FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 14. DESEMBER 2023

Ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust um 8% á þriðja ársfjórðungi 2023 í samanburði við sama tímabil fyrra árs samkvæmt bráðabirgðatölum. Ráðstöfunartekjur á mann numu rúmlega 1,3 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 4,8% frá sama tímabili í fyrra.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 2,7% á tímabilinu að teknu tilliti til verðlagsþróunar og mannfjöldaaukningar en vísitala neysluverðs hækkaði á sama tíma um 7,8% og mannfjöldi jókst um 3%.


Heildartekjur heimilanna jukust um 13,1% á þriðja ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna er launatekjur en þær jukust um 10,9% frá sama ársfjórðungi á síðasta ári. Áætlað er að eignatekjur hafi aukist um 18,2% frá sama ársfjórðungi í fyrra og að vaxtatekjur hafi aukist um 47,4% á tímabilinu. Þá jukust lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur um 11,5%.

Heildargjöld heimilanna jukust um 19,7% á þriðja ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur jukust um 12,3%, tryggingagjöld um 7,7% og eignagjöld um 39,4%, þar af vaxtagjöld um 40,8% sem er nokkuð minni hækkun en síðustu ársfjórðunga þar sem vaxtahækkanir voru byrjaðar að gera vart við sig á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.

Vinsamlega athugið að um bráðabirgðaniðurstöður er að ræða. Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegari upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga. Tölur fyrir árin 2015-2021 hafa verið leiðréttar í ársfjórðungstöflu í kjölfar birtingar í október og stemma þær nú við árstöflu tekjuskiptingauppgjörs.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.