Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á öðrum ársfjórðungi 2022 birtir Hagstofan nú bráðabirgðatölur* fyrir árið 2021 en áætluð landsframleiðsla út frá ársfjórðungsreikningum var birt 28. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2021 nam landsframleiðsla ársins 3.251 milljarði króna og jókst að raungildi um 4,4% frá fyrra ári samanborið við 6,8% samdrátt árið áður. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,7%, jókst landsframleiðsla á mann um 2,7% að raungildi árið 2021.

Endurskoðun landsframleiðslu 2019-2020
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, eru niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði. Samhliða birtingu bráðabirgðaniðurstaðna fyrir árið 2021 hafa niðurstöður þjóðhagsreikninga verið endurskoðaðar fyrir árin 2019 og 2020.


Tölur um vinnumagn ná nú aftur til ársins 1991
Samhliða útgáfu bráðabirgðaniðurstaðna þjóðhagsreikninga fyrir árið 2021 birtir Hagstofan nú samfelldar tímaraðir vinnumagns samkvæmt aðferðafræði þjóðhagsreikninga fyrir tímabilið frá árinu 1991 til ársins 2022, á árs- og ársfjórðungsgrunni. Gögnin ná til launafólks og sjálfstætt starfandi og innihalda upplýsingar um einstakar atvinnugreinar og vinnumarkaðinn í heild. Árið 2018 birti Hagstofan slíkar niðurstöður í fyrsta skipti fyrir árin 2008-2017 en tímaraðirnar ná nú aftur til ársins 1991. Frá árinu 1991 og til ársins 2021 hefur starfandi einstaklingum fjölgað um 48,9% hér á landi, störfum hefur fjölgað um 45,3% á sama tímabili en heildarfjöldi unninna stunda hefur aukist talsvert minna eða um 22,9%.

Tölfræði um vinnumagn byggir á alþjóðlegum stöðlum þjóðhagsreikninga og er ætlað að gefa heildarmynd af vinnuafli hverrar atvinnugreinar, svo sem fjölda þeirra sem starfa í viðkomandi grein og fjölda unninna stunda allra starfsmanna á skilgreindu viðmiðunartímabili. Niðurstöður byggja á samnýtingu tiltækra heimilda, svo sem upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja, launarannsókn Hagstofu Íslands og vinnumarkaðsrannsókn.

*Um tveimur mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur birtir Hagstofa Íslands áætlaða landsframleiðslu fjórða ársfjórðungs næstliðins árs og um leið fyrstu áætlun (e. provisional) um landsframleiðslu ársins í heild. Um er að ræða samtölu ársfjórðungslegra mælinga samkvæmt ráðstöfunaraðferð. Fyrstu niðurstöður sem skilgreindar eru sem bráðabirgðatölur (e. preliminary estimates) eru birtar um átta mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur. Niðurstöður þjóðhagsreikninga eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur þar til um 26 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur en geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem tilefni gefst.

Talnaefni