FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 28. FEBRÚAR 2025

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 3. mars 2025 frá upprunalegri útgáfu. Ársfjórðungstölur voru leiðréttar sem hafði áhrif á árstölurnar. Hagvöxtur ársins 2024 er því áætlaður 0,5% en ekki 0,6%. Rétt er að árétta að sem fyrr er um bráðabirgðatölur að ræða.

Hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, nam 0,5% á árinu 2024 miðað við bráðabirgðatölur og er áætlað að nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi verið 4.616 milljarðar króna. Á fjórða ársfjórðungi mældist aukning landsframleiðslunnar 2,1% að raunvirði, þjóðarútgjöld jukust um 6,1% en neikvætt framlag utanríkisviðskipta vó þar á móti.

Þjóðhagsreikningar fyrir 2024
Raunaukning fjármunamyndunar um 7,5% var megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári en jafnframt skilaði aukin sam- og einkaneysla jákvæðu framlagi. Hins vegar var framlag birgðabreytinga og utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt. Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 2,3% að raunvirði sem var sama aukning og milli 2022 og 2023.


Endurskoðun áður birtra hagtalna fyrir árin 2021-2023
Samhliða útgáfu landsframleiðslunnar fyrir árið 2024 hafa áður útgefnar tölur fyrir árin 2021-2023 verið endurskoðaðar. Hagvöxtur árið 2023 var þannig 5,6% í stað 5,0% í áður birtum tölum. Fyrir árið 2022 er hagvöxtur óbreyttur 9,0% og árið 2021 er nú metið að landsframleiðslan hafi aukist um 5,0% í stað 5,3% að raunvirði.

Hagvöxtur jókst á fjórða ársfjórðungi 2024
Á fjórða ársfjórðungi jókst vöxtur hagkerfisins og mældist aukning landsframleiðslunnar 2,1%. Þjóðarútgjöld jukust en framlag utanríkisviðskipta dróst saman á móti. Árstíðaleiðréttur hagvöxtur dróst saman um 1,4% frá þriðja ársfjórðungi 2024.

Einkaneysla jókst um 0,8%
Einkaneysla jókst um 0,8% á fjórða ársfjórðungi 2024 að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs. Fyrir árið í heild var vöxturinn 0,6% samanborið við 0,5% vöxt árið þar á undan. Það var því annað árið í röð sem einkaneyslan sýndi vægan vöxt. Þeir liðir sem drógust saman hvað mest á fjórða árfjórðungi voru kaup heimilanna á varanlegum neysluvörum, eins og bifreiðum, en mikill samdráttur var í þeim efnum alla fjórðunga ársins. Einnig var samdráttur í neyslu á áfengi og tóbaki. Einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis sýndu aukningu á fjórða ársfjórðungi.

Samneysla jókst um 2,1% á fjórða ársfjórðungi
Magnaukning samneyslu hins opinbera á fjórða ársfjórðungi 2024 frá sama tímabili árið áður er áætluð 2,1%. Magnaukning samneyslunnar yfir árið 2024 er áætluð 2,5%. Til samanburðar var magnaukning samneyslu 1,8% árið 2023. Nánar verður fjallað um fjármál hins opinbera í útgáfunni þann 20. mars næstkomandi.

Fjármunamyndun eykst
Gert er ráð fyrir að fjármunamyndunin hafi aukist um 15,6% á fjórða ársfjórðungi ársins 2024 samanborið við 1,9% samdrátt á sama tímabili árið áður. Aukningin var fyrst og fremst í fjármunamyndun atvinnuvega og íbúðarhúsnæðis en örlítill samdráttur mældist hjá hinu opinbera en hafa ber í huga að talsverð óvissa ríkir um fjármunamyndun hins opinbera vegna gagnaóvissu. Mest aukning var í fjármunamyndun í upplýsingatækni og fiskveiðum en tveir togarar komu til landsins á fjórðungnum.

Á árinu 2024 er nú áætlað að fjármunamyndun hafi aukist að raungildi um 7,5%, mest í íbúðarhúsnæði, en heildarfjármunamyndun ársins 2024 í íbúðarhúsnæði reyndist mun meiri en búist var við og eru tölur því endurskoðaðar til hækkunar fyrir alla ársfjórðunga ársins 2024. Fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis er talin hafa aukist um alls 18% að raunvirði á árinu.

Fjármunamyndun 2023 eykst einnig frá fyrra mati. Mesta aukningin frá fyrra mati er í atvinnugreinum fiskveiða og fiskeldis, í liðnum rannsókna- og þróunarkostnaður, en einnig hafa tölur um fjármunamyndun í orkuvinnslu og fjármunamyndun í hug- og tölvubúnaði verið endurskoðaðar til hækkunar. Hins vegar hafa tölur um fjármunamyndun vegna starfsemi á sviði upplýsingatækni verið lækkaðar.

Heildarverðmæti birgða jókst árið 2024
Heildarverðmæti birgða jókst um 7,1 milljarð króna á árinu 2024 á verðlagi ársins. Þar af jukust ál- og kísiljárnbirgðir mest en á móti var samdráttur í birgðastöðu sjávarafurða.

Á fjórða ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 10,3 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga. Þetta er þó nokkuð meiri aukning en hefur tíðkast á þessum ársfjórðungi en aukninguna má helst rekja til aukinnar birgðastöðu sjávarafurða og áls á tímabilinu.

Utanríkisviðskipti
Fyrir árið 2024 dróg vöru- og þjónustujöfnuður niður hagvöxtinn eins og áður er greint frá en þetta á einnig við um aðra ársfjórðunga ársins.

Útflutningur á fjórða ársfjórðungi jókst um 1,0% að raunvirði eftir samdrátt á fyrstu þremur ársfjórðungum. Á fjórða ársfjórðungi var einnig mikill vöxtur í innflutningi eða um 10,5% að raunvirði. Þar af jókst vöruinnflutningur um 14,3% en innflutt þjónusta um 3,3% að raunvirði.

Fyrir árið í heild var vöru- þjónustujöfnuður neikvæður um 52,8 ma.kr. samanborið við jákvætt framlag um 6,7 milljarða króna fyrir árið 2023.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 1,4%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla á fjórða ársfjórðungi dróst að raunvirði saman um 1,4% frá þriðja ársfjórðungi. Að lokinni árstíðaleiðréttingu mældist 0,3% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,3% aukning í samneyslu og 9,7% aukning í fjármunamyndun, allt að raunvirði. Á sama tímabili jókst árstíðaleiðréttur útflutningur um 3,2% að raunvirði og innflutningur um 12,5%.

Endurskoðun áður birtra niðurstaðna
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, séu niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar auk liðandi árs.

Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Í lok maí 2025 er áætlað að birta heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga hér á landi. Er endurskoðunin í samræmi við samræmda evrópska endurskoðunarstefnu um þjóðhagsreikninga og aðra efnahagstölfræði.

Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður viðmiðunarár fasts verðlags uppfært og tölur birtar á föstu verðlagi 2020 í stað 2015 eins og verið hefur frá því í nóvember 2020.

Ýmissa annarra breytinga er einnig að vænta á þessum tímapunkti. Má þar m.a. nefna endurmat á framlagi fjármálafyrirtækja til landsframleiðslunnar en nú er verið að vinna úr nýjum gögnum um starfsemi fjármálafyrirtækjanna.

Nýtt framleiðsluuppgjör lítur dagsins ljós
Niðurstöður úr nýju framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga eru nú birtar opinberlega í fyrsta sinn á vef Hagstofunnar. Þróun nýja uppgjörsins sem hófst árið 2021 er ekki lokið enda er hér um að ræða umfangsmikið verkefni sem nær til allrar framleiðslustarfsemi efnahagslífsins hvort sem sú starfsemi á sér stað við markaðsaðstæður eða ekki.

Þjóðhagsreikningar á Íslandi hafa frá upphafi byggst á s.k. notendaaðferð (use approach) þar sem áherslan er á að meta umfang efnahagsstarfseminnar út frá því með hvaða hætti verðmætunum er ráðstafað, aðallega á milli neyslu og fjárfestingar. Framleiðsluuppgjörið leggur aftur á móti áherslu á að meta verðmætasköpunina í hagkerfinu út frá því hversu mikil framleiðsla á sér stað hverju sinni. Í flestum okkar samanburðarlöndum er framleiðsluuppgjörið meginaðferð þjóðhagsreikninga og markmiðið með nýju framleiðsluuppgjöri er að svo verði einnig hér á landi.

Í fyrsta áfanga nýs framleiðsluuppgjörs sem nú er lokið hafa allir vinnsluferlar verið færðir til nútímalegra horfs hvað varðar gagnagrunnsvinnslu og forritun vinnsluferla. Einnig hefur verið innleitt það verklag að framkvæma útreikninga eins nálægt tölfræðilegum grunneiningum og frekast er unnt. Þannig miðast útreikningar nýs framleiðsluuppgjörs í flestum tilvikum við kennitölur rekstraraðila ef tölfræðilegar grunnupplýsingar styðja slíka vinnslu.

Með þessum hætti skapast fjölbreyttir möguleikar á ítarlegum greiningum og sérvinnslum. Til að tryggja að nýtt framleiðsluuppgjör skili trúverðugum niðurstöðum, hvort sem um er að ræða á verðlagi ársins eða á föstu verðlagi, var eldri aðferð einnig beitt til samanburðar og eins og við var að búast fengust sambærilegar niðurstöður.

Með nýjum vinnsluferlum stendur einnig til að töflur verði uppfærðar fyrr og að birting á vef Hagstofunnar verði uppfærð þannig að framleiðlsuuppgjörs töflurnar sem nú eru birtar á verðlagi ársins verði sameinaðar í eina og bætt við nýjum töflum fyrir verðlag fyrra árs og fast verðlag.

Næstu skref í þróun uppgjörsins snúa annars vegar að því að bæta tímanleika og innleiða ársfjórðungslegt framleiðsluuppgjör en einnig með því að stíga fyrstu skrefin við gerð uppruna- og ráðstöfunaryfirlits. Slíkt yfirlit mun kalla á aukna gagnasöfnun frá lykilfyrirtækjum í efnahagslífinu svo að unnt verði að greina framleiðslu- og aðfangakeðjur í hagkerfinu og þar með samræma þá verðmætasköpun sem á sér stað hverju sinni við endanlega ráðstöfun framleiðslunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.