FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 30. NÓVEMBER 2022

Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu (VLF) um 997,8 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi þessa árs og vöxtur hennar á föstu verðlagi (hagvöxtur) um 7,3% miðað við sama tímabil í fyrra. Útflutningur var helsti drifkraftur hagvaxtar en að honum frátöldum hafði einkaneysla mest áhrif. Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist VLF að raunvirði um 7,4% meiri en á sama tíma í fyrra en um 3,7% meiri ef miðað er við sama tíma árið 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Áætlað er að vöxtur þjóðarútgjalda á þriðja ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung í fyrra hafi reynst 4,8% og af undirliðum þeirra jókst einkaneysla mest eða um 7,2% að raunvirði, fjármunamyndun um 2,2% og samneysla um 1,8%.

Á þriðja ársfjórðungi varð áframhald á kröftugum vexti útflutnings líkt og á undanförnum fimm fjórðungum. Áætlað er að vöxtur útflutnings hafi numið 22,9% sem má að miklu leyti rekja til útfluttrar þjónustu. Að sama skapi reyndist vöxtur innflutnings mikill samhliða umsvifum í hagkerfinu og nam um 18% miðað við sama tíma fyrir ári. Á þriðja ársfjórðungi er áætlað að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi mælst jákvætt um 1,9% og að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi numið um 4,0% af VLF samanborið við 2,1% á sama ársfjórðungi í fyrra.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,5% að raunvirði á milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs.

VLF á föstu verðlagi hærri en fyrir faraldurinn
Þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir árið 2020 og sóttvarnaraðgerðir voru við lýði dró úr umsvifum í hagkerfinu sem merkja má á þróun VLF á þeim tíma. Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að VLF á föstu verðlagi hafi ekki mælst meiri síðan faraldurinn reið yfir og á þriðja ársfjórðungi var hún um 3,8% hærri en á sama tíma árið 2019. VLF á mann á föstu verðlagi hefur aftur á móti ekki náð því marki og mælist um 2,2% lægri en á sama tíma árið 2019.

Vöxtur einkaneyslu á fyrstu níu mánuðum ársins 10,9%
Á þriðja ársfjórðungi 2022 jókst einkaneysla um 7,2% að raunvirði borið saman við sama tímabil árið 2021 og á fyrstu níu mánuðum líðandi árs hefur hún aukist um 10,9% að raunvirði frá fyrra ári. Vöxtur einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi er að mestu borinn uppi af auknum útgjöldum Íslendinga erlendis sem endurspeglar mikinn fjölda þeirra sem hafa lagt land undir fót. Aftur á móti sýna niðurstöður þjóðhagsreikninga að á þriðja ársfjórðungi er orðið vart við minni vöxt í öðrum undirliðum einkaneyslunnar og mælist til að mynda samdráttur í ökutækjakaupum heimila sem hafa vegið þungt í vexti hennar undanfarna ársfjórðunga.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar jákvætt og afgangur eykst á milli ára
Vöxtur útflutnings á þriðja ársfjórðungi þessa árs er áætlaður 22,9% miðað við sama tíma fyrir ári en líkt og undanfarna ársfjórðunga má aðallega rekja vöxtinn til útfluttrar þjónustu sem jókst um 45,6% að raunvirði frá fyrra ári. Frá fyrri ársfjórðungi reiknast um 6,1% raunvirðisaukning árstíðaleiðrétts útflutnings á þriðja ársfjórðungi. Talið er að vöxtur innflutnings á milli ára hafi verið um 18,0% á þriðja ársfjórðungi þessa árs en líkt og síðastliðna ársfjórðunga mælist mikill vöxtur í innfluttri þjónustu. Frá öðrum ársfjórðungi þessa árs mælist um 5,4% aukning að raunvirði í árstíðaleiðréttum innflutningi.

Áætlanir fyrir utanríkisviðskipti gefa til kynna að af þeim hlýst jákvætt framlag til hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur um 1,9% og er því um áframhald að ræða frá öðrum ársfjórðungi líðandi árs. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mælist um 39,4 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur um 4,0% af VLF samanborið við um 2,1% á sama tíma í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs reyndist halli á vöruskiptajöfnuði um 70,7 ma.kr. en um 110,1 ma.kr. afgangur á þjónustujöfnuði.

Samneysla jókst um 1,8% á þriðja ársfjórðungi
Áætlað er að vöxtur samneyslu hafi verið um 1,8% á þriðja ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil í fyrra en vöxtinn má að miklu leyti rekja til kaupa hins opinbera á vörum og þjónustu. Fyrstu níu mánuði þessa árs mælist vöxtur samneyslu 1,9% samanborið við sama tímabil árið 2021. Nánar er fjallað um fjármál hins opinbera í þeim niðurstöðum sem Hagstofa Íslands birtir 8. desember næstkomandi.

Vöxtur fjármunamyndunar 2,2%
Á þriðja ársfjórðungi þessa árs er talið að fjármunamyndun í heild hafi vaxið um 2,2% samanborið við sama tímabil fyrra árs. Atvinnuvegafjármunamyndun hækkar um 0,7% að raunvirði frá fyrra ári og mestur vöxtur mælist í starfsemi flutninga í lofti en á móti vegur samdráttur í upplýsingatækni en einnig fjármálastarfsemi sem rekja má til þess að á ársfjórðungnum átti sér stað færsla fasteigna yfir til hins opinbera. Leiðrétt fyrir þessari færslu mælist vöxtur fjámunamyndunar atvinnuvega um 5,7% á ársfjórðungnum. Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að fjármunamyndun atvinnuvega hafi aukist um 7,8% að raungildi borið saman við sama tímabil á síðasta ári.

Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 13,5% að raunvirði borið saman við sama tímabil fyrra árs en dróst saman um 0,7% sé leiðrétt fyrir fyrrgreindri yfirfærslu fasteigna frá atvinnuvegum. Fyrstu níu mánuði ársins 2022 er áætlað að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 11,9% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2021.

Líkt og síðastliðna fjóra ársfjórðunga reiknast samdráttur í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis á milli ára. Áætlaður mælist hann um 3,4% miðað við þau grunngögn og aðrar vísbendingar sem aflað er til matsins. Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist samdráttur fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði um 5,4% miðað við sama tímabil fyrra árs sem er nokkuð keimlíkt þróun ársins 2021 þegar um 4,6% samdráttur var á sama tíma. Þrátt fyrir viðvarandi samdrátt í nærri tvö ár er hlutfall fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði af VLF um 5,0% sem telst fremur hátt í sögulegum samanburði frá árinu 1995.

Birgðaaukning sjávarafurða skýrir aukningu birgða
Á þriðja ársfjórðungi hækkaði heildarverðmæti birgða um 17,7 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga sem að mestu má rekja til aukinnar birgðastöðu sjávarafurða en á sömu sveif lagðist aukning í birgðastöðu áls vegna aukinnar framleiðslu álfyrirtækja. Þar að auki mælist birgðaaukning í olíu, kísiljárni og annarri rekstrarvöru á tímabilinu.

Fjölgun starfandi einstaklinga og vinnustunda á milli ára 5,8%
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda hafi aukist um 5,8% á þriðja ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil árið 2021 sem að mestu má rekja til fjölgunar vinnustunda í ÍSAT-atvinnubálkum sem innihalda heildsölu, verslun, samgöngur og rekstur veitinga- og gististaða. Starfandi einstaklingum fjölgaði jafnframt á milli ára og um sömu prósentu eða 5,8%. Á þriðja ársfjórðungi 2022 mælist heildarfjöldi vinnustunda um 5,7% meiri en hann var á þriðja ársfjórðungi 2019 eða áður en faraldurinn skall á.

Vöxtur VLF á fyrstu níu mánuðum ársins sá mesti síðan árið 2007
Áætlað er að VLF á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 hafi aukist um 7,4% að raunvirði borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2021 en svo hár hefur vöxtur fyrstu níu mánaða ekki mælst síðan árið 2007. Þjóðarútgjöld jukust á sama tíma um sömu prósentu eða um 7,4% en þar af reyndist vöxtur einkaneyslu um 10,9%, samneyslu um 1,9% og fjármunamyndunar um 5,2%. Útflutningur jókst um 22,9% að raunvirði en innflutningur um 22,1%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281144 , netfang brynjar.o.olafsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.