FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 31. ÁGÚST 2021

Eftir sögulegan samdrátt í upphafi kórónuveirufaraldursins á öðrum ársfjórðungi 2020, þegar landsframleiðslan dróst saman um 10,5% að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs, gekk samdrátturinn að verulegu leyti til baka á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðslan hafi vaxið að raungildi um 7,3% á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs sem einkum skýrist af aukinni einkaneyslu og fjármunamyndun.

Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi vaxið um 3,5% að raungildi borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2020. Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi 2021 mælist þó enn um 4% minni að raungildi en hún var á öðrum ársfjórðungi 2019, fyrir faraldurinn.

Hlutdeild einstakra liða í hagvexti á öðrum ársfjórðungi
Á öðrum ársfjórðungi 2021 jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 9,4% að raungildi borið saman við sama tímabil ársins á undan. Vöxtur í einkaneyslu mældist 8,5%, vöxtur samneyslu 2,6% og vöxtur í fjármunamyndun 25,9%.

Umtalsverð aukning mældist í bæði inn- og útflutningi á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs en þar sem vöxtur innflutnings mældist meiri en sem nemur vexti útflutnings er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu. Útflutningur jókst um 27,9% en innflutningur um 32,8%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 30,5 milljarða króna á tímabilinu.

Áhrif kórónuveirufaraldursins
Í mælingum þjóðhagsreikninga gætir enn beinna og óbeinna áhrifa kórónuveirufaraldursins, meðal annars breyttra sóttvarnarreglna sem innleiddar voru samhliða almennum bólusetningum á fyrri hluta ársins 2021. Fullt afnám takmarkana á samkomum innanlands tók þó ekki gildi fyrr en undir lok viðmiðunartímabilsins og veigamestu breytingarnar á sóttvörnum á landamærum tóku gildi eftir lok þess.

Árstíðaleiðréttur hagvöxtur
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 4,2% milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2021. Borið saman við sama tímabil fyrra árs jókst árstíðarleiðrétt landsframleiðslan um 8,6% að raungildi á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi 2021
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, %
2. ársfj. 2. ársfj. 1. - 2. ársfj 2. ársfj. 2. ársfj.
Einkaneysla 405.5888,54,7-0,88,5
Samneysla 228.0472,62,70,52,7
Fjármunamyndun 201.19425,913,127,126,1
Birgðabreytingar -7.789-1,2
Þjóðarútgjöld alls 827.040 9,4 5,95,310,9
Útflutningur vöru og þjónustu 287.149 27,9 1,67,525,8
Innflutningur vöru og þjónustu -317.694 32,8 8,210,432,5
Verg landsframleiðsla 796.496 7,3 3,54,28,6

Vinnustundum fjölgaði um 2,3%
Samkvæmt mælingum á vinnumagni, sem öllu jöfnu gefa sterka vísbendingu um framleitt magn vöru og þjónustu til endanlegra nota, jókst heildarfjöldi vinnustunda um 2,3% prósent á tímabilinu borið saman við annan ársfjórðung 2020. Heildarfjöldi vinnustunda mælist þó enn um 9,6% minni en hann var á öðrum ársfjórðungi 2019, eða sem nemur samdrætti um nærri 7 milljónir vinnustunda á ársfjórðungsgrunni.

Alþjóðlegur samanburður
Samkvæmt nýjustu birtu tölum um þróun hagvaxtar í löndum innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum gætir almennt viðsnúnings í þróun landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil fyrra árs sem einkenndist af sögulegum efnahagssamdrætti í heiminum. Innan evrusvæðisins mældist samdrátturinn til að mynda 14,4% á öðrum ársfjórðungi 2020 en 13,6% hagvöxtur á sama tímabili í ár. Í öllum tilvikum er um að ræða fyrstu árstíðaleiðréttar bráðabirgðatölur sem hagstofur viðkomandi ríkja hafa birt á undanförnum vikum og eru settar fram með hefðbundum fyrirvörum.

Einkaneysla jókst um 8,5% á 2. ársfjórðungi
Á öðrum ársfjórðungi 2021 jókst einkaneysla um 8,5% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2020. Útgjöld Íslendinga erlendis jukust um 54,1% en samdrátturinn í útgjöldum Íslendinga erlendis mældist 80% á sama tímabili árið 2020. Aukning í kaupum heimila á bifreiðum mældist ríflega 72% á tímabilinu borið saman við tæplega 35% samdrátt á sama tímabili árið 2020. Fyrstu sex mánuði ársins hefur einkaneysla aukist um 4,7% borið saman við sama tímabil árið 2020.

Samneysla jókst um 2,6%
Áætlað er að samneysla hafi aukist um 2,6% að raungildi á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabili árið 2020. Aukningu í samneyslu á tímabilinu má að stærstu leyti rekja til aukningar í kaupum á vöru og þjónustu hjá hinu opinbera. Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að samneysla hafi aukist um 2,7% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2020.

Heildarfjármunamyndun jókst um 25,9%
Í heild jókst fjármunamyndun um 25,9% að raungildi á öðrum ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Heildarfjármunamyndun atvinnuvega jókst um 41,9% á tímabilinu en án fjárfestingar í skipum, flugvélum og stóriðjutengdri starfsemi mældist vöxturinn 17,5%. Skýrist munurinn af umtalsverðri aukningu í fjárfestingu í skipum og flugvélum á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2020 eða sem nam tæplega 300%. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjárfestingu ýmist til hækkunar eða lækkunar. Þessi stærð skiptir oft sköpum varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum en áhrif á landsframleiðslu eru aftur á móti minniháttar þar sem fjárfestingaráhrifin vega á móti áhrifum á utanríkisviðskipti. Fyrstu sex mánuði ársins hefur fjármunamyndun atvinnuvega vaxið um 21,7% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2020.

Fjármunamyndun atvinnuvega (valdir liðir)
2020 2021
Raunbreytingar frá sama tímabili árið áður, % 1. ársfj. 2. ársfj. 3. ársfj. 4. ársfj. Allt árið 1. ársfj. 2. ársfj.
Í stóriðju og tengdum greinum-23,2-34,8-28,3-4,5-22,0-9,714,2
Í skipum, flugvélum og tengdum búnaði2.647,4-11,6-64,3-73,9-19,2-67,1299,5
Án skipa, flugvéla, stóriðju og tengdra greina-19,9-9,8-17,11,1-11,914,617,5

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dróst saman um 2,9% á öðrum ársfjórðungi. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dregist saman um 6,7% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2020.

Aukning í fjármunamyndun hins opinbera mældist 15,1% á öðrum ársfjórðungi borið saman við sama tímabil árið 2020 en fyrstu sex mánuði ársins nam aukningin 14,1% borið saman við sama tímabil ársins 2020.

Aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum
Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var 30,5 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi 2021, borið saman við 17,4 milljarða króna halla á sama tíma árið 2020, á gengi hvors árs. Þar sem innflutningur jókst meira en sem nam auknum útflutningi á öðrum ársfjórðungi 2021 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu.

Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 55,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2021. Vöruútflutningur nam 183,8 milljörðum króna og vöruinnflutningur nam 239,6 milljörðum króna á sama tímabili.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 25,2 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2021. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 103,3 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 78,1 milljarði.

Fyrstu sex mánuði ársins 2021 var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 59 milljarða króna en var neikvæður um 19,8 milljarða á sama tíma árið 2020 á gengi hvors árs.

Samdráttur í birgðum
Á öðrum ársfjórðungi 2021 dróst heildarverðmæti birgða saman um 7,8 milljarða króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung. Mestur samdráttur mældist í birgðum sjávarafurða en birgðir af áli og olíu jukust lítilega á tímabilinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.