðferðafræði og gagnaöflun
Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna (D.1), eignatekna (D.4), lífeyristekna og félagslegra tilfærslna (D.62) ásamt öðrum tekjum sem innihalda framleiðsluvirði (P.1) og aðrar tekjutilfærslur (D.7) en að frádregnum eignagjöldum (D.4), sköttum á laun (D.5), tryggingagjaldi (D.61) og öðrum gjöldum sem innihalda aðföng (P.2), laun og launatengd gjöld (D.1), skatta á framleiðslu og innflutning (D.2) og aðrar tekjutilfærslur (D.7).
Þær tölur sem birtar eru sem hluti af tekjuskiptingaruppgjöri þjóðhagsreikninga eru gerðar samkvæmt þjóðhagsreikningastaðli Evrópusambandsins (ESA 2010). Niðurstöður byggja m.a. á ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjörum þjóðhagsreikninga auk upplýsinga úr uppgjöri hins opinbera en lýsing á aðferðafræði árslegs tekjuskiptingaruppgjörs má finna í hefti Hagtíðinda frá árinu 2014. Ekki er lagt mat á óframtaldar tekjur heimila.
Við mat á bráðabirgðaniðurstöðum næstliðins ársfjórðung er lagt mat á sex megin tekju- og gjaldaliði uppgjörsins:
Helstu gagnalindir sem notaðar eru við mat fyrrgreindra meginstærða eru meðal annars staðgreiðsluskrá Skattsins, bráðabirgðauppgjör Fjársýslu ríkisins og fjárhagsupplýsingar sveitarfélaga auk gagna sem aflað er frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Seðlabanka Íslands.