Landsframleiðsla jókst að raungildi um 7% miðað við sama tímabil fyrra árs samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung 2023. Þjóðarútgjöld, að teknu tilliti til birgðabreytinga jukust að raungildi um 4,5%, einkaneysla um 4,9%, samneysla um 1,7% en fjármunamyndum dróst lítillega saman um 0,1%.

Utanríkisviðskipti skiluðu jákvæðu framlagi til hagvaxtar en útflutningur jókst um 10,8 % að raungildi, að mestu leyti vegna vaxandi tekna af útfluttri þjónustu. Á innflutningshlið mælist hóflegur vöxtur en jöfnuður vöru- og þjónustuviðskipta mælist -2,5% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Áframhaldandi vöxtur einkaneyslu
Ekkert lát er á vexti einkaneyslunnar sem áætlað er að hafi aukist um 4,9% að raungildi frá sama tímabili síðasta árs. Líkt og undanfarin misseri eru það einkum ferðatengdir liðir sem standa að baki aukningunni. Kröftug einkaneysla þrátt fyrir umtalsverðar verðhækkanir á neysluvörum gætu verið vísbending um að heimilin séu að einhverju leyti að ganga á sparnað til að láta enda ná saman. Hagstofan birtir tölur um ráðstöfunartekjur heimilanna 14. júni n.k.

Hægur vöxtur samneyslunnar
Samneysla jókst um 1,7% á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2022. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi 2023 verða birtar 8. júní n.k.

Viðsnúningur í fjármunamyndun
Undanfarin misseri hefur hagvöxtur að töluverðu leyti verið drifinn áfram af aukinni fjármunamyndun. Á því varð nokkur breyting á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en í heild er áætlað að fjármunamyndunin hafi dregist lítillega saman að raungildi, um 0,1% miðað við sama tímabil árið áður. Samdráttur var einkum mikill í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis sem skýrir viðsnúninginn en áætlað er að byggingarframkvæmdir vegna íbúðarhúsnæðis hafi dregist saman um 14,4% miðað fyrir sama tímabil í fyrra. Eftir mikla aukningu á árunum 2016-2020 hefur heldur dregið úr fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis þó svo að framkvæmdastigið sé enn yfir meðaltali frá því eftir fjármálahrun.

Líkt og áður er fjármunamyndun atvinnuveganna stærsti undirliður fjármunamyndunar og er áætlað að hann hafi verið rúmir 135 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi og aukist að raungildi á milli ára um 3,6%. Fjármunamyndun hins opinbera jókst einnig eða um 7,1% frá sama tímabili árið áður.

Utanríkisviðskipti
Útflutningstekjur hafa vaxið hratt á undanförnum misserum og hefur sú þróun haldið áfram á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Í heild nemur magnaukning vöru- og þjónustuútflutnings 10,8% miðað við sama tímabil í fyrra. Það eru einkum auknar útflutningstekjur í tengslum við ferðaþjónustu sem standa að baki þessari þróun og því aukinn þjónustuútflutningur sem skilar mestu. Í heild jókst þjónustuútflutningur um 24,7% en vöruútflutningur jókst um 1,1% miðað við sama tímabil í fyrra, reiknað á föstu verðlagi.

Á innflutningshlið er einnig mikill munur á þróun vöru- og þjónustuliðanna. Vöruinnflutningur dróst saman að magni til um 0,2% miðað við sama tímabil í fyrra en þjónustuinnflutningur jókst um 12,4% miðað við sama tímabil. Magnbreyting vöru- og þjónustuinnflutnings í heild mælist 3,7% milli ára.

Samanlagður halli af vöru- þjónustuviðskiptum er áætlaður 24,2 milljarðar króna á tímabilinu sem svara til -2,5% af vergri landsframleiðslu tímabilsins. Halli á vöruviðskiptum nam 45,7 milljörðum króna en þjónustujöfnuður skilaði afgangi upp á 21,4 milljarða króna.

Birgðir aukast
Í heild jukust birgðir um 38,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi á verðlagi ársins. Líkt og venjulega jukust birgðir sjávarafurða í byrjun árs en aukningin að þessu sinni er óvenju mikil eða 35,9 milljarðar. Birgðir olíu minnkuðu um tæpar 800 milljónir króna en birgðir áls og annarra stóriðjuafurða jukust um 3,3 milljarða.

Vinnumagn jókst um 5,6% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 5,6% á fyrsta ársfjórðungi 2023 borið saman við sama tímabil árið 2022 og mælist fjölgun starfandi einstaklinga nánast sú sama eða 5,5%. Sé litið til einstakra atvinnugreina kemur í ljós að áberandi mest fjölgun vinnustunda var í byggingarstarfsemi og verslunar-, samgöngum og veitingargreinum á meðan minnst fjölgun vinnustunda var hjá hinu opinbera.

Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla jókst um 0,3% á milli ársfjórðunga
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 0,3% á fyrsta ársfjórðungi 2023 borið saman við fjórða ársfjórðung 2022. Árstíðaleiðrétt mældist 1,1% aukning í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,3% aukning í samneyslu og 11,5% samdráttur í fjármunamyndun. Á sama tímabili dróst árstíðaleiðréttur útflutningur saman um 2,4% og innflutningur um 7%.

Talnaefni