Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2022 til 2027.

Verg landsframleiðsla jókst um 4,3% árið 2021 og var einkum drifin áfram af vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Óvissa vegna kórónuveirufaraldursins hefur minnkað en á móti kemur aukin óvissa vegna innrásar Rússa í Úkraínu og afleiðinga stríðsins á heimshagkerfið. Horfur eru á að hagvöxtur verði 4,6% í ár og 2,7% árið 2023.

Reiknað er með að einkaneysla aukist um 4,2% í ár og 3,4% árið 2023. Gert er ráð fyrir að áfram dragi úr vexti samneyslu og að hann verði 1,1% í ár og 1,5% á því næsta. Spáð er 5% vexti fjárfestingar í ár en að það hægi á vextinum 2023, m.a. vegna minni fjárfestingar í skipum og flugvélum. Horfur eru á að útflutningur vaxi um 16% í ár og 5,8% á næsta ári, einkum vegna bata í ferðaþjónustu. Reiknað er með 12,4% aukningu innflutnings í ár og 4,9% á því næsta, meðal annars vegna meiri neyslu Íslendinga erlendis.

Verðbólguhorfur hafa versnað umtalsvert. Hækkanir á verði húsnæðis hafa reynst þrálátar, hrávörur hafa hækkað hratt í verði vegna átakanna í Úkraínu og óvissa um verðþróun erlendis aukist. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði 5,9% að meðaltali í ár en hjaðni í 3,5% árið 2023. Staða á vinnumarkaði í upphafi árs er sterk og áætlað að atvinnuleysi verði 4,3% að meðaltali á árinu. Kaupmáttur launa jókst um 3,7% á síðasta ári en vegna aukinnar verðbólgu er gert er ráð fyrir að hann aukist um 1% í ár. Óvissa er um launaþróun þar sem samningar á almennum markaði renna út í ár.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 30. nóvember sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í júní.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni