FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 21. SEPTEMBER 2021

Áætlað er að tæplega 12.600 einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi á árinu 2020 og hafi fækkað um nærri helming samanborið við fyrra ár en Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn tölfræði um vinnuafl í ferðaþjónustu. Hefur fjöldi starfandi í ferðaþjónustu ekki mælst minni frá árinu 2013. Fjöldi vinnustunda dróst meira saman eða um tæplega 51% frá fyrra ári.

Á árinu 2020 fækkaði komum erlendra ferðamanna til Íslands um 81% borið saman við árið 2019 sem má rekja beint til áhrifa kórónuveirufaraldursins sem hafði umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu hér á landi sem og annar staðar í heiminum.

Á árunum 2012-2018 jókst fjöldi starfandi í ferðaþjónustu um tæplega 109% eða um sem nemur 13% að meðaltali á hverju ári. Á sama tímabili fjölgaði komum erlendra ferðamanna hingað til lands um 20% að meðaltali á ári. Árið 2019 mældist 8% samdráttur í komum ferðamanna til Íslands borið saman við fyrra ár. Á sama tímabili mældist lítil breyting á fjölda starfandi í ferðaþjónustu eða um 0,8% samdráttur.

Hlutdeild ferðarþjónustunnar á íslenskum vinnumarkaði
Mælt í heildarfjölda vinnustunda er áætlað að á árinu 2020 hafi 5,5% vinnustunda hér á landi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn en hlutdeild ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu (VLF) er áætluð nokkuð minni eða 3,9% á sama tímabili. Til samanburðar var þetta hlutfall 10,4% að meðaltali á árunum 2018-2019.

Tölfræði um vinnuafl í ferðaþjónustu birt í fyrsta sinn
Sérstök tölfræði um vinnuafl í ferðaþjónustu er viðbót við áður birtar tölur um vægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi, nú með sérstaka áherslu á hlutdeild hennar í íslenskum vinnumarkaði. Tölfræðinni er ætlað að meta vinnumagn í hagkerfinu sem tengist beint þjónustu við bæði innlenda og erlenda ferðamenn á Íslandi.

Tölfræðin sýnir fjölda starfandi einstaklinga sem þjóna ferðamönnum beint, fjölda starfa og fjölda vinnustunda sem unnar hafa verið við verk sem tengjast beint þjónustu við ferðamenn. Ekki er aðeins horft til einkennandi atvinnugreina ferðaþjónustunnar, svo sem gistiþjónustu, heldur er leitast við að meta þjónustu við ferðamenn þvert á atvinnugreinar. Hafa ber í huga að um er að ræða bráðabirgðatölur sem, enn sem komið er, innihalda ekki mat á svartri atvinnustarfsemi eða ólaunaðri vinnu.

Tölfræði um vinnuafl í ferðaþjónustu er viðbót við ferðaþjónustureikninga (e. tourism satellite accounts) sem hafa verið gefnir út fyrir Ísland í yfir áratug. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og með gerð þeirra er leitast við að leggja mat á hlut ferðaþjónustu í hagkerfinu. Áður óbirt tímaröð um vinnuafl í ferðaþjónustu nær yfir tímabilið 2009 til 2020.

Grunnupplýsingar um fjölda starfandi, starfa og vinnustunda eru fengnar úr grunngögnum þjóðhagsreikninga. Við mat á hlut ferðaþjónustu í vinnuafli er byggt á hlutdeild ferðaþjónustunnar í heildarvinnsluvirði viðkomandi atvinnugreina. Þannig er gert ráð fyrir því að við framleiðslu vöru eða þjónustu sé vinnuaflsþörfin sú sama óháð því hvort endanlegir kaupendur teljast til ferðamanna eða ekki.

Nánari lýsingu á aðferðafræði ferðaþjónustureikninga má finna hér.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.