FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 28. FEBRÚAR 2023

Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2022 benda til þess að hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, hafi numið 6,4% og að áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi verið 3.766 ma.kr. Miðað við áætlaðan mannfjölda mælist hagvöxtur á mann 3,7%. Á fjórða ársfjórðungi hægði á vexti hagkerfisins og aukning landsframleiðslunnar mældist 3,1% miðað við sama ársfjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 2,2% að raungildi.

Þjóðhagsreikningar fyrir 2022
Raunaukning einkaneyslunnar um 8,6% á milli ára er megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári en fjármunamyndun og útflutningur skila einnig jákvæðu framlagi. Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 6,4% að raungildi samanborið við 6,3% aukningu á milli 2020 og 2021. Vöxtur innflutnings umfram útflutning skilar neikvæðu framlagi til hagvaxtar en innflutningur bæði á vöru og þjónustu hefur aukist mikið á síðustu misserum.


Umskipti í utanríkisviðskiptum
Framhald mælist á kröftugum vexti útflutnings á fjórða ársfjórðungi 2022 sem skýrist að miklu leyti af þjónustuútflutningi. Innflutningur hefur einnig vaxið hratt hvort sem litið er til framvindunnar á fjórða ársfjórðungi eða fyrir árið í heild. Síðustu árin hefur framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verið neikvætt. Heildarverðmæti vöru- og þjónustuútflutnings á fjórða ársfjórðungi 2022 er áætlað 437,5 ma.kr samanborið við 351,9 ma.kr. árið áður. Á sama tíma er áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 499,2 ma.kr. samanborið við 384,1 ma.kr. á sama tíma árið áður.

Vöru- og þjónustujöfnuður er því áætlaður neikvæður um 61,7 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2022 sem samsvarar 6,4% af landsframleiðslu fjórðungsins. Sama tímabil 2021 var hann neikvæður um 32,2 ma.kr. (-2,1% af VLF). Fyrir árið í heild var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 27,5 ma.kr. samanborið við 66,3 ma.kr. halla árið þar á undan. Þessi framvinda í utanríkisviðskiptum er áþekk því sem verið hefur frá árinu 2020 með neikvæðan jöfnuð í vöru- og þjónustuviðskiptum eftir ellefu ára viðskiptaafgang frá árinu 2009.

Viðskipti með hugverk ekki talin með í utanríkisviðskiptum
Viðskipti vegna notkunar á hugverkum á milli landa hafa verið umtalsverð síðustu árin en nú hafa komið fram spurningar um hvort þessar færslur uppfylli raunverulega skilyrði þjóðhagsreikninga og utanríkisviðskipta um viðskiptafærslur. Málið er enn til skoðunar innan Hagstofunnar og á meðan svo er hefur verið ákveðið að telja þær ekki með í utanríkisviðskiptum. Þessi ráðstöfun nær aftur til ársins 2018 og áhrifin á niðurstöðu viðskiptajafnaðar eru ýmist til hækkunar eða lækkunar á milli ársfjórðunga. Fyrir tímabilið í heild nema áhrifin um 90 ma.kr. til lækkunar.

Einkaneyslan áfram kröftug
Einkaneysla jókst um 4,7% á fjórða ársfjórðungi 2022 að raunvirði frá sama tímabili árið áður og fyrir árið í heild er vöxturinn 8,6% samanborið við 7,0% vöxt árið þar á undan. Þeir liðir einkaneyslunnar sem vaxa hvað mest tengjast samgöngum og kaupum á ökutækjum auk þess sem einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis aukast mikið. Vísbendingar um þróun kaupmáttar styðja við þessar niðurstöður en rúmlega 15% aukning heildarlaunatekna, borið saman við rúmlega 6% hækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis, bendir til þess að aukinn kaupmáttur og magnaukning einkaneyslunnar hafi fylgst að á síðasta ári.

Samneysla jókst um 1,6% á fjórða ársfjórðungi
Á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð yfir jukust samneysluútgjöld töluvert og má segja að toppnum hafi verið náð árið 2020 þegar hlutfall samneyslunnar af landsframleiðslu stóð í tæpum 28%. Frá þeim tíma hefur samneysluhlutfallið lækkað um tvö prósentustig. Magnaukning samneyslunnar á síðasta ári mældist 1,6% sem er sama raunbreyting og á milli ársfjórðunga. Nánar er fjallað um fjármál hins opinbera í þeim niðurstöðum sem Hagstofa Íslands birtir 16. mars næstkomandi.

Fjármunamyndun eykst
Fjármunamyndun í heild árið 2022 jókst um 6,9% að magni á milli ára samanborið við tæplega 10% aukningu á árinu þar á undan. Sé litið til fjórða ársfjórðungs eingöngu nam aukingin frá sama tímabili árið áður 4,4%. Hlutfall fjármunamyndunar í vergri landsframleiðslu helst áfram hátt í sögulegu samhengi 24,6% og hefur ekki verið hærra fá því fyrir fjármálahrun. Mikill kraftur hefur verið í fjármunamyndun atvinnuveganna síðustu tvö árin eftir nokkurn samdrátt árin þar á undan. Magnbreytingin á síðasta ári var 15,2% sem var tilkomin með nokkuð jöfnu framlagi atvinnugreina.

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði er áætluð rúmir 184 ma.kr. á síðasta ári, sem leiðir af sér að samdráttur í magni á milli ára hafi numið 6,3%. Þegar litið er til ársfjórðungsgagna kemur í ljós viðvarandi samdráttur í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis frá 2021 eftir töluverða aukningu á árunum þar á undan. Horft yfir lengra tímabil er umfang fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði þó enn sögulega hátt. Samkvæmt gögnum frá HMS fjölgaði fullgerðum íbúðum á landinu öllu um samtals 3.171 íbúð á árinu 2022. Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera á síðasta ári hafi dregist saman um 0,9% að raunvirði borið saman við árið 2021.

Leigusamningar í þjóðhagsreikningum og utanríkisviðskiptum - endurskoðun
Meðferð á leigusamningum á flugvélum í þjóðhagsreikningum og utanríkisviðskiptum hefur verið til skoðunar á Hagstofunni um nokkurt skeið eftir að breytingar voru gerðar á meðferð þeirra samninga við birtingu á niðurstöðum þjóðhagsreikninga í ágúst 2021. Leitað var til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, varðandi aðferðafræðileg álitaefni í þessu sambandi. Var það niðurstaða Eurostat að aðgreiningur á milli fjármögnunar- og rekstrarleigusamninga tæki mið af svokölluðu kostnaðarhlutfalli sem ræðst af markaðsverðmæti viðkomandi tækis sem og uppsöfnuðum leigugreiðslum yfir leigutímann. Í þeim tilvikum þar sem þetta hlutfall er tiltölulega lágt sé um rekstrarleigu að ræða en um fjármögnunarleigu að ræða sé hlutfallið hátt.

Í ljósi þessarar niðurstöðu Eurostat hefur Hagstofan fært meðhöndlun á leigusamningum í samgöngum í upphaflegt horf frá því sem var fyrir breytinguna í ágúst 2021. Breytingin hefur þau áhrif að fyrir tímabilið 2018-2022 lækkar vöruinnflutningur og fjármunamyndun en innflutt þjónusta eykst frá því sem áður var. Áhrif þessara breytinga á verga landsframleiðslu eru lítil sem engin þar sem áhrif á utanríkisviðskipti og fjármunamyndun vega hvert á móti öðru.

Samdráttur í birgðastöðu sjávarafurða
Á fjórða ársfjórðungi lækkaði heildarverðmæti birgða um 7,9 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga sem að mestu má rekja til lækkandi birgðastöðu sjávarafurða. Birgðastaða áls lækkaði einnig en aukning á olíubirgðum, kísiljárni og öðrum rekstrarvörum vó á móti.

Fjölgun vinnustunda 6,9% og starfandi einstaklinga 7,5% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda á síðasta ári hafi aukist um 6,9% á milli ára og að starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 7,5% á sama tímabili. Aukning stunda er meiri á fyrri hluta ársins, tæplega 9% samanborið við rúmlega 5% aukningu á seinni hluta ársins borið saman við sama tímabil árið áður. Sömu sögu er að segja um fjölda starfandi.

Endurskoðun áður birtra niðurstaðna
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, séu niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar en vegna endurskoðunar á hugverkum og leigusamningum var fjórða árið einnig opið.

Samhliða útgáfu áætlunar fyrir árið 2022 hafa því tölur vegna síðustu fjögurra ára verið endurskoðaðar á grundvelli ítarlegri upplýsinga, meðal annars um fjármunamyndun. Mest eru áhrif endurskoðunar á landsframleiðslu ársins 2019 en samkvæmt henni jókst landsframleiðslan um 1,8 % að raungildi borið saman við 2,4 % samkvæmt áður birtum tölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.