Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2019 til 2025.

Útlit er fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 0,2% í ár vegna minni innlendrar eftirspurnar og lækkunar útflutnings. Árið 2020 er reiknað með hóflegum bata og að verg landsframleiðsla vaxi um 1,7% þar sem þjóðarútgjöld aukast á ný. Reiknað er með að hagvöxtur verði á bilinu 2,5-2,7% það sem eftir lifir spátímans.

Horfur eru á að einkaneysla aukist um 1,8% í ár þar sem heimilin hafa haldið að sér höndum vegna óvissu í efnahagsmálum. Reiknað er með 2,4% vexti einkaneyslu árið 2020 eftir því sem kaupmáttur launa eykst. Vöxturinn verður svo 2,6% að meðaltali út spátímann. Í spánni eykst samneysla um 2,5% í ár og um 2,4% árið 2020, m.a. vegna aukins launakostnaðar hjá ríki og sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að fjárfesting lækki um 9,1% í ár vegna samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu og opinberri fjárfestingu. Á næsta ári er reiknað með 3,7% vexti fjárfestingar vegna bata í atvinnuvegafjárfestingu og aukningar í íbúðafjárfestingu. Áætlað er að fjárfesting aukist að meðaltali um rúmlega 3% árin 2021-25. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður jákvætt í ár, einkum vegna samdráttar í innflutningi, en verður neikvætt á næsta ári og breytist lítið eftir það. Spáð er viðskiptaafgangi í ár sem nemur 2,9% af vergri landsframleiðslu en á næstu árum er reiknað með að hann verði um 1,4%.

Spáð er að vísitala neysluverðs hækki um 3% að meðaltali í ár en verði eftir það nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í ljósi hóflegra launahækkana og forsendu um stöðugt gengi krónunnar. Horfur um atvinnuleysi hafa lítið breyst og er reiknað með að það verði 3,8% í ár.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 10. maí sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í febrúar 2020.

Þjóðhagsspá að vetri 2019 — Hagtíðindi

Talnaefni