FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 28. NÓVEMBER 2025

Samkvæmt fyrsta mati er áætlað að verg landsframleiðsla (VLF) hafi aukist um 1,2% að raunvirði á þriðja ársfjórðungi 2025 miðað við sama tímabil fyrra árs. Einkaneysla, sem jókst um 4,2%, vegur þyngst í hagvexti en jafnframt er aukning í fjármunamyndun um 2,2% og samneyslu um 0,9%. Að teknu tilliti til birgðabreytinga er áætlað að þjóðarútgjöld á þriðja ársfjórðungi hafi aukist um 4,7% að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs.

Framlag utanríkisviðskipta dregur landsframleiðslu niður á móti en aukinn halli á vöru- og þjónustuviðskiptum samanborið við fyrra ár veldur því að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er neikvætt um 4,5% á þriðja ársfjórðungi.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum sveiflum er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,2% að raunvirði samanborið við annan ársfjórðung 2025.

Fyrstu níu mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 1,5% að raunvirði borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2024.

Athygli er vakin á því að samhliða birtingu landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi hefur verið gerð endurskoðun á áður birtum tölum aftur til ársins 2023. Nánar er fjallað um þá endurskoðun síðar í þessari frétt.

Einkaneysla jókst um 4,2%
Einkaneysla á þriðja ársfjórðungi jókst um 4,2% að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs. Innlend neysla jókst almennt þar sem vöxtur var í kaupum heimilanna á þjónustutengdum neysluvörum. Samdráttur var þó í vörum eins og fatnaði en ætla má að þar gæti gengisáhrifa. Aukning var í kaupum heimilanna á bifreiðum þriðja ársfjórðunginn í röð eftir samdráttarskeið á fyrra ári. Einnig var töluverður vöxtur í einkaneyslu vegna útgjalda Íslendinga á ferðalögum erlendis ásamt vægum vexti í húsnæðislið.

Samneysla jókst um 0,9% á þriðja ársfjórðungi
Samneysla hins opinbera er talin hafa aukist um 0,9% að raunvirði á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil fyrra árs. Að nafnvirði er talið að samneyslan hafi aukist um 8,9% frá fyrra ári en á sama tíma er áætlað að verðbreyting hafi verið um 7,9% sem veldur 0,9% magnbreytingu. Nánar verður fjallað um fjármál hins opinbera í útgáfu 11. desember næstkomandi.

Aukning í fjármunamyndun um 2,2%
Fjármunamyndun er talin hafa aukist um 2,2% að raunvirði á þriðja ársfjórðungi 2025 samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs. Þar af er talið að fjármunamyndun atvinnuvega hafi aukist um 11,3% að raunvirði. Hins vegar er talið að fjármunamyndun vegna íbúðarhúsnæðis hafi dregist saman um 10,3% á sama tímabili ásamt því að fjármunamyndun hins opinbera reyndist um 15,8% minni að raunvirði.

Minni afgangur af vöru og þjónustuviðskiptum við útlönd
Áætlað er að vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið jákvæð um 35,8 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi sem er töluvert minna en á sama ársfjórðungi síðasta árs þegar hann nam 56,6 milljörðum króna. Minni afgangur af utanríkisviðskiptum hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna á þriðja ársfjórðungi um 4,5%.

Birgðabreytingar jukust um 21 milljarð
Heildarverðmæti birgða jókst um 20,9 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2025 miðað við annan ársfjórðung. Jákvæð breyting í sjávarútvegi hafði mest áhrif og nam hún 17,6 milljörðum króna. Aukningin er í samræmi við þróun á þriðja ársfjórðungi undanfarin ár en á þriðja fjórðungi 2024 var birgðasöfnun mun minni vegna loðnubrests.

Þrátt fyrir áframhaldandi loðnubrest jukust birgðir í uppsjávarfiski almennt sem og mjöl og lýsi. Verðmæti olíubirgða stóð nær óbreytt og jókst einungis upp á 23 milljónir króna. Þá jókst einnig heildarverðmæti birgða í stóriðju (ál, álafurðir og kísilmálmur) um 3,2 milljarða króna.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 0,2%
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman að raunvirði um 0,2% á þriðja ársfjórðungi 2025 miðað við annan ársfjórðung. Þar með hefur ársíðaleiðrétt landsframleiðsla dregist saman tvo ársfjórðunga í röð en uppfærðar tölur fyrir annan ársfjórðung 2025 sýna um 0,4% samdrátt miðað við fyrsta ársfjórðung. Í sundurliðun kemur fram að á þriðja ársfjórðungi 2025 einkaneysla hafi aukist um 1,2% á milli fjórðunga samkvæmt árstíðaleiðréttum mælikvarða, samneysla aukist um 0,5%, en fjármunamyndun dregist saman um 7,4%. Á sama tímabili dróst árstíðaleiðréttur útflutningur saman um 2,4% og innflutningur minnkaði einnig eða um 4,8%.

Endurskoðun á áður birtum tölum
Að gefnu tilefni er rétt er að taka fram að í opinberri hagtölugerð eru fyrstu niðurstöður oft birtar mjög tímanlega. Hagtölur eru þá merktar sem fyrsta mat eða bráðabirgðatölur og byggja á bestu gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Þegar fyllri og nákvæmari gögn eru tiltæk eru bráðabirgðatölur endurskoðaðar.

Nú liggja fyrir ný heildstæð gögn yfir fjármunamyndun fyrirtækja fyrir árið 2024 og fyllri gögn fyrir árið 2023. Byggja þau gögn á rekstrarframtali og eignaskrá fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri. Sögulega hafa ný gögn úr rekstrarframtölum verið tekin inn í vinnslu þjóðhagsreikninga fyrir birtingu í febrúar ár hvert. Nú hefur þessari vinnslu verið flýtt um þrjá mánuði sem tryggir tímanlegri og áreiðanlegri niðurstöður.

Eins og fram kom við birtingu vöru- og þjónustuviðskipta hafa þau gögn jafnframt verið endurskoðuð. Við vinnslu niðurstaðna fyrir þriðja ársfjórðung kom í ljós misræmi í stjórnsýslugögnum sem liggja til grundvallar útreikningi vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd. Frekari skoðun, byggð á samtölum við umsvifamikil útflutningsfyrirtæki, leiddi í ljós að endurskoða þyrfti áður birtar tölur um vöru- og þjónustuútflutning aftur til ársins 2023.

Þessi endurskoðun hefur helst áhrif á vöruviðskipti með þeim hætti að útflutningur vöruviðskipta í greiðslujöfnuði dregst saman um 6 milljarða á árinu 2023, um 3,8 milljarða á árinu 2024 en eykst um 11,2 milljarða á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025. Að sama skapi eykst innflutningur þjónustu um 1,7 milljarða fyrir árið 2023, um 5,5 milljarða árið 2024, en dregst saman um 4,1 milljarð á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025. Útflutningur þjónustu dregst einnig saman um 9,1 milljarð á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2025 við þessa endurskoðun.

Ný raungögn um fjármunamyndun ásamt leiðréttingum á gögnum utanríkisverslunar hafa þau áhrif að hagvöxtur á árinu 2023 mælist nú 5,1% í stað 5,2% áður. Árið 2024 dróst hagkerfið saman um 1,2% sem er ívið meiri samdráttur en í áður birtum tölum (-1,0%).

Framleiðsluuppgjör
Gögn um framleiðsluuppgjör hafa verið uppfærð á vef Hagstofu Íslands samhliða endurskoðun á ráðstöfunaruppgjöri. Bráðabirgðatölur atvinnugreina fyrir árið 2024 hafa verið uppfærðar með skilum á ársgögnum fyrirtækja og árið 2023 uppfært með fyllri skilum. Samhliða þessari birtingu voru einnig gerðar nokkrar uppfærslur á vinnslu og bættum gögnum. Uppfært var skipting á fyrirtækjum sem starfa í fleiri en einni atvinnugrein sem á sérstaklega við fyrirtæki í sjávarútvegi, fiskvinnslu og sölu eða tengdum greinum. Uppfærðar voru afskriftir og aðföng í atvinnugrein 68 sem breytast vegna nýrra gagna um fjármunaeign íbúðarhúsnæðis. Endurbætur voru gerðar í atvinnugrein 93 sem ná til ársins 2018. Einnig voru einhver fyrirtæki færð um atvinnugreinaflokk, handfærðar voru inn upplýsingar fyrir fyrirtæki sem skiluðu ekki inn tölum og tekin út erlend þjónustufyrirtæki en þessar þrjár breytingar hafa áhrif þvert á atvinnugreinar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.