Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2022 til 2028.
Horfur eru á að hagvöxtur verði 6,2% í ár og 1,8% á næsta ári. Vöxtur einkaneyslu hefur verið kröftugur það sem af er ári og ferðaþjónusta vaxið hratt en verðbólga hefur aukist.
Áætlað er að vöxtur einkaneyslu verði 7,6% í ár og 1,7% á næsta ári þegar hægir á eftirspurn. Mikill kraftur var í einkaneyslu á fyrri hluta ársins sem jókst um 9,2% á fyrsta fjórðungi og 13,5% á öðrum fjórðungi. Samneysla óx um 1,8% á fyrri helmingi ársins. Búist er við að samneysluvöxtur verði hægari seinni hluta ársins og samneysla vaxi um 1,5%. Gert er ráð fyrir að enn hægi á aukningu samneyslu á næsta ári og að hún vaxi um 0,9%.
Horfur eru á að fjárfesting aukist um 5,8% í ár. Reiknað er með að atvinnuvegafjárfesting vaxi um 9,6% í ár og að vöxturinn verði á breiðum grunni. Íbúðafjárfesting dróst saman um rúm 7% á fyrri helmingi ársins. Búist er við að viðsnúningur verði í íbúðafjárfestingu á seinni hluta ársins og að hún muni vaxa um 5,4%. Í kjölfarið er búist við 12,9% aukningu í íbúðafjárfestingu á næsta ári. Fjárfesting hins opinbera jókst um 3,8% á fyrri helmingi ársins. Búist er við að 4,8% samdráttur verði á opinberri fjárfestingu í ár. Reiknað er með áframhaldandi samdrætti opinberrar fjárfestingar á næsta ári þegar hún dregst saman um 3,8%.
Gert er ráð fyrir að vöru- og þjónustuútflutningur aukist um 19,1% í ár, einkum vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu, en reiknað er með að 1.700 þúsund ferðamenn heimsæki landið. Á næsta ári er gert ráð fyrir að ferðaþjónustan nái fyrri styrk en að vöruútflutningur í heild breytist lítið vegna samdráttar í útflutningi sjávarafurða. Horfur eru á að útflutningur vöru og þjónustu aukist um 3,7% árið 2023.
Verðbólguhorfur hafa versnað en líkur eru á að verðbólga hafi þegar náð hámarki í sumar og er reiknað með að hún verði 8,2% að meðaltali í ár. Á næsta ári er útlit fyrir hóflega hjöðnun verðbólgu þar sem gert er ráð fyrir að alþjóðaverðbólga minnki, hrávöruverð lækki og að verðhækkunarhrinan á húsnæðismarkaði líði hjá. Spáð er að vísitala neysluverðs hækki um 5,6% á næsta ári að meðaltali.
Staða á vinnumarkaði hefur batnað mikið síðustu tvö ár. Dregið hefur úr atvinnuleysi á sama tíma og mannfjöldi á vinnufærum aldri hefur aukist. Horfur eru á að atvinnuleysi samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands verði 3,8% í ár og 3,9% á næsta ári. Samningar á almennum vinnumarkaði eru lausir og opinberir samningar renna flestir út í mars á næsta ári. Töluverð óvissa ríkir um niðurstöður kjarasamninga.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 27. júní sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í mars á næsta ári.
Þjóðhagsspá — Hagtíðindi