Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 7,5% árið 2021 borið saman við fyrra ár. Ráðstöfunartekjur á mann numu rúmlega 4,4 milljónum króna á árinu 2021 og jukust um 5,6% frá fyrra ári. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi aukist um 1,1% á sama tímabili.
Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um rúmlega 9,3% á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs en áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,1 milljón króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 7,1% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 2,2% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,8% á sama tímabili.
Aukning í launatekjum heimilanna
Heildartekjur heimilanna jukust árið 2021 um 8,6% frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að hafi aukist um ríflega 155 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur tæplega 10%. Á sama tímabili jukust skattar á laun um ríflega 67 milljarða eða um rúmlega 14%. Aukning launatekna skýrist bæði af launahækkunum og minnkandi atvinnuleysi. Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 8,3% á árinu 2021 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um 2,1% á sama tímabili.
Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 20,3% á árinu 2021 borið saman við fyrra ár sem skýrist bæði af auknum útlánum til heimila og hærri vöxtum. Á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um 6% sem skýrist m.a af auknum innlánum en áætlað er að vaxtatekjur heimila hafi aukist um 8% á tímabilinu.
Heildartekjur heimilanna jukust um 11% á fjórða ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs en þar af jukust launatekjur um 14,8% og eignatekjur um 7,7%. Heildargjöld heimilanna jukust um 13,3% á fjórða ársfjórðungi 2021 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra en þar af jukust skattar á laun um 19,3% og vaxtagjöld um rúmlega 26,9%.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um tæp 4% á milli ára
Áætlað er að lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur til heimilanna hafi aukist um tæpa 19 milljarða frá fyrra ári, sem nemur tæplega 4% aukningu á milli ára.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu tæplega 17% af heildartekjum heimilanna árið 2021 samanborið við rúmlega 17% árið 2020 og 14% árið 2019.
Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um rúmlega 4% samanborið við 1% samdrátt á árinu 2020 sem skýrist meðal annars af auknu atvinnuleysi og aðgerðum stjórnvalda sem gerðu launagreiðendum kleift að fresta tímabundið skilum á tryggingagjaldi. Frestun tryggingagjalds stóð hluta launagreiðenda enn til boða árið 2021.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur drógust saman um 1% á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama ársfjórðung 2020 og námu 16% af heildartekjum heimilanna á ársfjórðungnum. Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um 10% á ársfjórðungnum samanborið við sama ársfjórðung í fyrra.
Ofangreindar niðurstöður eru skilgreindar sem bráðabirgðaniðurstöður en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.