FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 31. ÁGÚST 2020

Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 9,3% að raungildi á 2. ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Það er mesti samdráttur sem mælst hefur síðan ársfjórðungslegar mælingar hófust hér á landi. Í mælingum á landsframleiðslu 2. ársfjórðungs gætir merkjanlegra áhrifa af heimsfaraldri Covid-19 og þeim aðgerðum sem gripið var til í þeim tilgangi að sporna gegn útbreiðslu hans hér á landi og á heimsvísu.

Takmarkanir á ferðalögum fólks á milli landa höfðu veruleg áhrif á bæði inn- og útflutning þjónustu á tímabilinu en í niðurstöðunum gætir einnig fjölþættra áhrifa samkomubanns á eftirspurn eftir vöru og þjónustu af ýmsu tagi hér á landi. Samkvæmt mælingum á vinnumagni, sem öllu jöfnu gefa sterka vísbendingu um framleitt magn vöru og þjónustu til endanlegra nota, dróst heildarfjöldi vinnustunda saman um 11,3% prósent á tímabilinu.

Á 2. ársfjórðungi drógust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, saman um 7,1% borið saman við sama tímabil árið 2019. Samdráttur í einkaneyslu mældist 8,3%, vöxtur samneyslu mældist 3,0% en fjármunamyndun dróst saman um 18,7%.

Umtalsverður samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi á 2. ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Útflutningur dróst saman um 38,8% en samdráttur í innflutningi mældist 34,8%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 5,4 milljarða króna á tímabilinu.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 9,1% milli 1. ársfjórðungs 2020 og 2. ársfjórðungs 2020.

Landsframleiðsla á 2. ársfjórðungi 2020
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi,%
2.ársfj. 2.ársfj. 1.-2. ársfj 2.ársfj.
Einkaneysla 362.456-8,3-4,0-9,0
Samneysla 196.4523,02,51,2
Fjármunamyndun 138.201-18,7-8,5-3,7
Birgðabreytingar 6.4500,6
Þjóðarútgjöld alls 703.560 -7,1 -2,4-4,2
Útflutningur vöru og þjónustu 215.555 -38,8 -28,6-32,4
Innflutningur vöru og þjónustu -220.967 -34,8 -22,9-22,1
Verg landsframleiðsla 698.148 -9,3 -5,7-9,1

Alþjóðlegur samanburður
Þrátt fyrir að samdráttur í landsframleiðslu Íslands mælist sögulega mikill benda fyrstu niðurstöður alþjóðlegs samanburðar til þess að samdrátturinn hafi víða verið umtalsvert meiri. Á það sérstaklega við um ríki sem talin eru hafa farið verst út úr heimsfaraldri Covid-19 á síðustu mánuðum. Þannig mældist samdrátturinn innan Evrópusambandsins í heild 11,7% að raungildi á 2. ársfjórðungi miðað við fyrri fjórðung, 20,4% í Bretlandi, 18,5% á Spáni og 13,8% í Frakklandi. Á sama tímabili mældist 4,5% samdráttur í Finnlandi, 5,1% samdráttur í Noregi, 7,4% samdráttur í Danmörku og 8,3% samdráttur í Svíþjóð. Í öllum tilvikum er um að ræða fyrstu bráðabirgðatölur sem hagstofur viðkomandi ríkja hafa birt á undanförnum vikum og eru settar fram með fyrirvara um aukna óvissu í niðurstöðum.

Árstíðaleiðréttar tölur. Heimildir: Eurostat, Hagstofa Svíþjóðar, Hagstofa Finnlands.

Einkaneysla dróst saman um 8,3% á 2. ársfjórðungi
Á tímabilinu dróst einkaneysla saman 8,3% borið saman við sama tímabil árið 2019. Gætir þar augljósra áhrifa af heimsfaraldri Covid-19 og þeirra aðgerða sem gripið var til hér á landi í þeim tilgangi að sporna gegn útbreiðslu hans. Samdráttur í útgjöldum Íslendinga erlendis nam 83,2% að raungildi á tímabilinu en áhrifa til lækkunar einkaneyslu gætir í flestum neysluflokkum. Í nokkrum undirliðum mældist þó aukning, svo sem í neyslu lyfja og annarra lækningarvara, rafrænni þjónustu og áfengis. Í nokkrum undirliðum gætir beinna áhrifa samkomutakmarkana. Má þar nefna samdrátt í kaupum á þjónustu fyrirtækja sem var gert að loka tímabundið á tímabilinu, s.s. snyrtiþjónustu. Samdráttur í kaupum á bifreiðum mældist sömuleiðis umtalsverður á tímabilinu eða tæplega 35% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2019.

Heildarfjármunamyndun dróst saman um 18,7%
Í heild dróst fjármunamyndun saman um 18,7% á 2. ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Þrátt fyrir myndarlegan vöxt í fjárfestingu hins opinbera á sviði vegaframkvæmda, mældist 17,3% samdráttur í fjármunamyndun hins opinbera á 2. ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs. Skýrist það meðal annars af grunnáhrifum í undirliðnum önnur opinber fjárfesting, sem jókst umtalsvert á 2. ársfjórðungi 2019 þegar ríkið fékk nýjan Herjólf afhentan og fjárfesting vegna hans var gjaldfærð. Ef fjárfesting ríkisins í Herjólfi er undanskilin jókst fjárfesting ríkisins um 15% að raungildi á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2019. Fjárfesting sveitarfélaga dróst hinsvegar saman um 9% borið saman við sama tímabil fyrra árs og mælist nokkuð minni á fyrri hluta þessa árs en áætlanir sveitarfélaganna gerðu ráð fyrir.

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dróst saman um 21,3% á 2. ársfjórðungi sem er mesti samdráttur sem mælst hefur síðan á 2. ársfjórðungi árið 2010. Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt á tímabilinu er umfang byggingarframkvæmda vegna íbúðarhúsnæðis enn mikið í sögulegu samhengi, eða sem nemur 5,2% af landsframleiðslu ársfjórðungsins. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur íbúðafjárfesting dregist saman um 13,6% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Eins og fram kom í fréttatilkynningu vegna niðurstaðna fyrir 1. ársfjórðung hefur hægt talsvert á skráningu nýrra byggingarleyfa og íbúða á fyrri byggingarstigum að undanförnu, sem öllu jöfnu telst góð vísbending um vænta þróun íbúðafjárfestingar.

Atvinnuvegafjárfesting dróst saman um 17,8% á tímabilinu en fyrstu sex mánuði ársins dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 4,7% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Fjármunamyndun atvinnuvega án skipa, flugvéla, stóriðju og tengdra greina dróst saman um 11,3% á 2. ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Neikvæður jöfnuður á vöru- og þjónustuviðskiptum
Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var 5,4 milljarðar króna á 2. ársfjórðungi 2020, borið saman við jákvæðan 8,7 milljarða króna jöfnuð á sama tíma árið 2019, á gengi hvors árs. Þar sem innflutningur dróst minna saman en sem nam samdrætti í útflutningi á 2. ársfjórðungi 2020, er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu.

Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 9,2 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2020. Vöruútflutningur nam 149,2 milljörðum króna og vöruinnflutningur nam 158,4 milljörðum króna á sama tímabili.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 3,7 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2020. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 66,4 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 62,6 milljörðum króna.

Fyrstu sex mánuði ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuð neikvæður um 1,1 milljarða króna en var jákvæður um 43,5 milljarða króna á sama tíma árið 2019.

Aukning í birgðum
Á 2. ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 6,5 milljarða króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung. Mest mældist aukningin í birgðastöðu áls en birgðir sjávarafurða jukust einnig nokkuð á tímabilinu.

Landsframleiðslan dróst saman um 5,7% fyrstu sex mánuði ársins
Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 dróst saman um 5,7% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 2,4%. Einkaneysla dróst að raungildi saman um 4,0%, samneysla jókst um 2,5% en fjármunamyndun dróst saman um 8,5%. Útflutningur dróst saman um 28,6% en innflutningur um 22,9%.

Landsframleiðsla á mann dróst saman um 0,3% árið 2019
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á 2. ársfjórðungi 2020, birtir Hagstofan nú fyrstu bráðabirgðatölur fyrir árið 2019 en áætluð landsframleiðsla út frá ársfjórðungsreikningum var birt 28. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2019 nam landsframleiðsla ársins 2.970 milljörðum króna og jókst að raungildi um 1,9% frá fyrra ári, samanborið við 3,9% vöxt árið áður. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,2%, dróst landsframleiðsla á mann saman um 0,3% að raungildi árið 2019.

Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Endurskoðun tímaraða sem fyrirhuguð var í tengslum við birtingu talnaefnis fyrir 2. ársfjórðung hefur verið frestað tímabundið og er gert ráð fyrir birtingu niðurstaðna samhliða útgáfu talnaefnis fyrir 3. ársfjórðung þann 30. nóvember n.k. Við endurskoðun verður sérstök áhersla lögð á flokkun hageininga (sector classification) í samræmi við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 og eru nú meðal annars nokkur álitaefni til skoðunar er snúa að afmörkun hins opinbera (general government sector) í íslenskum þjóðhagsreikningum. Í öllum tilvikum er um að ræða endurflokkun stofnana sem hingað til hafa verið flokkaðar utan hins opinbera. Við endurflokkun stofnana hins opinbera hefur í veigameiri álitaefnum verið leitað eftir formlegu áliti Eurostat. Nú þegar liggja fyrir álit varðandi flokkun Íbúðalánasjóðs og þeirra stofnana og sjóða sem tóku við hlutverki hans með lagabreytingum um síðustu áramót, sem og flokkun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (nú Menntasjóður námsmanna) og meðferð íslenskra námslána í þjóðhagsreikningum. Í báðum tilvikum er niðurstaðan sú að endurflokka eigi stofnanirnar og þær eigi að teljast sem hluti af hinu opinbera. Álitsgerðirnar hafa verið birtar opinberlega á vefsvæði Eurostat. Þá stendur einnig yfir vinna við endurskoðun aðferða við staðvirðingu samneyslu. Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.