FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 30. ÁGÚST 2024

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,3% að raungildi á öðrum ársfjórðungi 2024 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur skýrist af umskiptum í vöru- og þjónustuviðskiptum ásamt samdrætti í einkaneyslu.

Talið er að einkaneysla hafi dregist saman um 0,9%, en hins vegar er talið að samneysla hafi aukist um 2,7%, fjármunamyndun um 4,6% og birgðabreytingar um 0,6%. Þjóðarútgjöldin, þ.e. samtala neysluútgjalda og fjármunamyndunar, jukust því um 2% að raungildi frá sama tímabili á síðasta ári.

Leiðrétt fyrir árstíðarbundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 1,7% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2024.

Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 1,9% að raungildi borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2023.

Framlag utanríkisviðskipta vó þyngst í samdrætti
Aukinn halli á vöruviðskiptum og minni afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd veldur því að vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um ríflega 22 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður á sama tíma árið 2023 og valda þessi umskipti því að framlag utanríkisviðskipta hefur neikvæð áhrif á landsframleiðsluna um 3%.

Einkaneysla dróst saman um 0,9%
Einkaneysla dróst saman um 0,9% á öðrum ársfjórðungi að raungildi miðað við sama tímabil fyrra árs. Hér vegur þyngst mikill samdráttur í neyslu varanlegra neysluvara eins og kaupum á bifreiðum líkt og á fyrsta ársfjórðungi en jafnframt var almennt samdráttur í kaupum heimilanna á þjónustu. Á öðrum ársfjórðungi dróst neysla Íslendinga erlendis saman um 3% að raungildi en að sama skapi jókst innlend neysla (óvaranlegra neysluvara) lítillega.

Samneysla jókst um 2,7%
Magnbreyting samneyslu frá öðrum ársfjórðungi 2024 frá sama tímabili 2023 er áætluð 2,7%. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á öðrum ársfjórðungi 2024 verða birtar 12. september n.k.

Fjármunamyndun jókst um 4,6%
Í heild sýna niðurstöður að fjármunamyndun á öðrum ársfjórðungi 2024 jókst að raungildi um 4,6% frá sama tímabili árið áður. Áætlað er að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi aukist um 7,1% og fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis um 3,4% en starfsemi hins opinbera dregist saman um 4,3%, mest í fjármunamyndun sveitafélaga.

Birgðir drógust saman
Á öðrum ársfjórðungi minnkaði heildarverðmæti birgða um 12,8 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga. Þetta má að mestu rekja til samdráttar í birgðastöðu sjávarafurða um 17,8 milljarða og birgðaaukningu í öðrum flokkum sem vegur á móti.

Vinnumagn jókst um 4,7% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 4,7% á öðrum ársfjórðungi 2024 borið saman við sama tímabil árið 2023 en fjölgun starfandi einstaklinga jókst hins vegar um 2,3%.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 1,7%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi jókst að raungildi um 1,7% frá fyrsta ársfjórðungi. Árstíðaleiðrétt mældist 0,8% samdráttur í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,9% aukning í samneyslu og 9% aukning í fjármunamyndun. Á sama tímabili dróst árstíðaleiðréttur útfluningur saman um 0,1% á meðan að innflutningur jókst um 0,5% að raungildi.

Uppfærðar niðurstöður þjóðhagsreikninga 2021-2023
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga á öðrum ársfjórðungi 2024 birtir Hagstofan nú bráðabirgðatölur* fyrir árið 2023 en áætluð landsframleiðsla út frá ársfjórðungsreikningum var birt 29. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2023 nam landsframleiðsla ársins 4.321 milljörðum króna og jókst að raungildi um 5% frá fyrra ári samanborið við 9% árið áður. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,5%, jókst landsframleiðsla á mann um 2,4% að raungildi árið 2023.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árin 2021, 2022 og 2023 hafa einnig verið endurskoðaðar.

Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna í febrúar og ágúst eru niðurstöður þriggja ára (2021-2023) opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar en þó geta tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði.

Framleiðsluuppgjörið
Talnaefni fyrir framleiðsluuppgjörið verður birt í September næstkomandi.

*Um tveimur mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur birtir Hagstofa Íslands áætlaða landsframleiðslu fjórða ársfjórðungs næstliðins árs og um leið fyrstu áætlun um landsframleiðslu ársins í heild. Um er að ræða samtölu ársfjórðungslegra mælinga samkvæmt ráðstöfunaraðferð. Fyrstu niðurstöður sem skilgreindar eru sem bráðabirgðatölur eru birtar um átta mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur. Niðurstöður þjóðhagsreikninga eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur þar til um 26 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur en geta engu að síður tekið breytingum eftir því sem nauðsyn krefst.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.