Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi 2021 hafi numið tæplega 845 milljörðum króna á verðlagi ársins og hafi aukist um 6% að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 er áætlað að landsframleiðsla hafi aukist um 4,1% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2020.

Áætlað er að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi aukist um 5,5% að raungildi á þriðja ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil árið 2020. Áætlað er að einkaneysla hafi aukist um 6,1%, samneysla um 0,7% og fjármunamyndun um 15,7%.

Umtalsverður vöxtur mældist í bæði inn- og útflutningi á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á tímabilinu er áætlað að innflutningur vöru og þjónustu hafi aukist um 29,2% en útflutningur um 31,2%. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 12,9 milljarða króna á tímabilinu. Í niðurstöðum mælinga utanríkisviðskipta gætir umtalsverðra áhrifa af bæði aukningu í komum erlendra ferðamanna til Íslands sem og aukningu í ferðalögum Íslendinga til útlanda.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 2,3% á milli annars og þriðja ársfjórðungs 2021.

Áhrif kórónuveirufaraldursins
Þrátt fyrir að samdráttur í landsframleiðslu á árinu 2020 hafi gengið að talsverðu leyti til baka á árinu 2021 mælist landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi þessa árs enn um 3,7% minni að raungildi en á sama tímabili árið 2019. Að teknu tilliti til mannfjöldaþróunar mælist landsframleiðsla á tímabilinu 6,8% minni að raungildi (landsframleiðsla á mann) en á þriðja ársfjórðungi 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Einkaneysla jókst um 6,1% á þriðja ársfjórðungi
Á þriðja ársfjórðungi 2021 jókst einkaneysla um 6,1% borið saman við sama tímabil árið 2020 en fyrstu níu mánuði ársins hefur einkaneysla aukist um 5,4% að raungildi. Aukning í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi skýrist að umtalsverðu leyti af aukningu í neyslu Íslendinga erlendis á tímabilinu borið saman við sama tímabil í fyrra þegar strangari ferðatakmarkanir voru í gildi á landamærum hér á landi og annars staðar. Þá mældist einnig talsverð aukning í bílakaupum heimila á tímabilinu borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Hægur vöxtur samneyslu á þriðja ársfjórðungi
Áætlað er að samneysla hafi aukist um 0,7% að raungildi á þriðja ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs en til samanburðar mældist talverð aukning í samneyslu á þriðja ársfjórðungi 2020 eða 4,3% að raungildi og 4,5% yfir árið 2020 í heild borið saman við fyrra ár.

Heildarfjármunamyndun jókst um 15,7%
Í heild er áætlað að fjármunamyndun hafi aukist um 15,7% að raungildi á þriðja ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Vöxtur mældist í fjármunamyndun flestra atvinnugreina á tímabilinu en í heild er ætlað að fjármunamyndun atvinnuvega hafi aukist um 32,7% á þriðja ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil árið 2020. Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að fjármunamyndun atvinnuvega hafi aukist um 24,4% að raungildi borið saman við sama tímabil á síðasta ári.

Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 8,5% borið saman við sama tímabil fyrra árs sem er nokkuð minna en áætlanir gáfu til kynna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur framvinda fjárfestinga sveitarfélaga verið talsvert undir því sem áætlanir þeirra gerðu ráð fyrir en frávik frá áætlunum ríkisins eru minni. Þess ber að geta að upplýsingar um fjárfestingar hjá ríkinu eru almennt nákvæmari en upplýsingar um fjárfestingar sveitarfélaga sem sögulega hafa reynst háðar meiri óvissu í mælingum innan ársins. Fyrstu níu mánuði ársins 2021 er áætlað að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 9,9% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2020.

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dróst saman um 9,8% á þriðja ársfjórðungi sem endurspeglar bæði samdrátt í fjölda íbúðaeininga í byggingu og fjölda fullgerðra íbúðaeininga. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár fjölgaði útgefnum byggingarleyfum (byggingarstig 1) hins vegar umtalsvert á þriðja ársfjórðungi en sú stærð telst að öllu jöfnu góð vísbending um framvísa þróun íbúðafjárfestingar. Borið saman við sama tímabil árið 2020 fjölgaði íbúðaeiningum sem skráðar eru á því byggingarstigi um ríflega 80% á þriðja ársfjórðungi 2021. Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafi dregist saman um 7,5% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2020.

Þrátt fyrir samdrátt á ársfjórðungsgrunni mælist fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði að raungildi yfir sögulegu meðaltali síðasta aldarfjórðungs. Frá árinu 1995 hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði numið að meðaltali 4,1% af vergri landsframleiðslu hvers ársfjórðungs en nam 5,2% af landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi 2021. Hæst var hlutfallið á fjórða ársfjórðungi 2007 eða 7,2% en lægst á fyrsta ársfjórðungi 2010, tæplega 2%.

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd
Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 12,9 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2021, borið saman við neikvæðan 12,2 milljarða króna jöfnuð á sama tíma árið 2020, á gengi hvors árs. Þar sem útflutningur jókst meira en sem nam aukningu í innflutningi á þriðja ársfjórðungi 2021, er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar jákvætt á tímabilinu. Er það í fyrsta skipti síðan á fjórða ársfjórðungi 2019 sem framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar mælist jákvætt á ársfjórðungsgrunni.

Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 47,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2021. Vöruútflutningur nam 192,1 milljarði króna og vöruinnflutningur nam 239,5 milljörðum króna á sama tímabili.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 60,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2021. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 164,1 milljarði króna og innflutningur á þjónustu 103,8 milljörðum króna.

Aukning í birgðum
Á þriðja ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 9,7 milljarða króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung sem að stærstum hluta skýrist af aukinni birgðastöðu sjávarafurða. Einnig mældist nokkur aukningin í birgðastöðu áls en samdráttur var í birgðastöðu kísiljárns og annarra rekstrarvara á tímabilinu.

Landsframleiðsla á 3. ársfjórðungi 2021
  Verðlag ársins millj. kr. Magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs, % Árstíðarleiðrétt magnbreyting frá fyrri ársfjórðungi, %
3. ársfj. 3. ársfj. 1.-3. ársfj 3. ársfj.
Einkaneysla 411.0896,15,43,3
Samneysla 218.2330,72,00,0
Fjármunamyndun 193.01715,713,3-8,0
Birgðabreytingar 9.677-79,4
Þjóðarútgjöld alls 832.015 5,5 5,7 -0,3
Útflutningur vöru og þjónustu 356.190 31,2 11,2 0,7
Innflutningur vöru og þjónustu -343.319 29,2 15,2 5,6
Verg landsframleiðsla 844.887 6,0 4,1 -2,3

Starfandi einstaklingum fjölgaði um 4,3% en unnum stundum um 3%
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 3% á þriðja ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil árið 2020 en starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 4,3% á sama tímabili. Þrátt fyrir aukningu í vinnumagni á milli ára er áætlað að fjöldi vinnustunda á þriðja ársfjórðungi þessa árs hafi verið um 3% minni en þær voru á þriðja ársfjórðungi 2019. Áætlaður fjöldi starfandi einstaklinga var 1,1% minni á þriðja ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil árið 2019.

Vinnumagn eftir atvinnugreinabálkum á 3. ársfjórðungi 2021
  Breyting frá sama tímabili fyrra árs, %
  Fjöldi vinnustunda Fjöldi starfandi
A. Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar -5,8 0,0
B-E. Framleiðsla, námugröftur, veitustarfsemi og meðhöndlun úrgangs 1,1 2,5
F. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 3,1 5,6
G-I. Heildsala og verslun, samgöngur, rekstur veitinga- og gististaða 9,7 7,0
J. Upplýsingar og fjarskipti 4,4 6,3
K. Fjármála- og vátryggingastarfsemi -2,1 0,0
M-N. Ýmis sérhæfð þjónusta 9,2 8,9
O-Q. Opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta -1,2 2,1
R-U. Önnur starfsemi 3,8 5,8
Samtals 3,0 4,3

Landsframleiðslan jókst um 4,1% á fyrstu níu mánuðum ársins
Áætlað er að landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 hafi aukist um 4,1% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2020. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 5,7%. Einkaneysla jókst að raungildi um 5,4%, samneysla um 2% og fjármunamyndun um 13,3%. Útflutningur jókst um 11,2% en innflutningur um 15,2%.

Talnaefni
Landsframleiðsla
Fjármunamyndun
Vinnumagn og framleiðni