FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 28. FEBRÚAR 2022

Áætlað er að landsframleiðsla hafi aukist um 4,4% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Yfir árið í heild er áætlað að landsframleiðsla hafi aukist um 4,3% að raungildi. Að teknu tilliti til mannfjöldaþróunar er áætlað að landsframleiðsla á mann hafi aukist um 2,5% að raungildi á milli áranna 2020 og 2021.

Þjóðhagsreikningar á árinu 2021
Hagstofan birtir nú fyrstu áætlanir sínar yfir þjóðhagsreikninga fyrir allt árið 2021. Landsframleiðsla á liðnu ári nam 3.233 milljörðum króna. Að teknu tilliti til verðbreytinga jókst landsframleiðsla um 4,3% að raungildi samanborið við 7,1% samdrátt árið áður. Á sama tíma er áætlað að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi aukist um 7,2% að raungildi, einkaneysla um 7,6%, fjármunamyndun um 13,6% og samneysla um 1,8%. Þar sem vöxtur innflutnings mældist meiri en sem nam vexti útflutnings var framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu. Þrátt fyrir að samdráttur í landsframleiðslu á árinu 2020 hafi gengið að talsverðu leyti til baka á árinu 2021 mælist landsframleiðsla ársins enn 3% minni að raungildi en árið 2019.


Landsframleiðsla á mann jókst um 2,5% að raungildi á árinu 2021
Samkvæmt áætlun um meðalmannfjölda á Íslandi á árinu 2021 fjölgaði landsmönnum um 1,8% á árinu borið saman við fyrra ár. Að teknu tillliti til mannfjöldaþróunar er áætlað að landsframleiðsla á mann hafi aukist um 2,5% að raungildi á árinu 2021 borið saman við árið 2020 og sé enn um 6,2% minni að raungildi en hún var árið 2019.

Neikvæð áhrif utanríkisviðskipta á hagvöxt
Áætlað er að útflutningur hafi aukist um 12,3% að raungildi á árinu 2021 borið saman við fyrra ár. Aukning í útfluttri þjónustu mældist 20,3% á árinu en vöruútflutningur jókst um 7,6% á sama tímabili. Innflutningur jókst um 20,3% á árinu 2021 borið saman við árið 2020, vöruinnflutningur um 21% og þjónustuinnflutningur um 18,6%. Aukning í innflutningi umfram aukningu í útflutningi veldur neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta á hagvöxt á tímabilinu. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 68,8 milljarða króna á árinu 2021 borið saman við 22,1 milljarða króna neikvæðan jöfnuð árið 2020 á verðlagi hvors árs.

Viðsnúningur í einkaneyslu
Áætlað er að einkaneysla hafi aukist um 7,6% að raungildi á árinu 2021 borið saman við 2,9% samdrátt á árinu 2020. Að teknu tilliti til verðbreytinga er áætlað að einkaneysla á árinu 2021 hafi vaxið um 4,4% að raungildi frá árinu 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Áætlað er að útgjöld Íslendinga erlendis hafi numið um 84,7 milljörðum króna á verðlagi ársins og hafi aukist um 29,2% að raungildi frá fyrra ári. Þá er ætlað að kaup heimila á nýjum bifreiðum hafi aukist um tæplega 34% að raungildi á árinu 2021 borið saman við árið á undan en talsverð aukning er einnig áætluð í öðrum einkaneysulútgjöldum svo sem í kaupum heimila á fatnaði, lyfjum og öðrum lækningavörum.

Samneysla jókst um 1,8% árið 2021
Samneysla jókst um 1,8% að raungildi á liðnu ári samanborið við 4,2% vöxt árið 2020. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2021 og bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið í heild verða birtar 10. mars næstkomandi.

Fjámunamyndun jókst um 13,6%
Fjármunamyndun í heild er talin hafa aukist um 13,6% að raungildi á árinu 2021 borið saman við fyrra ár. Aukning í fjármunamyndun atvinnuveganna er áætluð 23,1% og er áætlað að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 12,4% að raungildi á sama tímabili.

Áætlað er að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafi numið um 177,4 milljörðum króna á árinu 2021 borið saman við 171,9 milljarða á árinu 2020 á verðlagi hvors árs. Að teknu tilliti til verðbreytinga er áætlað að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafi dregist saman um 4,4% að raungildi á árinu 2021 borið saman við árið 2020. Þrátt fyrir samdrátt á milli ára hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði verið mikil í sögulegu samhengi síðustu þrjú árin. Frá árinu 2001 hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði numið að meðaltali 4,1% af landsframleiðslu en nam 5,5% á árinu 2021.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá fjölgaði fullgerðum íbúðum á landinu öllu um tæplega 3.200 á árinu 2021 en á árinu 2020 nam fjölgunin ríflega 3.800 íbúðum. Í lok árs 2020 voru skráðar íbúðir á fyrsta byggingarstigi um 1.400 talsins en hafði fjölgað í ríflega 3.000 í árslok 2021. Á grundvelli upplýsinga frá Þjóðskrá um stöðu framkvæmda í árslok hafa áður útgefnar tölur um íbúðafjárfestingu fyrir 1.-3. ársfjórðung 2021 verið endurskoðaðar. Endurskoðunin hefur ekki áhrif á niðurstöður fyrir árið í heild en dreifing innan ársins tekur breytingum frá áður útgefnum niðurstöðum.

Aukning í birgðum
Samkvæmt birgðaskýrslum jukust birgðir um 4,7 milljarða króna á verðlagi ársins. Mest mældist aukningin í birgðum áls og olíu en samdráttur mældist í birgðastöðu sjávarafurða.

Hlutur einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu
Niðurstöður framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga sem meðal annars sýna hlut einstakra atvinnugreina í landsframleiðslu verða birtar 4. mars næstkomandi.

Þjóðhagsreikningar á fjórða ársfjórðungi
Áætlað er að landsframleiðsla hafi aukist um 4,4% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld hafi aukist um 10,9% að raungildi á tímabilinu, einkaneysla um 12,9%, samneysla um 1,5% og fjármunamyndun um 13,8%. Þar sem innflutningur jókst meira en sem nam aukningu í útflutningi er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu. Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum er áætlaður 18,6 milljarðar króna á tímabilinu.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 2,2% á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við þriðja ársfjórðung sama árs. Árstíðaleiðrétt mældist 4% aukning í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,5% aukning í samneyslu og 2% aukning í fjármunamyndun. Á sama tímabili jókst árstíðaleiðréttur útflutningur um 8,6% og innflutningur um 8,9%.

Starfandi einstaklingum fjölgaði um 8,9% en unnum stundum um 6,1%
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 6,1% á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil árið 2020 en starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 8,9% á sama tímabili. Þrátt fyrir aukningu í vinnumagni á milli ára er áætlað að fjöldi vinnustunda á fjórða ársfjórðungi þessa árs hafi verið um 1,2% minni en þær voru á fjórða ársfjórðungi 2019.

Endurskoðun áður birtra niðurstaðna
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, séu niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði.

Samhliða útgáfu áætlunar fyrir árið 2021 hafa tölur vegna síðustu þriggja ára verið endurskoðaðar á grundvelli ítarlegri upplýsinga, meðal annars um fjármunamyndun. Mest eru áhrif endurskoðunar á landsframleiðslu ársins 2020 en samkvæmt henni dróst landsframleiðslan saman um 7,1% að raungildi borið saman við 6,5% samdrátt samkvæmt áður birtum tölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.