Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 9% á fyrsta ársfjórðungi 2025 í samanburði við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann numu tæplega 1,6 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 7,5% á milli ára. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 3,2% en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,2% á sama tímabili.
Vakin er athygli á því að samhliða þessari útgáfu hefur tímaröð tekjuskiptinga- og framleiðsluuppgjörs verið endurskoðuð í samræmi við heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga. Heildarendurskoðun tímaraða framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga hefur bein áhrif á stærðir innan tekjuskiptingaruppgjörs. Nánari umfjöllun um uppfærslu framleiðsluuppgjörs með tilvísun í greinargerð er að finna síðar í fréttinni.
Heildartekjur heimilanna jukust um 7,4% á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við sama ársfjórðung árið 2024. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna er launatekjur en þær jukust um 7,9% á milli ára. Eignatekjur jukust um 6% en áætlað er að vaxtatekjur hafi aukist um 10,3% á tímabilinu.
Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 9,2% á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við fyrsta ársfjórðung árið 2024 en þar af jukust lífeyristekjur um 11,6%.
Heildargjöld heimilanna jukust um 5,4% á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við sama ársfjórðung árið áður. Skattgreiðslur jukust um 4,1% og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 5,2% á tímabilinu. Eignagjöld jukust um 1,5% á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Þar af jukust vaxtagjöld um 1,6%.
Ofangreindar niðurstöður eru bráðabirgðaniðurstöður en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.
Uppfærðar tölur framleiðsluuppgjörs
Í kjölfar heildarendurskoðunar þjóðhagsreikninga á grunni ráðstöfunaruppgjörs hafa nú verið birtar uppfærðar tölur framleiðsluuppgjörs fyrir árin 1995-2024. Nánari umfjöllun um endurskoðunina í heild er að finna í greinargerðinni Endurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga 1995-2024.
Áhrif endurskoðunarinnar eru breytileg eftir atvinnugreinum en helst ber að nefna tvennt. Í fyrsta lagi veldur endurskoðun á óbeint mældri fjármálaþjónusta (FISIM) töluverðum breytingum á fjármála- og vátryggingastarfsemi. Í öðru lagi hefur endurskoðun á samneyslu mikil áhrif á greinar svo sem opinbera stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samhliða endurskoðun fyrri niðurstaðna framleiðsluuppgjörsins er nú sérstaklega tekin til hliðar í nýrri töflu fyrir verðlag hvers árs starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjahópa þar sem umsvif innri viðskipta yfir landamæri geta verið í litlu samræmi við raunumsvif í hagkerfinu, s.s. tengt fjárfestingu, fjölda starfsmanna og framleiðslu.
Í þessari birtingu hefur þremur nýjum töflum verið bætt við til að bæta framsetningu á niðurstöðum framleiðsluuppgjörsins. Sú fyrsta inniheldur framleiðsluuppgjörið eftir atvinnugreinum, framleiðsluþáttum og árum á verðlagi hvers árs og sameinar þær upplýsingar sem áður voru birtar í átta mismunandi töflum í eina töflu. Önnur taflan inniheldur heildartölur eftir framleiðsluþáttum og árum á verðlagi hvers árs. Þriðja taflan inniheldur framleiðsluvirði, aðföng, vinnsluvirði og afskriftir eftir atvinnugreinum og árum á verðlagi hvers árs, á verðlagi fyrra árs og á föstu verðlagi (grunnár 2020).
Samhliða fyrrnefndum viðbótum hafa töflurnar Vergar þáttatekjur atvinnugreina og Magnvísitölur vergra þáttatekna atvinnugreina verið fjarlægðar og er stefnt að því að fjarlægja eftirfarandi átta töflur í næstu birtingu framleiðsluuppgjörsins:
- Framleiðsluvirði atvinnugreina
- Aðföng atvinnugreina
- Vinnsluvirði atvinnugreina
- Afskriftir atvinnugreina
- Laun og tengd gjöld atvinnugreina
- Rekstrarafgangur atvinnugreina
- Skattar á framleiðslu
- Styrkir á framleiðslu.
Samhliða birtingu uppfærðs framleiðsluuppgjörs hefur tafla um framleiðni vinnuafls einnig verið uppfærð.