FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 16. APRÍL 2024

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2024 til 2029.

Hægt hefur á efnahagsumsvifum að undanförnu. Hagvöxtur reyndist vera 4,1% á síðasta ári og er útlit fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 1,5% í ár. Reiknað er með að hagvöxtur verði helst drifinn áfram af einkaneyslu, utanríkisviðskiptum og samneyslu. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér árið 2025 og verði 3,0% þegar innlend eftirspurn styrkist.

Horfur eru á að einkaneysla aukist um 0,9% í ár. Kortavelta og nýskráningar bifreiða gefa til kynna að einkaneysla gæti dregist saman á fyrsta fjórðungi ársins. Lægri verðbólga og launahækkanir munu styðja við vöxt einkaneyslu þegar líður á árið. Gert er ráð fyrir að fjölgun fólks á vinnufærum aldri verði áfram nokkur í ár og að einkaneysla á mann dragist saman um 1,2%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla vaxi um 3%, en horfur eru á að ráðstöfunartekjur hækki m.a. vegna lægri verðbólgu og vaxta. Samneysla jókst um 2,2% á síðasta ári. Jókst hlutfall hennar af vergri landsframleiðslu lítillega og var 25,7%. Gert er ráð fyrir að samneysla vaxi um 1,4% í ár en að heldur dragi úr vextinum næstu ár. Búist er við að hlutur samneyslu í vergri landsframleiðslu fari vaxandi í ár og verði 26,3%.

Útlit er fyrir hægan vöxt atvinnuvegafjárfestingar í ár. Fjármögnunarskilyrði þrengdust hratt á síðasta ári og eru áhrif þeirra að koma fram um þessar mundir. Í ár er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting aukist um 1,3%. Árið 2025 er gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting aukist um 3% og um 3,7% árið 2026. Á þeim árum eru líkur á að fjármögnunarskilyrði hafi batnað auk þess sem áætlað er að framkvæmdir við Hvammsvirkjun verði komnar á fullt skrið. Viðsnúningur varð á íbúðafjárfestingu á síðari helmingi 2023 þegar vöxtur mældist eftir stöðugan samdrátt frá fyrsta fjórðungi ársins 2021. Gert er ráð fyrir að íbúðafjárfesting vaxi um 2,1% í ár en að vöxturinn verði öllu kraftmeiri á næsta ári eða rúm 10%. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 6,1% á síðasta ári. Gert er ráð fyrir 4% samdrætti í fjárfestingu hins opinbera í ár en að viðsnúningur verði á næstu árum.

Í fyrra batnaði vöru- og þjónustujöfnuður á milli ára en hallinn nam um 0,1% af vergri landsframleiðslu. Útlit er fyrir um 0,4% afgang í ár. Heldur dró úr vexti útflutnings í fyrra eftir að ferðaþjónustan náði sér á strik og nam vöxturinn um 4,8% en aukning vöruútflutnings var minni. Samdráttur innflutnings mældist um 1,4% í fyrra eftir mikinn vöxt árin á undan. Í ár er gert ráð fyrir liðlega 3% útflutningsvexti en áhrif náttúruhamfara auka óvissu. Næstu ár er reiknað með 2,5-3,2% árlegum vexti. Talið er að innflutningur verði í samræmi við innlend efnahagsumsvif og aukist um 1,8% í ár en að jafnaði um 2,2% næstu ár.

Útlit er fyrir að verðbólga hjaðni á árinu. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum hefur hjaðnað nokkuð hratt sem minnkar verðþrýsting á innfluttar vörur og aðföng. Einnig er gert ráð fyrir að eftir því sem hægir á efnahagsumsvifum dragi úr verðbólguþrýstingi. Þá skapar fyrirsjáanleiki hóflegra langtímakjarasamninga á vinnumarkaði skilyrði fyrir frekari hjöðnun verðbólgu. Reiknað er með að vísitala neysluverðs hækki um 5,2% að meðaltali í ár og um 3,2% að meðaltali árið 2025. Árið 2026 er gert ráð fyrir að verðbólga verði 2,7% að meðaltali en áætlað er að hún verði nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands eftir það.

Atvinnuleysi var að meðaltali 3,4% á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist í ár og verði að meðaltali 4,2% samhliða minni vexti þjóðarútgjalda og minnkandi spennu í hagkerfinu. Heildarvinnustundum fjölgaði um 5% á síðasta ári en útlit er fyrir að fjölgunin verði töluvert hægari í ár. Óvissu um launahækkanir næstu ára hefur nú verið eytt að mestu en stærsti hluti almenna markaðarins skrifaði undir kjarasamning til fjögurra ára í mars 2024. Laun hækka afturvirkt frá 1. febrúar um 3,25% og um 3,5% 1. janúar næstu þrjú ár, þó að lágmarki um 23.750 kr. Áætlað er að þeir samningar sem fylgja í kjölfarið á almenna markaðinum og hinum opinbera verði sambærilegir. Horfur er á að kaupmáttur launavísitölu aukist um 1,5% í ár og um 1,7% á næsta ári.

Skuldastaða heimila er efnahagslega traust og hefur hlutfall skulda heimila af vergri landsframleiðslu ekki verið lægra síðan 2018. Heimili eru aftur farin í auknum mæli að sækja í verðtryggð lán sem eru nú um 44% af heildarlánum heimila. Á næstu tveimur árum mun fastvaxtatímabil óverðtryggðra lána sem nema um fjórðungi af íbúðarlánum heimila renna sitt skeið og koma þá til endurskoðunar vaxtaákvæði þessara lána. Eigið fé heimila hefur ekki mælst hærra sem hlutfall af landsframleiðslu frá því söfnun talnaefnis hófst. Hrein erlend eignastaða þjóðarbúsins í lok síðasta árs nam tæplega 38% af vergri landsframleiðslu og hefur þjóðarbúið ekki staðið betur frá árslokum 2021.

Óvissa hefur aukist vegna náttúruhamfara á Reykjanesi en aðrir óvissuþættir varða verðbólguþróun, alþjóðlegar efnahagshorfur, aukna spennu í alþjóðasamskiptum og stríðsátök.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 17. nóvember og er næsta útgáfa fyrirhuguð í júní nk.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.