Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá á vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær fram til ársins 2022.
Gert er ráð fyrir að hagvöxtur árið 2016 nemi 4,8%, einkaneysla aukist um 7,1%, fjárfesting um 21,7% og samneysla um 1,8%. Spáð er að hagvöxtur verði 4,4% árið 2017 en að þá aukist einkaneysla um 5,7%, fjárfesting um 7,4% og samneysla um 0,9%. Neysla og fjárfesting standa að baki hagvexti áranna 2016 og 2017 og hafa verið í örum vexti frá 2014. Eftir 2017 er reiknað með að hagvöxtur verði á bilinu 2,6–3%, einkaneysla aukist um 2,5–3,7%, fjárfesting um 1,4–4,2% og aukning samneyslu verði í kringum 1,5% árlega.
Vöxtur neyslu, fjárfestingar og ferðaþjónustu er nú talinn verða meiri en áður var spáð. Við þessar sviptingar verður framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt framan af en þó verður viðskiptajöfnuður jákvæður allan spátímann.
Gert er ráð fyrir að verðbólga aukist seinna en áður var spáð vegna mikillar gengisstyrkingar á síðustu mánuðum. Nú er gert ráð fyrir vaxandi verðbólgu árin 2017 og 2018 en að úr henni dragi eftir það.
Ekkert lát er á mikilli styrkingu vinnumarkaðar en búist er við að dragi úr hraða atvinnuaukningar eftir 2017. Laun og kaupmáttur hafa hækkað mikið undanfarin misseri og er óvissa um launaþróun með minna móti næstu tvö ár ef forsendur kjarasamninga standast.
Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 27. maí síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð vorið 2017.
Þjóðhagsspá á vetri 2016 - Hagtíðindi