FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 03. NÓVEMBER 2017

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2017 til 2023.

Útlit er fyrir kröftugan hagvöxt í ár en að það hægi á gangi hagkerfisins þegar líður á spátímann. Gert er ráð fyrir að á árinu 2017 aukist landsframleiðslan um 4,9%, einkaneysla um 7,8% og fjárfesting um 8,8%. Árið 2018 er reiknað með að hagvöxtur verði 3,1%, einkaneysla aukist um 5,3% og fjárfesting um 3,1%. Talið er að samneysla aukist um 2,2% árið 2017 og 1,3% árið 2018. Árin 2019–2023 er gert ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslu verði í kringum 2,6%, einkaneysluvöxtur minnki úr 3,6% árið 2019 í 2,5% árið 2023, fjárfesting aukist um 2,1–3,9% og samneysla nálægt 1,8% á ári.

Fjárfesting eykst hægar á næstunni en undanfarin ár. Spáð er miklum vexti íbúða­fjárfestingar og opinberrar fjárfestingar en samdráttur verður meðal annars í stóriðjutengdri fjárfestingu árið 2018 og síðar. Viðskiptajöfnuður verður áfram jákvæður en versnar heldur þegar líður á spátímann. Gengi krónunnar styrktist framan af ári en gaf eftir þegar á leið. Tólf mánaða verðbólga er enn lág en búist er við að hún aukist nokkuð þegar áhrifa gengisstyrkingar hættir að gæta. Íbúðaverð hefur hækkað skarpt frá miðju ári 2016 en búist er við að aukið framboð fasteigna á næstu árum dragi úr spennu á íbúðamarkaði.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 31. maí sl. og er næsta útgáfa ráðgerð í febrúar á næsta ári.

Þjóðhagsspá á vetri 2017 — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.