FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 27. JÚNÍ 2022

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2022 til 2027.

Horfur eru á að hagvöxtur verði 5,1% í ár og 2,9% árið 2023. Verg landsframleiðsla jókst um 8,6% á fyrsta ársfjórðungi. Innlend eftirspurn hefur reynst kröftug það sem af er ári en óvissa um verðbólguhorfur innanlands og erlendis hefur aukist.

Mikill vöxtur var í einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi. Búist er við að einkaneysla vaxi um 4,3% í ár með hækkandi atvinnustigi en að aukin verðbólga dragi úr vextinum næstu árin og hún vaxi um 2,6% á næsta ári og 2,4% árið 2024. Gert er ráð fyrir að samneysla vaxi um 1,3% í ár og 1,4% að jafnaði árin 2023 og 2024. Reiknað er með að vöxtur fjárfestingar verði 4,6% í ár, knúinn af vexti atvinnuvega- og íbúðafjárfestingar en að fjárfesting hins opinbera dragist lítillega saman.

Á næsta ári er gert ráð fyrir 0,9% vexti fjárfestingar en hægan vöxt má rekja til samdráttar í skipa- og flugvélafjárfestingu. Útflutningshorfur hafa batnað þar sem ferðamönnum fjölgaði hraðar á á fyrri hluta árs en gert var ráð fyrir. Reiknað er með að útflutningur aukist um 17,6% í ár og 6,3% á næsta ári. Ferðum Íslendinga erlendis hefur fjölgað auk þess sem vöruinnflutningur hefur verið kröftugur m.a. vegna mikils innflutnings flugvéla. Horfur eru á að innflutningur aukist um 14,3% í ár og 4,1% árið 2023.

Verðbólguhorfur hafa versnað töluvert, meðal annars vegna aukinnar verðbólgu erlendis, meiri hækkana á húsnæðisverði og aukinnar spennu í hagkerfinu. Gert er ráð fyrir að ársmeðaltal vísitölu neysluverðs hækki um 7,5% í ár og að verðbólga hjaðni hægar en áður var gert ráð fyrir á spátímanum. Reiknað er með að verðbólga verði 4,9% á næsta ári og 3,3% árið 2024. Spenna á vinnumarkaði hefur aukist með meiri efnahagsumsvifum. Eftirspurn eftir starfsfólki er mikil og hefur atvinnulausum á skrá fækkað frá áramótum. Búist er við að atvinnuleysi verði að meðaltali 3,8% í ár, 3,7% á næsta ári og 3,8% árið 2024.

Forsendur þjóðhagsspár byggja á gögnum sem lágu fyrir í lok maí.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 29. mars sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í október.

Þjóðhagsspá - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.