FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 29. FEBRÚAR 2016

Gert er ráð fyrir landsframleiðslan aukist um 4% árið 2016 og um 3,1% árið 2017 vegna vaxtar innlendrar eftirspurnar.

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær til áranna 2016 til 2021. Í henni er m.a. gert ráð fyrir að landsframleiðslan hafi aukist um 4,2% árið 2015, muni aukast um 4% á þessu ári og 3,1% árið 2017.

Fjárfesting og einkaneysla knýja hagvöxtinn fyrstu ár spátímans. Árið 2016 er gert ráð fyrir 5,2% vexti einkaneyslu og 13,2% vexti fjárfestingar.  Á árinu 2017 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 3,1%, einkaneysla um 4,2% og fjárfesting um 7,7%.

Árin 2018 til 2021 er spáð nærri 3% hagvexti og sömuleiðis um 3% vexti einkaneyslu en á sama tíma dregur úr vexti fjárfestingar.  Búist er við að samneysla aukist um 1,2 - 1,6% árlega 2016 – 2021 og að opinber fjárfesting dragist saman árið 2016 en aukist hóflega eftir það.

Afgangur vöru- og þjónustujafnaðar minnkar fyrstu árin á meðan neysla og fjárfesting eru í mestum vexti en verður stöðugur eftir það.

Lágt olíu- og hrávöruverð, ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu og gengisstyrkingu krónunnar hafa haldið verðbólgu á Íslandi í skefjum. Spáð er að verðbólga verði 2,5% árið 2016, aukist í 3,9% 2017 en minnki  eftir það.

Kjarasamningum flestra launþega var lokið 2015 en samningatíðinni lauk þó ekki endanlega fyrr en endursamið var um kjör á almenna markaðnum í janúar 2016. Kjarasamningarnir hafa í för með sér miklar launahækkanir en draga jafnframt úr óvissu um launastig næstu árin.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 13. nóvember síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð í maí 2016.

Þjóðhagsspá á vetri  - endurskoðun – Hagtíðindi 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.