FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 31. MAÍ 2022

Áætlað er að landsframleiðsla hafi aukist um 8,6% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld hafi aukist um 11,2% að raungildi, einkaneysla um 8,8%, samneysla um 1,5% og fjármunamyndun um 20,3%.

Talsverður vöxtur mældist bæði í inn- og útflutningi á tímabilinu samanborið við sama tímabil fyrra árs. Aukning í innflutningi er áætluð meiri að raungildi en sem nam vexti útflutnings og framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar því neikvætt á tímabilinu. Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum er áætlaður 25,4 milljarðar króna á tímabilinu.

Viðsnúningur í efnahagslífinu leiddi til mikillar atvinnuaukningar á árinu 2021 og hélt sú þróun áfram á 1. ársfjórðungi 2022. Heildaratvinna, mæld í fjölda vinnustunda, jókst um 7,5% frá sama tímabili fyrra árs og starfandi einstaklingum fjölgaði um 8,2% á sama tímabili.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,1% á fyrsta ársfjórðungi 2022 borið saman við fjórða ársfjórðung 2021.

Einkaneysla jókst um 8,8%
Áætlað er að einkaneysla hafi aukist um 8,8% að raungildi á tímabilinu borið saman við sama tímabil fyrra árs sem skýrist að umtalsverðu leyti af auknum ferðalögum og neysluútgjöldum Íslendinga erlendis á tímabilinu. Þá mældist einnig umtalsverð aukning í kaupum heimila á nýjum bifreiðum á tímabilinu en á móti mældist samdráttur í öðrum neysluflokkum svo sem áfengi, húsbúnaði og innréttingum.

Samneysla jókst um 1,5%
Samneysla jókst um 1,5% á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2021. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi 2022 verða birtar 9. júní næstkomandi.

Heildarfjármunamyndun jókst um 20,3%
Í heild er áætlað að fjármunamyndun hafi aukist um 20,3% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Heildarfjármunamyndun atvinnuvega jókst um 38,3% á tímabilinu en án fjárfestingar í skipum, flugvélum og stóriðjutengdri starfsemi mældist vöxturinn 19,4%. Skýrist munurinn einkum af umtalsverðum fjárfestingum í flugvélum á tímabilinu en samdráttur mældist í fjármunamyndun stóriðju og tengdra greina borið saman við sama tímabil fyrra árs. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjárfestingu ýmist til hækkunar eða lækkunar. Þessi stærð skiptir oft sköpum varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum en áhrif á landsframleiðslu eru aftur á móti minniháttar þar sem fjárfestingaráhrifin vega á móti áhrifum á utanríkisviðskipti.

Áætlað er að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafi numið um 40,8 milljörðum króna á tímabilinu og hafi dregist saman um 6,8% að raungildi borið saman við fyrsta ársfjórðung 2021. Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 1,4% að raungildi á sama tímabili.

Söguleg aukning í þjónustuviðskiptum við útlönd
Áætlað er að útflutningur hafi aukist um 28,3% að raungildi á fyrsta fjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil fyrra árs en að innflutningur hafi aukist um 33,9% að raungildi.

Aukning í útfluttri þjónustu mældist 80,8% á tímabilinu sem skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Samkvæmt talningu á erlendum farþegum um Keflavíkurflugvöll nam fjöldi þeirra um 245 þúsund á tímabilinu borið saman við tæplega 12 þúsund á sama tímabili árið 2021. Talsverður vöxtur mældist einnig í þjónustuinnflutningi eða 68,7% sem skýrist að verulegu leyti af auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda eftir mikinn samdrátt á árunum 2020 og 2021 vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Vöxtur í inn- og útflutningi þjónustu hefur ekki mælst meiri frá því að ársfjórðungslegar mælingar landsframleiðslu hófust hér á landi.

Áætlað er að vöruinnflutningur hafi aukist um 21,4% að raungildi á tímabilinu borið við sama tímabil árið 2021. Aukningu í vöruinnflutningi má að hluta rekja til innflutnings á flugvélum sem skráðar voru hér á landi á fyrsta ársfjórðungi. Aukning í vöruútflutningi er áætluð 8,9% að raungildi á tímabilinu samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum er áætlaður 25,4 milljarðar króna á tímabilinu, þar af halli á vöruskiptum 20 milljarðar króna og halli af þjónustuviðskiptum 5,4 milljarðar á verðlagi ársins.

Aukning í birgðum
Samkvæmt birgðaskýrslum jukust birgðir um 23,3 milljarða króna á verðlagi ársins. Mest mældist aukningin í birgðum sjávarafurða eða sem nam 28,5 milljörðum króna á verðlagi ársins en birgðastaða olíu og áls dróst saman um tæplega 5,5 milljarða á tímabilinu.

Atvinna hélt áfram að aukast á fyrsta ársfjórðungi
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 7,5% á fyrsta ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil árið 2021 en starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 8,2% á sama tímabili samkvæmt mælingum þjóðhagsreikninga. Þrátt fyrir aukningu í heildaratvinnu á milli ára er áætlað að unnar vinnustundir hafi verið um 4,2% færri á fyrsta fjórðungi þessa árs borið saman við fyrsta ársfjórðung 2019, áður en áhrifa kórónuveirufaraldursins fór að gæta í íslensku efnahagslífi.

Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla jókst um 1,1% á milli ársfjórðunga
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,1% á fyrsta ársfjórðungi 2022 borið saman við fjórða ársfjórðung 2021. Árstíðaleiðrétt mældist 0,1% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,5% aukning í samneyslu og 0,4% aukning í fjármunamyndun. Á sama tímabili jókst árstíðaleiðréttur útflutningur um 5,3% og innflutningur um 3,3%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.