Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 8,5% á fyrsta ársfjórðungi 2023 í samanburði við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann numu rúmlega 1,26 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 4,7% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 4,8% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 10% á sama tímabili.
Heildartekjur heimilanna jukust um 11,5% á fyrsta ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna er launatekjur en þær jukust um 13,4% frá sama ársfjórðungi á síðasta ári. Áætlað er að eignatekjur hafi aukist um 12% frá sama ársfjórðungi í fyrra en áætlað er að vaxtatekjur hafi aukist um 61,8% á tímabilinu.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 6,6% á fyrsta ársfjórðungi 2023 samanborið við fyrsta ársfjórðung árið 2022. Hækkun lífeyristekna um 18,3% er sá liður sem vegur hvað þyngst í hækkuninni.
Áætlað er að heildargjöld heimilanna hafi aukist um 15,5% á fyrsta ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur jukust um 7,7% frá sama ársfjórðungi í fyrra og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 14,3% á tímabilinu. Eignagjöld jukust um 58% á fyrsta ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Þar af jukust vaxtagjöld um 60% sem einkum skýrist af mikilli hækkun vaxta.
Ofangreindar niðurstöður eru bráðabirgðaniðurstöður en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.