Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 13,6% árið 2023 borið saman við fyrra ár samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Ráðstöfunartekjur á mann námu rúmlega 5,8 milljónum króna á árinu og jukust um 10,8% frá fyrra ári. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 1,9% á árinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 8,8%.
Stefnt er að því að endanlegar tölur fyrir árið 2023 verði birtar í mars árið 2025 en þá liggja fyrir ítarlegri gögn um rekstur fyrirtækja.
Heildartekjur heimilanna jukust um 12,8% árið 2023 samanborið við fyrra ár en þar af jukust launatekjur um 12% og eignatekjur um 27,1%. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 10,5% sem má að mestu rekja til 19% hækkunar lífeyristekna frá fyrra ári en tekjutilfærslur frá almannatryggingum jukust einnig um 3,4% og aðrar tekjutilfærslur um 4,3%.
Gjöld heimilanna jukust um 11,7% á árinu 2023 samanborið við fyrra ár en þar af jukust skattar á laun um 11% og vaxtagjöld um 27,3%.
Endurskoðun áður birtra hagtalna
Hagstofan birti bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2023 í mars á þessu ári þar sem fram kom að ráðstöfunartekjur heimilanna hefðu aukist um 9,6% árið 2023. Helsta breytingin frá fyrra mati er vanmat á launalið fyrir árið 2023. Breyting á kaupmætti 2021-2022 má að mestu leyti rekja til uppfærðra gagna um laun á tímabilinu.
Samkvæmt nýju bráðabirgðamati 2024 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 1,2% á fyrsta ársfjórðungi 2024 en dróst saman um 1,8% á öðrum ársfjórðungi.
Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 6,6% á öðrum ársfjórðungi 2024 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum borið saman við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann námu tæplega 1,6 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 4% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar dróst kaupmáttur á mann saman um 1,8% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 6% á sama tímabili.
Heildartekjur heimilanna jukust um 6,7% á öðrum ársfjórðungi en þar af jukust launatekjur um 6,4% og eignatekjur um 17,5%.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 11,5% á öðrum ársfjórðungi 2024 samanborið við sama tímabil fyrra árs og námu 15% af heildartekjum heimilanna á ársfjórðungnum. Þá jukust tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilageirans um tæplega 4,5% samanborið við sama tímabil fyrra árs.
Gjöld heimilanna jukust um 6,9% á öðrum ársfjórðungi en þar af jukust skattar á laun um 5,3% og vaxtagjöld um 13,3%.