FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 29. MAÍ 2020

Áætlað er að landsframleiðslan á 1. ársfjórðungi 2020 hafi dregist saman að raungildi um 1,2% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Þrátt fyrir umtalsverð neikvæð áhrif utanríkisviðskipta á hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi, sem að miklu leyti má rekja til samdráttar í ferðaþjónustu, jukust þjóðarútgjöld að raungildi á tímabilinu.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 2,9% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Vöxtur einkaneyslu mældist 0,9% en vöxtur samneyslu 2,3%. Fjármunamyndun jókst um 4,1% frá sama tímabili fyrra árs sem einkum skýrist af grunnáhrifum útflutnings flugvéla á sama tímabili fyrra árs en án fjármunamyndunar í skipum og flugvélum mældist 15,8% samdráttur í fjármunamyndun samanborið við sama tímabil árið 2019.

Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á 1. ársfjórðungi 2020 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt.

Einkaneysla jókst um 0,9%
Þrátt fyrir merkjanleg áhrif Covid-19 á ýmsa liði einkaneyslu, ekki síst einkaneysluútgjöld Íslendinga erlendis, mældist töluverður vöxtur í öðrum liðum, meðal annars kaupum á bifreiðum. Benda fyrstu mælingar á einkaneyslu til þess að hún hafi aukist um 0,9% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs borið sama við sama tímabil fyrra árs.

Í mars mánuði byrjar að gæta áhrifa af samkomubanni og lokana vegna Covid-19 á neysluútgjöld. Þar sem mælingar á einkaneyslu eru öllu jöfnu nokkuð háðar upplýsingum um virðisaukaskattsveltu sem vegna framkvæmdar innheimtu virðisaukaskatts hér á landi eru ekki orðin tiltæk að fullu fyrir ársfjórðunginn eru mælingar nú í auknum mæli byggðar á öðrum tiltækum upplýsingum, meðal annars upplýsingum um greiðslukortaveltu. Mælingar verða að venju endurskoðaðar þegar fyllri gögn liggja fyrir.

26,1% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu án skipa og flugvéla
Heildarfjármunamyndun jókst um 4,1% á 1. ársfjórðungi 2020 sem skýrist einkum af grunnáhrifum en töluverður samdráttur mældist í atvinnuvegafjárfestingu á sama tímabili árið 2019 þegar útflutningur farþegaflugvéla átti sér stað í kjölfar gjaldþrota íslenskra flugfélaga. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjármunamyndun, ýmist til hækkunar eða lækkunar og skipta þessar stærðir oft sköpum varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum. Áhrif á landsframleiðslu eru aftur á móti lítil sem engin þar sem fjárfestingaráhrifin vega á móti áhrifum á utanríkisviðskiptin.

Að meðtöldum áhrifum af kaupum og sölu skipa og flugvéla jókst atvinnuvegafjárfesting um 9,5% að raungildi á fyrsta árfjórðungi þessa árs borið sama við sama tímabil fyrra árs en án þeirra áhrifa mældist 26,1% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu á tímabilinu. Á sama tímabili jókst fjármunamyndun hins opinbera um 2,5% að raungildi borið sama við sama tímabil fyrra árs.

Hægist á fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði
Þrátt fyrir að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði mælist enn mikil í sögulegu samhengi dróst hún saman að raungildi um 3,2% frá sama tímabili fyrra árs. Undanfarna fjóra ársfjórðunga hefur vöxtur íbúðafjárfestingar einkum byggst á fjölgun íbúða á síðari byggingastigum en útgefnum byggingarleyfum, sem öllu jöfnu teljast góð vísbending um vænta þróun íbúðafjárfestingar, hefur á sama tíma fækkað sem og íbúðum á fyrri byggingastigum. Á fyrsta ársfjórðungi 2020 fækkaði útgefnum byggingarleyfum þannig um 37,5% borið saman við sama tímabil árið 2019 en fjöldi íbúða, sem færist á lokastig byggingar, hefur hinsvegar ekki mælst meiri síðan á árinu 2008.

Samdráttur í utanríkisviðskiptum
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 mældist samdráttur í flestum undirliðum utanríkisviðskipta en þar sem útflutningur dróst meira saman en sem nemur samdrætti í innflutningi er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu. Mestur samdráttur mældist í þjónustuútflutningi sem að hluta má rekja til áhrifa Covid-19 á komu ferðamanna hingað til lands en áhrifa faraldursins gætir einnig í öðrum liðum, meðal annars í þjónustuinnflutningi. Vöruútflutningur var áætlaður 150,2 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 168,8 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 18,6 milljarða króna. Þjónustujöfnuður var áætlaður jákvæður um 24 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2020, útflutt þjónusta áætluð 115,5 milljarðar en innflutt þjónusta 91,4 milljarðar.

Árstíðaleiðréttar tölur
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 7% á 1. ársfjórðungi 2020 borið saman við 4. ársfjórðung 2019. Árstíðarleiðrétt mældist 0,2% vöxtur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, samneysla mældist óbreytt og 13,6% samdráttur mældist í fjármunamyndun. Á sama tímabili dróst árstíðarleiðréttur útflutningur saman um 14,1% og innflutningur dróst saman um 4,6%.

Landsframleiðsla á 1. ársfjórðungi 2020
  Verðlag ársins
millj. kr.
Magnbreyting frá
sama tímabili
fyrra árs, %
Árstíðarleiðrétt
magnbreyting frá
fyrri
ársfjórðungi, %
1. ársfj. 1. ársfj. 1. ársfj.
Einkaneysla 363.1780,90,2
Samneysla 181.5772,30,0
Fjármunamyndun 129.3184,1-13,6
Birgðabreytingar -1.4200,9
Þjóðarútgjöld alls 672.654 2,9-2,6
Útflutningur vöru og þjónustu 265.706 -17,2-14,1
Innflutningur vöru og þjónustu -260.229 -9,7-4,6
Verg landsframleiðsla 678.131 -1,2-7,0

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.