Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þjóðhagsreikninga var nafnvirði vergrar landsframleiðslu (VLF) 1.199 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi sem er um 0,5% samdráttur að raunvirði borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttinn má að mestu rekja til lakari afkomu af þjónustuviðskiptum við útlönd.
Á þriðja ársfjórðungi er talið að þjóðarútgjöld hafi aukist um 0,8% að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung árið 2023. Af undirliðum þjóðarútgjalda er talið að einkaneysla hafi aukist um 0,8%, samneysla um 3,1% og fjármunamyndun um 2,3%. Aftur á móti drógust birgðabreytingar saman um 0,8%.
Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman að raunvirði um 1,1% á milli annars og þriðja ársfjórðungs 2024.
Minni afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd vó þyngst í samdrætti
Þrátt fyrir að þjónustujöfnuður hafi verið jákvæður um 140 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi var það nokkuð lakari afgangur en á sama tíma árið 2023. Minni afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd hefur þannig neikvæð áhrif á hagvöxt um tæp 2%. Áfram var halli á vöruviðskiptum á þriðja ársfjórðungi en hallinn var þó ívið minni en á sama tíma í fyrra. Framlag vöruviðskipta gefur þannig jákvætt framlag til hagvaxtar um rúm 0,1%. Í heild var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi neikvætt um 1,8%.
Einkaneysla jókst um 0,8%
Einkaneysla jókst um 0,8% á þriðja ársfjórðungi að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs. Hér vegur einna þyngst aukning í neyslu Íslendinga erlendis um 3%. Jafnframt sýndu útgjöld heimilanna vegna þjónustu og húsnæðis vægan vöxt. Mikill samdráttur var aftur á móti í neyslu varanlegra neysluvara, eins og kaupum á bifreiðum, sem er sambærileg þróun og á fyrsta og öðrum ársfjórðungi.
Samneysla jókst um 3,1%
Magnbreyting samneyslu á þriðja ársfjórðungi 2024 frá sama tímabili 2023 er áætluð 3,1%. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á þriðja ársfjórðungi 2024 verða birtar 5. desember n.k.
Fjármunamyndun jókst um 2,3%
Áætlað er að fjármunamyndun á þriðja ársfjórðungi 2024 hafi aukist að raunvirði um 2,3% miðað við sama tímabil fyrra árs. Þar af er annars vegar áætluð aukning í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis um 10,7% og fjármunamyndun á vegum hins opinbera um 2,2%. Hins vegar gefa fyrstu niðurstöður til kynna að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi dregist lítillega saman eða um 0,2%.
Aukin birgðastaða
Á þriðja ársfjórðungi 2024 jukust heildaverðmæti birgða um 5,2 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga. Aukninguna má að langmestu leyti rekja til aukningu í birgðastöðu sjávarafurða um 6,6 milljarða.
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 1,1%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi dróst að raunvirði saman um 1,1% frá öðrum ársfjórðungi. Að lokinni árstíðaleiðréttingu mældist 0,1% aukning í einkaneyslu á tímabilinu borið saman við fyrri ársfjórðung, 0,7% aukning í samneyslu og 4,6% samdráttur í fjármunamyndun, allt að raunvirði. Á sama tímabili dróst árstíðaleiðréttur útflutningur saman um 1,5% og innflutningur dróst saman um 1,1%, að raunvirði.
Landsframleiðsla á fyrstu níu mánuðum ársins
Á fyrstu níu mánuðum ársins er talið að VLF hafi dregist saman um 1,0% að raunvirði, samanborið við fyrstu níu mánuði ársins 2023. Þjóðarútgjöld jukust á sama tíma um 0,6% en þar af reyndist vöxtur einkaneyslu um 0,2%, samneyslu um 2,7% og fjármunamyndun um 3,8%. Samhliða því dróst útflutningur saman um 2,1% á meðan innflutningur jókst um 1,4%.
Endurskoðun 2023
Minniháttar endurskoðun var gerð á fjórða ársfjórðungi 2023. Útflutningur á einu skipi var oftalinn. Það hefur áhrif bæði á fjármunamyndun og vöruskipti en þar sem það nettast út hvort á móti öðru hefur það engin áhrif á verga landsframleiðslu.
Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Í lok maí 2025 er áætlað að birta heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga hér á landi. Er endurskoðunin í samræmi við samræmda evrópska endurskoðunarstefnu um þjóðhagsreikninga og aðra efnahagstölfræði.
Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður viðmiðunarár fasts verðlags uppfært og tölur birtar á föstu verðlagi 2020 í stað 2015 eins og verið hefur frá því í nóvember 2020. Í tengslum við útgáfu þjóðhagsreikninga í maí verður sérstök umfjöllun um endurskoðunina, áhrif hennar og forsendur.