FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 31. ÁGÚST 2023

Landsframleiðslan jókst að raungildi um 4,5% á öðrum ársfjórðungi 2023 frá sama tímabili árið áður samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga. Hagvöxturinn var fyrst og fremst drifinn áfram af vaxandi útflutningstekjum sem rekja má til ferðaþjónustu sem hefur vaxið hratt undanfarin misseri.

Að öðru leyti gætir áhrifa breyttra aðstæðna í þjóðarbúskapnum sem rekja má til yfirstandandi verðbólguhrinu og hratt vaxandi aðhalds í peningamálum.

Þjóðarútgjöldin, þ.e. samtala neysluútgjalda og fjármunamyndunar, jukust um 1,4% að raungildi frá sama tímabili á síðasta ári en hafa verður í huga að íbúum landsins fjölgar hratt um þessar mundir. Að teknu tilliti til 3,4% mannfjöldaaukningar var því um 1,9% samdrátt þjóðarútgjalda að ræða frá sama tímabili í fyrra.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist að raungildi um 2,2% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2023.

Einkaneysla á mann dregst saman
Í heild jókst einkaneysla að raungildi á öðrum ársfjórðungi 2023 um 0,5% frá sama tímabili árið áður en að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar á sama tímabili er um 2,8% samdrátt að ræða á mann. Þetta er töluverður viðsnúningur en einkaneyslan hefur verið drifkraftur hagvaxtar undanfarin misseri. Samdráttur í útgjöldum Íslendinga erlendis um tæp 10% að raungildi skýrir að miklu leyti þennan viðsnúning.

Samneyslan eykst lítillega
Aukning samneyslunnar um 1,6% á öðrum ársfjórðungi 2023 er svipaður taktur og verið hefur undanfarna ársfjórðunga sem er, eins og í tilviki einkaneyslunnar, undir vexti mannfjöldans á tímabilinu. Magnbreyting launa í samneyslu er áætluð 1,3% og magnaukning vöru og þjónustu er áætluð 1,9%. Veltubreyting samneyslunnar í heild er áætluð 9,3% og verðbreytingin 7,5%.

Fjármunamyndun
Í heild sýna niðurstöður að fjármunamyndun á öðrum ársfjórðungi 2023 jókst að raungildi um 1,6% frá sama tímabili árið áður. Á sama tíma og fjármunamyndun atvinnuveganna jókst um 7,5% mælist töluverður samdráttur í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis og starfsemi hins opinbera. Hvað varðar fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis er niðurstaðan 5,4% samdráttur frá sama tímabili árið áður en mikilvægt er að hafa í huga að nokkur óvissa ríkir um gæði grunngagna fyrir þennan þátt fjármunamyndunarinnar. Fjármunamyndun hins opinbera dróst saman um 9% að magni til á milli ára sem að miklu leyti má rekja til minna umfangs í opinberum framkvæmdun sveitarfélaganna.

Vöru- og þjónustuviðskipti í jafnvægi
Á öðrum ársfjórðungi 2023 var afgangur upp á rúma 3,6 milljarða króna á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Það skiptist í tvö horn. Rúmlega 84,1 milljarðs króna halli af vöruviðskiptum er veginn upp af rúmlega 87,7 milljarða króna afgangi af þjónustuviðskiptum.

Fyrstu sex mánuði ársins er aftur á móti nokkur halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd eða rétt um 18 milljarðar króna. Til samanburðar var tæplega 7,9 milljarða króna halli á sama tímabili í fyrra.

Birgðir dragast saman
Litlar breytingar mælast í birgðahaldi í þessu uppgjöri þjóðhagsreikninga. Í heild drógust birgðir saman um 17,5 milljarða króna sem skýrist að mestu leyti af 18 milljarða króna birgðalækkun í útflutningsbirgðum sjávarafurða.

Ísland ofarlega á hagvaxtarlistanum
Í samanburði við önnur lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Bandaríkin og Japan var hagvöxtur á Íslandi í hærri kantinum. Í alþjóðlegum samanburði af þessu tagi er yfirleitt miðað við árstíðaleiðréttar tölur um hagvöxt á milli samliggjandi ársfjórðunga. Á þann mælikvarða mældist hagvöxtur hér á landi 2,2% samanborið við óbreytta landsframleiðslu innan Evrópusambandsins (ESB). Mesti hagvöxtur í ESB mældist á Írlandi, eða 3,3%, en sá vöxtur er að miklu leyti til kominn vegna áhrifa af starfsemi fjölþjóðafyrirtækja sem tengjast landinu.

Vinnustundum fjölgar
Tölur um vinnumagn á öðrum ársfjórðungi eru í góðu samræmi við niðurstöður þjóðhagsreikninga en heildarfjöldi vinnustunda jókst um 4,9% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Á sama tímabili er áætlað að fjöldi starfandi einstaklinga hafi aukist um 5,3% og að störfum hafi fjölgað um 4,9%. Athygli vekur fækkun vinnustunda í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum en þá fækkun má alfarið rekja til áhrifa í sjávarútvegi.

Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla jókst um 2,2% á milli ársfjórðunga
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 2,2% á öðrum ársfjórðungi 2023 borið saman við fyrsta ársfjórðung 2023. Árstíðaleiðrétt mældist 0,2% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,5% aukning í samneyslu og 4,5% aukning í fjármunamyndun. Á sama tímabili jókst árstíðaleiðréttur útflutningur um 2,8% og innflutningur um 0,2% að raungildi.

Uppfærðar niðurstöður þjóðhagsreikninga 2019-2022
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á öðrum ársfjórðungi 2023 birtir Hagstofan nú bráðabirgðatölur* fyrir árið 2022 en áætluð landsframleiðsla út frá ársfjórðungsreikningum var birt 28. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2022 nam landsframleiðsla ársins 3.797 milljörðum króna og jókst að raungildi um 7,2% frá fyrra ári samanborið við 4,5% árið áður. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,5%, jókst landsframleiðsla á mann um 4,6% að raungildi árið 2022.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árin 2019, 2020 og 2021 hafa einnig verið endurskoðaðar.

Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er sú að við útgáfu árstalna í febrúar og ágúst eru niðurstöður þriggja ára (2020-2022) opnar til endurskoðunar en að þessu sinni voru einnig gerðar leiðréttingar fyrir árið 2019. Eldri niðurstöður teljast endanlegar en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði.


Talnaefni um þjóðartekjur og framleiðsluuppgjör verður uppfært 6. september.

*Um tveimur mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur birtir Hagstofa Íslands áætlaða landsframleiðslu fjórða ársfjórðungs næstliðins árs og um leið fyrstu áætlun (e. provisional) um landsframleiðslu ársins í heild. Um er að ræða samtölu ársfjórðungslegra mælinga samkvæmt ráðstöfunaraðferð. Fyrstu niðurstöður sem skilgreindar eru sem bráðabirgðatölur (e. preliminary estimates) eru birtar um átta mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur. Niðurstöður þjóðhagsreikninga eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur þar til um 26 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur en geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem tilefni gefst.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.