FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 26. FEBRÚAR 2021

Vinsamlegast athugið að töflur um framleiðsluuppgjör þjóðhagsreikninga hafa verið leiðréttar vegna villu í talnaefni. Villan hafði ekki áhrif á efni fréttarinnar.

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 5,1% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Yfir árið í heild er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 6,6% að raungildi sem má að miklu leyti rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins, einkum í útfluttri ferðaþjónustu sem dróst saman um 74,4% á árinu. Áætlað er að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020 borið saman við 8,0% árið 2019.

Þjóðhagsreikningar á árinu 2020
Fyrstu áætlanir þjóðhagsreikninga gera ráð fyrir 6,6% samdrætti í landsframleiðslu á árinu 2020. Á sama tíma er áætlað að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi dregist saman um 1,9%, einkaneysla um 3,3%, fjármunamyndun um 6,8% og að samneysla hafi vaxið að raungildi um 3,1%.

Landsframsleiðsla 2015-2020
Milljónir króna á verðlagi hvers árs201520162017201820192020
Einkaneysla 1.148.117 1.237.722 1.323.510 1.429.927 1.519.690 1.512.162
Samneysla 541.371 578.018 625.544 686.635 744.096 808.804
Fjármunamyndun 446.757 525.915 575.221 614.094 627.783 619.787
Birgðabreytingar 1.632 3.724 -821 10.409 -288 17.380
Þjóðarútgjöld alls 2.137.875 2.345.379 2.523.453 2.741.065 2.891.282 2.958.134
Útflutningur alls 1.193.593 1.192.825 1.208.227 1.326.743 1.350.758 1.002.774
Frádráttur: Innflutningur alls 1.020.620 1.026.149 1.089.721 1.227.719 1.196.890 1.020.270
Verg Landsframleiðsla 2.310.848 2.512.055 2.641.959 2.840.089 3.045.149 2.940.638
Raunbreyting frá fyrra ári, %
Einkaneysla 4,5% 6,7% 8,0% 4,8% 1,9% -3,3%
Samneysla -0,1% 0,9% 2,9% 4,7% 3,9% 3,1%
Fjármunamyndun 21,5% 18,0% 10,6% 1,2% -3,7% -6,8%
Birgðabr. f.f.ári sem % af GDP -0,1% 0,1% -0,2% 0,4% -0,4% 0,5%
Þjóðarútgjöld alls 6,3% 7,7% 7,1% 4,3% 0,7% -1,9%
Útflutningur alls 8,9% 11,0% 5,1% 1,7% -4,6% -30,5%
Innflutningur alls13,5%14,6%11,8%0,5%-9,3%-22,0%
Verg Landsframleiðsla 4,4% 6,3% 4,2% 4,7% 2,6% -6,6%

Neikvæð áhrif utanríkisviðskipta vega þyngst
Samdráttur í landsframleiðslu skýrist að verulegu leyti af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 22,0% á árinu á meðan útflutningur dróst töluvert meira saman eða um 30,5%.

Vöruútflutningur dróst saman um 8,5% á árinu en samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 51,2% á ársgrundvelli. Vöruinnflutningur dróst saman um 12,5% á árinu 2020 og innflutningur þjónustu um 38,5%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 17,5 milljarða króna á árinu 2020 borið saman við 153,9 milljarða króna jákvæðan jöfnuð árið 2019 á verðlagi hvors árs.

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu áætlaður 3,5% á árinu 2020
Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum ferðaþjónustureikninga er áætlað að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020, samanborið við 8% á árið 2019. Þetta er í fyrsta skipti sem Hagstofan birtir áætlaða hlutdeild ferðaþjónustunnar samhliða fyrstu áætlunum um þróun landsframleiðslunnar á næstliðnu ári en sérstök útgáfa ferðaþjónustureikninga með ítarlegri niðurstöðum fyrir árin 2009-2020 er áætluð í júní næstkomandi.

Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna.

Einkaneysla dróst saman um 3,3%
Áætlað er að einkaneysla hafi dregist saman um 3,3% að raungildi á árinu 2020 borið saman við fyrra ár. Í mælingum gætir umtalsverðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á neyslu íslenskra heimila. Yfir árið í heild er áætlað að útgjöld Íslendinga erlendis hafi dregist saman um 65,2% frá fyrra ári og hafi numið 62,9 milljörðum króna á árinu 2020 borið saman við 161,9 milljarða króna á árinu 2019 á verðlagi hvors árs. Þrátt fyrir samdrátt í neyslu Íslendinga erlendis og sömuleiðis í ákveðnum útgjaldaflokkum innlendrar neyslu vegur aukning í öðrum að verulegu leyti upp þann samdrátt. Þannig er til að mynda áætlað að einkaneysluútgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði hafi aukist að raungildi um 7,6% a árinu 2020 og útgjöld vegna kaupa á áfengi og tóbaki um 10,8%.

Samneysla jókst um 3,1% árið 2020
Samneysla jókst um 3,1% að raungildi á liðnu ári samanborið við 3,9% vöxt árið 2019. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2020 og bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið í heild verða birtar 11. mars næstkomandi.

Samdráttur í öllum undirliðum fjármunamyndunar árið 2020
Áætlað er að fjármunamyndun í heild hafi dregist saman um 6,8% að raungildi á árinu 2020. Samdráttur í fjármunamyndun atvinnuveganna er áætlaður 8,7%, fjármunamyndun hins opinbera dróst saman um 9,3% og íbúðafjárfesting um 1,2%.

Á grundvelli upplýsinga frá Þjóðskrá um stöðu framkvæmda í árslok hafa áður útgefnar tölur um íbúðafjárfestingu fyrir 1.-3. ársfjórðung 2020 verið endurskoðaðar. Endurskoðunin hefur ekki áhrif á niðurstöður fyrir árið í heild en dreifing innan ársins tekur breytingum. Þrátt fyrir að aukning í fjölda fullgerðra íbúða hafi ekki mælst meiri frá árinu 2007, eða tæplega fjögur þúsund íbúðir á árinu 2020, dróst íbúðafjárfesting saman um 1,2% á árinu 2020 borið saman við fyrra ár. Skýrist það af samdrætti í fjölda íbúða á fyrri byggingarstigum á tímabilinu borið saman við fyrra ár.

Frá árinu 2000 hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði numið að meðaltali 4,1% af landsframleiðslu en fór lægst niður í 2,1% árið 2010. Á árinu 2020 var fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði sem hlutfall af landsframleiðslu 5,7%.

Aukning í birgðum
Samkvæmt birgðaskýrslum jukust birgðir umtalsvert á árinu 2020 eða um 17,4 milljarða króna á verðlagi ársins. Mest mældist aukningin í birgðum áls og sjávarafurða en samdráttur mældist í olíubirgðum og í birgðastöðu kísiljárns og annarra rekstrarvara.

Landsframleiðsla á mann dróst saman um 8,2%
Landsframleiðsla á mann dróst saman um 8,2% að raungildi að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,7% á árinu 2020. Er það mesti samdráttur í landsframleiðslu á mann sem mælst hefur hér á landi frá upphafi mælinga eða frá árinu 1946.

Hlutur einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á grunni ráðstöfunaruppgjörs eru nú birtar tölur sem byggja á framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga sem meðal annars sýna hlut einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu. Tölur þessar eru byggðar á framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga fram til ársins 2018, bráðabirgðatölum fyrir árið 2019 og áætlun fyrir árið 2020.

Þjóðhagsreikningar á 4. ársfjórðungi
Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist samann um 5,1% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur í einkaneyslu er áætlaður 3,1% á tímabilinu, samdráttur í fjármunamyndun 4,6% og vöxtur samneyslu 2,8%. Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld hafi dregist saman um 2,0%.

Þar sem útflutningur dróst meira saman en sem nam samdrætti í innflutningi á tímabilinu er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 10,9 milljarðar króna á tímabilinu.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 4,8% á 4. ársfjórðungi 2020 borið saman við 3. ársfjórðung sama árs. Árstíðaleiðrétt mældist 0,9% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,6% aukning í samneyslu og 3,8% aukning í fjármunamyndun. Á sama tímabili jókst árstíðaleiðréttur útflutningur um 19,2% og innflutningur um 4,6%.

Landsframleiðsla á 4. ársfjórðungi 2020
  Verðlag ársins
millj. kr.
Magnbreyting frá
sama tímabili
fyrra árs, %
Árstíðarleiðrétt
magnbreyting frá
fyrri
ársfjórðungi, %
4. ársfj. 4. ársfj. 4. ársfj.
Einkaneysla 398.444-3,1-0,9
Samneysla 217.7732,80,6
Fjármunamyndun 164.371-4,63,8
Birgðabreytingar -5.579-0,2
Þjóðarútgjöld alls 775.009 -2,00,5
Útflutningur vöru og þjónustu 276.872 -25,019,2
Innflutningur vöru og þjónustu -265.936 -20,04,6
Verg landsframleiðsla 785.945 -5,14,8

Endurskoðun áður birtra niðurstaðna
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, eru niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði.

Samhliða útgáfu áætlunar fyrir árið 2020 hafa tölur vegna síðustu þriggja ára verið endurskoðaðar á grundvelli ítarlegri upplýsinga, meðal annars um fjármunamyndun. Mest eru áhrif endurskoðunar á landsframleiðslu ársins 2019 en samkvæmt henni jókst landsframleiðslan á árinu um 2,6% að raungildi borið saman við 1,9% samkvæmt áður birtum tölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.