FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 30. JÚNÍ 2023

Reiknað er með að hagvöxtur verði 4% í ár og 2,5% árið 2024. Hagvöxtur síðasta árs var borinn uppi af innlendri eftirspurn en í ár er gert ráð fyrir auknu vægi utanríkisviðskipta. Á fyrsta ársfjórðungi jókst verg landsframleiðsla um 7% frá fyrra ári en gert er ráð fyrir að það hægi á aukningunni þegar líður á árið.

Kjarasamningsbundnar launahækkanir og mikil fólksfjölgun studdu við einkaneyslu í byrjun árs. Búist er við hægari vexti einkaneyslu á komandi fjórðungum. Áætlað er að einkaneysla vaxi um 2,3% í ár og 2,2% árið 2024. Gert er ráð fyrir að samneysla aukist um 2% í ár og 1,7% á næsta ári.

Atvinnuvegafjárfesting hefur aukist hratt síðustu tvö ár en útlit er fyrir hóflegri aukningu næstu ár og er reiknað með að hún aukist um 3,5% í ár og 3,7% árið 2024. Gert er ráð fyrir að íbúðafjárfesting aukist um 5,2% í ár og 3,2% á næsta ári. Reiknað er með að fjárfesting hins opinbera dragist saman um 5,3% í ár en aukist um 2,1% árið 2024.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar reyndist jákvætt á fyrsta ársfjórðungi. Útflutningur hefur aukist einkum vegna meiri umsvifa í ferðaþjónustu líkt og undanfarin tvö ár. Reiknað er með að útflutningur vaxi um 8,3% á árinu og um 3,3% á næsta ári.

Kröftug hækkun var á vísitölu neysluverðs fyrstu mánuði ársins en útlit er fyrir að hún hjaðni hægt innan ársins. Í ár er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 8,7%. Reiknað er með að það dragi úr hækkunum á næsta ári, m.a. vegna minni verðbólgu í viðskiptalöndum og hægari umsvifum í hagkerfinu, en spáð er 4,9% verðbólgu á árinu að meðaltali.

Atvinnuleysi hefur að meðaltali verið 3,9% á fyrstu fimm mánuðum ársins samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Áætlað er að atvinnuleysi verði að meðaltali 3,7% á árinu og aukist á næsta ári í 4%. Gert er ráð fyrir að raunlaun hækki með minnkandi verðbólgu. Kjarasamningar renna út í byrjun næsta árs og töluverð óvissa er um launaþróun næstu ár.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 29. mars sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í nóvember. Forsendur þjóðhagsspár byggja á gögnum sem lágu fyrir í lok maí.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.