Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá að sumri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2017 til 2022.
Gert er ráð fyrir að árið 2017 verði hagvöxtur 6%, að einkaneysla aukist um 6,9%, fjárfesting um 9,8% og samneysla um 1,8%. Á árinu 2018 dregur talsvert úr vexti hagkerfisins, en þá er hagvöxtur talinn verða 3,3%, aukning einkaneyslu 5,2%, fjárfestingar 4% og samneyslu um 1,3%. Árin 2019 til og með 2022 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu 2,5–2,8%, að einkaneysla verði á bilinu 2,5–3,4%, fjárfesting aukist um 2,7–4,8% og samneysla aukist um 1,2–1,8%.
Einkaneysla er nú talin aukast meira í ár og á næsta ári en spáð var í febrúar. Líkt og í fyrri spá er búist við að það hægi á vexti einkaneyslu þegar dregur úr vexti þjóðarbúsins síðari hluta spátímans. Það hægir á vexti fjárfestingar á spátímanum, stóriðjutengd fjárfesting dregst saman árin 2018–2020 og það dregur úr vexti almennrar atvinnuvegafjárfestingar en íbúða-fjárfesting eykst talsvert.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 17. febrúar og er næsta útgáfa ráðgerð í nóvember 2017.
Þjóðhagsspá að sumri 2017 - Hagtíðindi