Samhliða birtingu talnaefnis fyrir þriðja ársfjórðung 2020 birtir Hagstofa Íslands nú niðurstöður heildarendurskoðunar tímaraða þjóðhagsreikninga. Endurskoðunin er í samræmi við samþykkta stefnu og leiðbeiningar Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um reglulegar heildarendurskoðanir þjóðhagsreikninga og samræmda tímasetningu þeirra.

Slíkar endurskoðanir gera Hagstofunni kleift að taka inn nýja gagnaheimildir og breyttar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga með það að markmiði að viðhalda og styrkja gæði niðurstaðna. Í tengslum við slíkar endurskoðanir gefst einnig tækifæri til þess að aðlaga gagnaöflun og úrvinnslu að breytingum sem eiga sér stað í samfélaginu yfir tíma, t.d. breytingar í framleiðslu- og neysluháttum. Endurskoðunin nær til tímabilsins frá og með árinu 1995 til ársins 2019.

Einnig hefur verið skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011.

Auk útgáfu meðfylgjandi Hagtíðinda um heildarendurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga gefur Hagstofan út sérstaka greinargerð um flokkun hageininga í þjóðhagsreikningum með umfjöllun um aðferðafræði og úrlausn álitaefna sem snúa að afmörkun hins opinbera hér á landi.

Heildarendurskoðun á tímaröðum þjóðhagsreikninga - Hagtíðindi
Flokkun stofnanaeininga í þjóðhagsreikningum - Greinargerð