Þrátt fyrir nær óbreytt þjóðarútgjöld mældist vöxtur landsframleiðslu 4,7% að raungildi á fjórða ársfjórðungi ársins 2019 borið saman við sama tímabil árið 2018. Vöxtur einkaneyslu mældist 1% á tímabilinu, vöxtur samneyslu 3,8% en 3% samdráttur mældist í fjármunamyndun. Að teknu tilliti til áhrifa birgðabreytinga jukust þjóðarútgjöld um 0,1% á tímabilinu.
Skýrist vöxtur landsframleiðslu því af jákvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 10,2% á tímabilinu á meðan útflutningur jókst um 0,5%. Vöruútflutningur dróst saman um 3,1% en þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í útfluttri ferðaþjónustu og tengdri þjónustu jókst útflutningur þjónustu í heild hinsvegar um 3,7% á 4. ársfjórðungi. Rekja má aukningu útflutnings annarar þjónustu, m.a. til viðskiptaþjónustu og sölu á hugverkaréttindum.
Byggt á ársfjórðungslegum mælingum er nú áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 1,9% að raungildi á árinu 2019 borið saman við fyrra ár. Þrátt fyrir 5% samdrátt í útflutningi á árinu reyndist samdráttur í innflutningi talsvert meiri eða sem nemur 9,9% að raungildi. Yfir árið í heild eru það því einnig jákvæð áhrif utanríkisviðskipta sem skýra vöxt landsframleiðslunnar.
Landsframleiðsla á mann dróst saman um 0,3%
Landsframleiðsla á mann dróst saman um 0,3% að raungildi að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,2% á árinu 2019, borið saman við 1,1% vöxt árið 2018.
Jákvæð áhrif utanríkisviðskipta vega þyngst
Jákvæð áhrif utanríkisviðskipta vega þyngst í hagvexti ársins 2019 en jákvætt framlag einkaneyslu og samneyslu er nokkru minna. Á móti vegur neikvætt framlag fjármunamyndunar og birgðabreytinga.
Samdráttur í þjóðarútgjöldum upp á 0,1%
Þjóðarútgjöld drógust saman um 0,1% á árinu 2019. Vöxtur einkaneyslu mældist 1,6%, vöxtur samneyslu 4,1% en 6,3% samdráttur mældist í fjármunamyndun á árinu. Frá árinu 2011 til ársins 2018 jukust þjóðarútgjöld að raungildi á hverju ári, eða um 4,6% að meðaltali milli ára.
Landsframsleiðsla 2014-2019 | ||||||
Milljónir króna á verðlagi hvers árs | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 |
Einkaneysla | 1.093.250 | 1.146.570 | 1.235.928 | 1.317.491 | 1.421.844 | 1.506.682 |
Samneysla | 496.321 | 535.251 | 570.663 | 614.304 | 669.539 | 721.930 |
Fjármunamyndun | 356.531 | 444.994 | 525.894 | 575.341 | 600.910 | 599.665 |
Birgðabreytingar | 2.045 | 3.489 | 2.926 | 754 | 11.063 | -2.733 |
Þjóðarútgjöld alls | 1.948.147 | 2.130.304 | 2.335.411 | 2.507.890 | 2.703.356 | 2.825.543 |
Útflutningur alls | 1.068.320 | 1.188.374 | 1.186.616 | 1.206.291 | 1.324.447 | 1.344.017 |
Frádráttur: Innflutningur alls | 942.907 | 1.024.730 | 1.031.090 | 1.097.875 | 1.240.416 | 1.203.943 |
Verg Landsframleiðsla | 2.073.560 | 2.293.948 | 2.490.936 | 2.616.306 | 2.787.386 | 2.965.617 |
Raunbreyting frá fyrra ári, % | ||||||
Einkaneysla | 3,2% | 4,5% | 7,2% | 8,1% | 4,7% | 1,6% |
Samneysla | 1,3% | 1,1% | 1,9% | 3,7% | 3,9% | 4,1% |
Fjármunamyndun | 15,9% | 21,3% | 17,8% | 10,8% | -1,1% | -6,3% |
Birgðabr. f.f.ári sem % af GDP | 0,4% | 0,0% | -0,1% | -0,1% | 0,3% | -0,5% |
Þjóðarútgjöld alls | 5,3% | 6,7% | 8,0% | 7,5% | 3,5% | -0,1% |
Útflutningur alls | 3,2% | 9,1% | 10,9% | 5,4% | 1,7% | -5,0% |
Innflutningur alls | 9,8% | 13,8% | 14,5% | 12,3% | 0,8% | -9,9% |
Verg Landsframleiðsla | 2,1% | 4,7% | 6,6% | 4,5% | 3,8% | 1,9% |
Samdráttur í fjármunamyndun árið 2019
Fjármunamyndun atvinnuveganna jókst á 4. ársfjórðungi um 1,7% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs á meðan fjármunamyndun hins opinbera dróst saman um 26,5%. Þar gætir enn töluverðra grunnáhrifa af tilfærslu eignarhalds á Hvalfjarðargöngum sem færðust á milli geira á 4. ársfjórðungi 2018. Áhrif á heildarfjármunamyndun eru þó engin.
Yfir árið í heild dróst fjármunamyndun saman um 6,3%, borið saman við 1,1% samdrátt árið 2018. Fjármunamyndun atvinnuveganna dróst saman um 17,5% árið 2019 en samkvæmt endurskoðuðum tölum dróst hún saman um 11,5% árið 2018. Fjármunamyndun hins opinbera dróst saman um 10,4% á liðnu ári, borið saman við 30,6% vöxt árið 2018.
Hægir á vexti fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði
Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði jókst um 31,2% á árinu 2019 samanborið við 15,5% vöxt árið 2018. Samkvæmt ársfjórðungslegum mælingum dró nokkuð úr vextinum á síðari hluta ársins en vöxtur fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði mældist 12,7% á 4. ársfjórðungi borið saman við 52% vöxt á 3. ársfjórðungi.
Frá árinu 1999 hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði verið sem nemur 4% af landsframleiðslu að meðaltali en fór lægst niður í 2,1% árið 2010. Á árinu 2019 var fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði sem hlutfall af landsframleiðslu 5,6% og hefur ekki mælst hærra síðan árið 2007.
Einkaneysla jókst um 1,6% árið 2019
Einkaneysla jókst að raungildi um 1% á 4. ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs en um 1,6% yfir árið í heild. Er það nokkru minni vöxtur en mælst hefur á ársgrundvell síðustu ár en til samanburðar jókst einkaneysla um 5,5% að meðaltali á árunum 2014-2018.
Að teknu tilliti til mannfjölda dróst einkaneysla saman um 0,6% á árinu 2019. Frá árinu 2009 mældist 41,1% vöxtur í kaupmætti launa en vöxtur einkaneyslu 39,6%. Á sama tímabili jókst einkaneysla á mann um 23,7% að raungildi.
Samneysla jókst um 4,1% árið 2019
Samneysla jókst um 4,1% að raungildi á liðnu ári, samanborið við 3,9% vöxt árið 2018. Á árunum 2017-2019 mældist árlegur vöxtur samneyslunnar 3,9% borið saman við 0,2% samdrátt að meðaltali á árunum 2009-2016. Frá árinu 2009 hefur samneyslan aukist um 11,5% að raungildi. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2019 og bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið í heild verða birtar 13. mars næstkomandi.
Aukinn afgangur af viðskiptum við útlönd árið 2019
Heildarútflutningur jókst um 0,5% á 4. ársfjórðungi 2019 samanborið við sama tímabil fyrra árs. Vöruútflutningur dróst saman um 3,1% en þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í ferðaþjónustutengdum útflutningi jókst útflutningur þjónustu í heild hinsvegar um 3,7%. Aukningu í útflutningi þjónustu má því rekja til útflutnings annarar þjónustu, m.a. viðskiptaþjónustu og sölu á hugverkaréttindum.
Innflutningur dróst saman um 10,2% á 4. ársfjórðungi. Vöruinnflutningur dróst saman um 10,7% og innflutt þjónusta um 9,3%. Yfir árið í heild dróst útflutningur saman um 5%. Er það í fyrsta sinn frá árinu 2006 sem dregur úr útflutningi á milli ára. Heildarinnflutningur dróst saman um 10,2% á 4. ársfjórðungi og um 9,9% yfir árið í heild.
Vöruútflutningur dróst saman um 0,4% á árinu en samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 9% á ársgrundvelli. Vöruinnflutningur dróst saman um 8,6% á árinu 2019 og innflutningur þjónustu um 12%. Er þetta í fyrsta skipti frá árinu 2009 sem dregur úr innflutningi á milli ára en á árunum 2010-2018 jókst innflutningur um 7,5% að meðaltali á ári.
Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 43,9 milljarða króna á 4. ársfjórðungi 2019 og um 140 milljarða króna fyrir árið í heild borið saman við 84 milljarða króna árið 2018 á verðlagi hvors árs.
Samdráttur í birgðum upp á 2,7 milljarða á árinu 2019
Birgðir drógust saman um 6 milljarða króna á verðlagi ársins á 4. ársfjórðungi borið saman við 3. ársfjórðung. Frá sama tímabili fyrra árs mældist 3 milljarða króna samdráttur í birgðum.
Mestur mældist samdráttur í birgðum sjávarafurða á 4. ársfjórðungi, eða 6,5 milljarðar króna á verðlagi ársins borið saman við fyrri ársfjórðung. Samanlögð birgðastaða kísiljárns og annarra rekstrarvara dróst einnig lítillega saman á tímabilinu, meðal annars vegna minni innflutnings á súráli en þrátt fyrir samdrátt í álframleiðslu jukust birgðir áls á 4. ársfjórðungi. Lítil breyting var á birgðastöðu olíu á 4. ársfjórðungi borið saman við síðasta ársfjórðung, en borið saman við sama tímabil árið 2018 drógust olíubirgðir talsvert saman eða um 2,3 milljarða króna á verðlagi ársins. Yfir árið í heild drógust birgðir saman um 2,7 milljarða króna á árinu 2019 borið saman við ríflega 11 milljarða króna birgðaaukningu árið 2018 á verðlagi hvors árs.
Hlutur einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á grunni ráðstöfunaruppgjörs eru nú birtar tölur sem byggja á framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga sem meðal annars sýna hlut einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu. Tölur þessar eru byggðar á framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga fram til ársins 2017, bráðabirgðatölum fyrir árið 2018 og áætlun fyrir árið 2019.
Árstíðaleiðréttar tölur
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 4,8% á 4. ársfjórðungi 2019, borið saman við 3. ársfjórðung sama árs. Árstíðarleiðrétt mældist 0,2% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,7% aukning í samneyslu og 4% samdráttur í fjármunamyndun. Á sama tímabili jókst árstíðarleiðréttur útflutningur um 10,6% og innflutningur dróst saman um 5%.
Landsframleiðsla á 4. ársfjórðungi 2019 | |||
Verðlag ársins millj. kr. | Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % | Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi,% | |
4.ársfj. | 4.ársfj. | 4.ársfj. | |
Einkaneysla | 401.640 | 1,0 | -0,2 |
Samneysla | 191.119 | 3,8 | 0,7 |
Fjármunamyndun | 155.276 | -3,0 | -4,0 |
Birgðabreytingar | -5.984 | -1,0 | … |
Þjóðarútgjöld alls | 742.051 | 0,1 | -1,8 |
Útflutningur vöru og þjónustu | 332.965 | 0,5 | 10,6 |
Innflutningur vöru og þjónustu | -289.106 | -10,2 | -5,0 |
Verg landsframleiðsla | 785.910 | 4,7 | 4,8 |
Endurmat á vexti landsframleiðslu
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, eru niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar, en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði. Að þessu sinni hafa niðurstöður þjóðhagsreikninga verið endurskoðaðar aftur til ársins 2016 samhliða birtingu áætlunar fyrir árið 2019.
Nýjar mælingar á fjármunamyndun atvinnuveganna gefa nokkuð aðra mynd af þróuninni árið 2018 en bráðabirgðatölur höfðu sýnt. Samkvæmt birtri áætlun var gert ráð fyrir 4,1% samdrætti í fjármunamyndun atvinnuveganna en samkvæmt mælingum sem byggja á gögnum frá Ríkisskattstjóra reyndist samdrátturinn töluvert meiri eða 11,5% að raungildi borið saman við fyrra ár.
Gögn um fjármunamyndun atvinnuveganna byggja að stærstum hluta á skráðum eignabreytingum samkvæmt skattframtölum fyrirtækja en þær upplýsingar eru ekki tiltækar fyrr en nokkru eftir að viðmiðunarárinu lýkur. Fram að þeim tíma eru stærðir áætlaðar, meðal annars með hliðsjón af upplýsingum veltu og innflutning.
Áhrif endurskoðunarinnar á vöxt landsframleiðslu má sjá á eftirfarandi mynd:
Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Samhliða birtingu bráðabirgðatalna fyrir árið 2019, sem fyrirhuguð er í lok ágúst 2020, er áætlað að birta heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga hér á landi. Er endurskoðunin í samræmi við samþykkta stefnu og leiðbeiningar Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) um reglulegar heildarendurskoðanir þjóðhagsreikninga og samræmda tímasetningu þeirra.
Við endurskoðun verður sérstök áhersla lögð á flokkun hageininga (sector classification) í samræmi við Evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 og eru nú meðal annars nokkur álitaefni nú til skoðunar er snúa að afmörkun hins opinbera í íslenskum þjóðhagsreikningum. Þá stendur yfir vinna við endurskoðun aðferða við staðvirðingu samneyslu. Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011. Í tengslum við útgáfu þjóðhagsreikninga í ágúst næstkomandi verður sérstök umfjöllun um endurskoðunina, áhrif hennar og forsendur.