Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2021 til 2027.
Útlit er fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 3,9% í ár. Efnahagsbati hófst á öðrum ársfjórðungi en landsframleiðsla hafði áður dregist saman fimm ársfjórðunga í röð. Ferðamönnum fjölgaði í sumar og staðan á vinnumarkaði batnaði. Horfur fyrir árið 2022 eru umtalsvert betri, meðal annars vegna meiri útflutnings sjávarafurða. Reiknað er með að hagvöxtur verði 5,3% á næsta ári.
Tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins og batnandi atvinnuástand hafa leitt til aukinnar einkaneyslu á árinu. Búist er við að einkaneysla vaxi um 3,8% frá fyrra ári og um 4,9% á næsta ári. Í ár er gert ráð fyrir að það dragi úr vexti samneyslu og að vöxturinn verði 2,4% og 1,3% árið 2022. Viðsnúningur verður í fjárfestingu á árinu og er því spáð að hún aukist um 11,9% og atvinnuvegafjárfesting og opinber fjárfesting aukist mest. Á næsta ári er gert ráð fyrir 3,2% samdrætti fjárfestingar sem má að mestu rekja til mikillar fjárfestingar í skipum og flugvélum árið áður. Í ár er reiknað með 14,9% vexti útflutnings samhliða bata í þjónustuútflutningi. Árið 2022 er spáð 18,9% vexti vegna aukningar í þjónustuútflutningi og útflutningi sjávarafurða. Innflutningur eykst á spátímanum samhliða vexti innlendrar eftirspurnar og meiri eyðslu Íslendinga erlendis.
Dregið hefur hratt úr slaka á vinnumarkaði á árinu með auknum þrótti í hagkerfinu. Áætlað er að atvinnuleysi minnki í 5,3% árið 2022 og verði 4,8% árið 2023. Verðbólguhorfur hafa versnað og er spáð 4,4% verðbólgu í ár og um 3,3% á því næsta.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 22. mars sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í febrúar.
Forsendur þjóðhagsspár byggja á gögnum sem lágu fyrir um miðjan október.
Þjóðhagsspá — Hagtíðindi