FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 04. JÚLÍ 2014

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá á sumri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær fram til ársins 2018. Í henni er m.a. gert ráð fyrir því að landsframleiðsla aukist um 3,1% á þessu ári og 3,4% á því næsta.

Þjóðarútgjöld aukast um u.þ.b. 5% árlega árin 2014-2015 sem endurspeglar vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. Aukning einkaneyslu verður 3,9% 2014 og fjárfesting eykst um 16,9%. Árið 2015 er reiknað með að einkaneysla aukist um 3,7% og nálægt 3% á ári 2016-2018. Fjárfesting eykst um 15,7% árið 2015 og vex áfram ef frá er talið árið 2017. Samneysla eykst um 1,2% árið 2014 og 0,5% 2015, en vex um tæp 2% á ári eftir það.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun verðtryggðra íbúðalána ásamt aukningu ráðstöfunartekna, sem m.a. má rekja til styrkingar vinnumarkaðar, styður við einkaneyslu á spátímanum.

Spáð er 2,5% verðbólgu á þessu ári, 3,4% á næsta ári, 3,2% árið 2016, en undir þremur prósentum eftir það. Stórum hluta kjarasamninga ársins 2014 er lokið en þeir eru flestir til skamms tíma. Óvissa um launa- og verðlagsþróun á næstu árum er því nokkur.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 11. apríl síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð í nóvember.

Þjóðhagsspá, sumar 2014 – Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.