FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 04. APRÍL 2025

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,8% árið 2024 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum borið saman við fyrra ár. Ráðstöfunartekjur á mann námu tæplega 6,3 milljónum króna á árinu 2024 og jukust um 8,8% frá fyrra ári en mannfjöldaaukning var tæplega 2% á árinu. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi aukist um 2,8% á árinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9% á sama tímabili.

Aukning í launatekjum heimilanna
Heildartekjur heimilanna jukust árið 2024 um 8,1% frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að hafi aukist um rúma 158 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur 6,9%. Á sama tímabili jukust skattar á laun um rúma 45 milljarða eða um 6,9%. Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 6,6% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um 2,2% á sama tímabili.

Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 10,1% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár. Á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um 16,6%.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 11,6% á milli ára
Áætlað er að lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur til heimilanna hafi aukist um tæpa 66 milljarða króna frá fyrra ári sem nemur um 11,6% aukningu á milli ára. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu 15% af heildartekjum heimilanna árið 2024.

Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um 3% á árinu 2024.

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,1% á fjórða ársfjórðungi 2024 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum borið saman við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann námu tæplega 1,6 milljón króna á ársfjórðungnum og jukust um 8,5% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um tæp 3,5% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,9% á sama tímabili.

Heildartekjur heimilanna jukust um 8,1% á fjórða ársfjórðungi 2024 samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs en þar af jukust launatekjur um 7,6% og eignatekjur um 13,1%. Heildargjöld heimilanna jukust um 5,7% á fjórða ársfjórðungi 2024 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra en þar af jukust skattar á laun um 9,1% og vaxtagjöld um 4,9%.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um tæplega 10% á fjórða ársfjórðungi 2024 borið saman við sama ársfjórðung 2023 og námu 14,4% af heildartekjum heimilanna á ársfjórðungnum. Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um 4,4% á ársfjórðungnum samanborið við sama ársfjórðung í fyrra.

Endurskoðun talnaefnis
Fyrri ár hafa verið endurskoðuð. Helstu breytingar sem tengjast nýju framleiðsluuppgjöri sem birt var í lok febrúar síðastliðinn eru að liðirnir D.1-laun, D.61-tryggingagjöld, P.2-aðföng, P.1-framleiðsla og D.1-launakostnaður taka breytingum sem hefur áhrif á ráðstöfunartekjur árin 2018-2023.

Aðferðafræði hefur jafnframt verið samræmd við tölfræði um fjármál hins opinbera. Það felur meðal annars í sér að D.7-aðrar tekjutilfærslur heimilanna tekur breytingum. Þessi breyting hefur áhrif á alla tímaröðina.

Ofangreindar niðurstöður eru skilgreindar sem bráðabirgðaniðurstöður og byggja þær á bestu tiltæku gögnum en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.