FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 30. NÓVEMBER 2020

Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 10,4% að raungildi á þriðja ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Til samanburðar er áætlað að landsframleiðsla á evrusvæðinu hafi á sama tímabili dregist saman um 4,4% á tímabilinu miðað við sama tímabil árið 2019.

Þjóðarútgjöld hér á landi, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, drógust saman um 2,7%. Þennan mikla samdrátt í landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi má því að mestu leyti rekja til neikvæðra áhrifa utanríkisviðskipta. Þar vegur þyngst samdráttur í útflutningi ferðaþjónustu sem dróst saman um 77% á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2019. Mælt á verðlagi hvors árs nam samdráttur í útflutningi ferða- og samgönguþjónustu tæplega 139 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil árið 2019.

Áætlað er að einkaneysla hafi dregist saman um 2,3% að raungildi á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung í fyrra. Samdráttur í fjármunamyndun er áætlaður 15,2% en áætlað er að samneysla hafi aukist að raungildi um 4,4% á sama tímabili.

Umtalsverður samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Útflutningur dróst saman um 38,8% en samdráttur í innflutningi mældist 26,3%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 13,6 milljarða króna á tímabilinu.

Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 8,1% borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2019.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 2,6% á milli annars og þriðja ársfjórðungs 2020.

Landsframleiðsla á 3. ársfjórðungi 2020
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi, %
3. ársfj. 3. ársfj. 1.-3. ársfj 3. ársfj.
Einkaneysla 377.656-2,3-3,58,2
Samneysla 200.0154,43,51,4
Fjármunamyndun 148.819-15,2-11,4-0,9
Birgðabreytingar 17.1810,9
Þjóðarútgjöld alls 743.671 -2,7 -2,6 4,5
Útflutningur vöru og þjónustu 244.493 -38,8 -32,5 3,6
Innflutningur vöru og þjónustu -258.064 -26,3 -22,6 9,9
Verg landsframleiðsla 730.099 -10,4 -8,1 2,6

Alþjóðlegur samanburður
Sé miðað við raunbreytingu landsframleiðslu borið saman við sama tímabil fyrra árs, sem er venjan hér á landi, mælist mestur samdráttur á Íslandi af þeim Evrópulöndum sem birt hafa áætlanir sínar um þróun landsframleiðslunnar á þriðja ársfjórðungi. Næst mestur samdráttur er áætlaður í Bretlandi, 9,6%. Samkvæmt birtum áætlunum dróst landsframleiðsla saman um 4,4% að meðaltali innan evrusvæðisins á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs en samdráttur mælist í öllum þeim löndum sem hafa birt bráðabirgðaniðurstöður fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs.

Borið saman við annan ársfjórðung, árstíðarleiðrétt, er aftur á móti áætlað að landsframleiðsla á evrusvæðinu hafi aukist um 12,6% að raungildi á þriðja ársfjórðungi borið saman við 11,8% samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar er áætlað að landsframleiðsla á Íslandi hafi aukist um 2,6% að raungildi á milli annars og þriðja ársfjórðungs, árstíðarleiðrétt.

Heimild: Eurostat

Einkaneysla dróst saman um 2,3% á þriðja ársfjórðungi
Á tímabilinu dróst einkaneysla saman um 2,3% borið saman við sama tímabil árið 2019 en fyrstu níu mánuði ársins hefur einkaneysla dregist saman um 3,5% að raungildi. Töluverð aukning var í bifreiðakaupum heimila á þriðja ársfjórðungi borið saman við fyrra ár en töluverður samdráttur mældist aftur á móti í þeim lið á öðrum ársfjórðungi. Stór hluti aukningar í bílakaupum heimila má rekja til aukins innflutnings og sölu á rafknúnum bílum sem hefur farið mjög vaxandi á þessu ári. Neysla Íslendinga erlendis dróst saman um tæplega 70% á þriðja ársfjórðungi sem endurspeglar áhrif kórónuveirufaraldursins á heimsvísu sem og áhrif hertra aðgerða á landamærum sem tóku gildi hér á landi 19. ágúst sl.

Heildarfjármunamyndun dróst saman um 15,2%
Í heild dróst fjármunamyndun saman um 15,2% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Töluverður vöxtur mældist í fjárfestingum á vegum ríkisins á tímabilinu sem meðal annars skýrist af auknum vegaframkvæmdum auk þess sem áhrifa gætir af framkvæmdum tengdum byggingu nýs Landspítala á tímabilinu. Umtalsverður samdráttur mældist hins vegar í fjárfestingu sveitarfélaga en samkvæmt gögnum Hagstofunnar frá stærstu sveitarfélögum landsins er uppsöfnuð fjárfesting þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins töluvert undir birtum áætlunum. Þess ber að geta að upplýsingar um fjárfestingar ríkis eru almennt nákvæmari en upplýsingar um fjárfestingar sveitarfélaga sem sögulega hafa reynst háðar meiri óvissu en upplýsingar um umfang og framvindu framkvæmda á vegum ríkis. Samanlagt mældist samdráttur í fjárfestingum hins opinbera á tímabilinu eða um 6,7% að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dróst saman um 6,9% á þriðja ársfjórðungi sem er töluvert minni samdráttur en mældist á öðrum ársfjórðungi. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár hafa útgefin byggingaleyfi ekki verið færri í a.m.k. áratug en sú stærð telst öllu jöfnu góð vísbending um vænta þróun íbúðafjárfestingar. Aukning í fjölda fullgerðra íbúðaeininga hefur aftur á móti ekki mælst meiri á milli ársfjórðunga síðan á árinu 2008. Fyrstu níu mánuði ársins hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dregist saman um 10,7% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2019. Almennt hefur hægt á fjárfestingu í flestum atvinnugreinum en áætlað er að atvinnuvegafjárfesting hafi dregist saman um 21,8% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að atvinnuvegafjárfesting hafi dregist saman um 9,9% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2019.

Neikvæður jöfnuður á vöru- og þjónustuviðskiptum
Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var 13,6 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2020 borið saman við jákvæðan 60,4 milljarða króna jöfnuð á sama tíma árið 2019 á gengi hvors árs. Þar sem innflutningur dróst minna saman en sem nam samdrætti í útflutningi á þriðja ársfjórðungi 2020 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu.

Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 33,9 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020. Vöruútflutningur nam 154 milljörðum króna og vöruinnflutningur nam 188 milljörðum króna á sama tímabili.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 20,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 90,5 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 70,1 milljarði króna.

Fyrstu níu mánuði ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 30,5 milljarða króna en var jákvæður um 109,4 milljarða króna á sama tíma árið 2019.

Aukning í birgðum
Á þriðja ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 17,2 milljarða króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung sem að stærstum hluta skýrist af aukinni birgðastöðu sjávarafurða. Einnig mældist nokkur aukningin í birgðastöðu áls en samdráttur var í birgðastöðu kísiljárns og annarra rekstrarvara á tímabilinu.

Landsframleiðslan dróst saman um 8,1% á fyrstu níu mánuðum ársins
Áætlað er að landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 hafi dregist saman um 8,1% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2019. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 2,6%. Einkaneysla dróst að raungildi saman um 3,5%, samneysla jókst um 3,5% en fjármunamyndun dróst saman um 11,4%. Útflutningur dróst saman um 32,5% en innflutningur um 22,6%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.