FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 31. MAÍ 2021

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 31. maí 2021 kl. 12:00 frá upprunalegri útgáfu. Leiðréttingin felst í því að áætlað er að fjármunamyndun atvinnuveganna, að frádreginni fjárfestingu í skipum, flugvélum og stóriðju, hafi aukist um 5,3% að raungildi en ekki staðið í stað.

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,7% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á sama tíma er áætlað að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi aukist um 1,7% að raungildi, einkaneysla um 0,8%, samneysla um 2,9% en áætlað er að fjármunamyndun hafi dregist saman um 2,9%. Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á fyrsta ársfjórðungi 2021 er framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar í heild neikvætt.

Einkaneysla jókst um 0,8%
Eftir samfelldan samdrátt í einkaneyslu síðustu þrjá ársfjórðunga mældist hóflegur vöxtur á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs eða 0,8%. Líkt og síðastliðna ársfjórðunga eykst einkaneysla heimila innanlands en neysla Íslendinga erlendis dregst umtalsvert saman.

Samdráttur í fjármunamyndun
Áætlað er að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi dregist saman um 4,9% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Að frádreginni fjárfestingu í skipum, flugvélum og stóriðju er áætlað að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi aukist um 5,3% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur í fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði mældist 8,8% en áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 18,7% að raungildi á tímabilinu. Í heild er áætlað að fjármunamyndun hafi dregist saman um 2,9% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2021.

Samdráttur í utanríkisviðskiptum
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 mældist samdráttur í flestum undirliðum utanríkisviðskipta en áætlað er að útflutningur hafi dregist saman um 20% að raungildi á sama tíma og innflutningur dróst saman um 11,3%. Áhrif utanríkisviðskipta á hagvöxt eru því neikvæð á tímabilinu. Samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 52% á tímabilinu en vöxtur í vöruútflutningi mældist 4,6%. Samdráttur í vöruinnflutningi mældist 1,5% en 30% samdráttur mældist í þjónustuinnflutningi. Vöruútflutningur var áætlaður 165 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 en vöruinnflutningur 186,8 milljarðar króna. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 21,9 milljarða króna. Þjónustujöfnuður var áætlaður neikvæður um 10,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 en það er í fyrsta skipti síðan árið 2007 sem þjónustujöfnuður mælist neikvæður á ársfjórðungsgrunni. Útflutt þjónusta var áætluð 58,7 milljarðar króna á tímabilinu en innflutt þjónusta 69,6 milljarðar króna.

Árstíðaleiðréttar tölur
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 5,2% á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við fjórða ársfjórðung 2020. Árstíðaleiðrétt mældist 2,5% vöxtur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, vöxtur samneysla mældist 0,7% og 7,5% samdráttur mældist í fjármunamyndun. Á sama tímabili dróst árstíðaleiðréttur útflutningur saman um 6,9% og innflutningur jókst um 6,4%.

Landsframleiðsla á 1. ársfjórðungi 2021
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðaleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi,%
1. ársfj. 1. ársfj. 1. ársfj.
Einkaneysla 386.0260,82,5
Samneysla 211.7812,90,7
Fjármunamyndun 140.975-2,9-7,5
Birgðabreytingar 6.3211,1
Þjóðarútgjöld alls 745.102 1,7 -0,8
Útflutningur vöru og þjónustu 223.637 -20,0 -6,9
Innflutningur vöru og þjónustu -256.422 -11,3 6,4
Verg landsframleiðsla 712.317 -1,7 -5,2

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.