FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 28. JÚNÍ 2024

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2024 til 2029.

Hægja tók á hagvexti á seinni helmingi síðasta árs og á fyrsta fjórðungi þessa árs dróst verg landsframleiðsla saman um 4%. Horfur eru á 0,9% hagvexti í ár sem verður borinn uppi af innlendri eftirspurn. Árið 2025 er reiknað með 2,6% hagvexti og að hann verði drifinn áfram af einkaneyslu, fjárfestingu og bata í utanríkisviðskiptum. Árið 2026 er spáð 2,7% hagvexti á nokkuð breiðum grunni.

Horfur eru á að einkaneysla aukist um 0,9% í ár. Einkaneysla var sterkari á fyrsta fjórðungi ársins en vísbendingar bentu til. Nýir kjarasamningar og lægri verðbólga styðja við einkaneyslu þegar líður á árið. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 2,4%. Horfur eru á að raunlaun hækki meira á næsta ári vegna minni verðbólgu og að ráðstöfunartekjur aukist. Samneysla hins opinbera jókst um 1,2% á fyrsta fjórðungi ársins. Gert er ráð fyrir að vöxtur ársins verði 1,6% en að á næstu árum dragi heldur úr aukningunni.

Horfur eru á hóflegri aukningu atvinnuvegafjárfestingar næstu misseri. Hátt vaxtastig kælir hagkerfið og eru fjármögnunarskilyrði fyrirtækja enn þröng. Í ár er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting vaxi um 1,9%. Þegar vextir lækka er gert ráð fyrir að fjárfesting glæðist en einnig er áætlað að framkvæmdir við Hvammsvirkjun komist á fullt skrið á næstu tveimur árum. Árið 2025 er spáð 2,5% aukningu atvinnuvegafjárfestingar og 3,5% aukningu árið 2026. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði jókst um 15,7% á fyrsta fjórðungi ársins. Gert er ráð fyrir minni þrótti í íbúðafjárfestingu út árið og að ársvöxtur verði 2,9%. Búist er við áframhaldandi vexti næstu ár, 4,9% árið 2025 og 6,4% árið 2026. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 5,8% frá fyrra ári á fyrsta fjórðungi ársins. Gert er ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera dragist saman um 3,9% í ár en taki við sér á næsta ári og vaxi um 2,6%.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar reyndist neikvætt á fyrsta ársfjórðungi. Útflutningur dróst saman um 3,3% milli ára og vó samdráttur í þjónustuútflutningi þyngst. Einnig hafði loðnubrestur og orkuskerðing Landsvirkjunar til stórnotenda áhrif. Innflutningur jókst um 1,6% milli ára á ársfjórðungnum sem má rekja til aukins þjónustuinnflutnings. Útlit er fyrir að það hægist á vexti þjónustuútflutnings en að vöruútflutningur taki við sér á seinni hluta ársins. Áætlað er að útflutningur aukist um 1,3% á árinu og um 4,2% á næsta ári.

Verðbólga hefur hjaðnað hægt á árinu, m.a. vegna þrýstings á fasteignamarkaði. Á móti vegur að peningalegt aðhald kælir hagkerfið, gengi krónunnar hefur verið stöðugt og nýlegir kjarasamningar til langs tíma ættu að styðja við hagfellda verðlagsþróun næstu ár. Reiknað er með að vísitala neysluverðs hækki um 6% að meðaltali í ár. Árið 2025 er gert ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 3,9% og að hún verði 2,7% árið 2026.

Horfur eru á hægari efnahagsumsvifum í ár og að atvinnuleysi aukist milli ára og verði 4,2% að meðaltali samanborið við 3,4% árið 2023. Heildarvinnustundum fjölgaði um 3,9% á fyrstu fjórum mánuðum ársins samanborið við 5% árið 2023. Mikil fólksfjölgun hefur einkennt vinnumarkaðinn síðustu ár en fólki á vinnufærum aldri fjölgaði um 3,7% árið 2023 og um 3,1% milli ára á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Gert er ráð fyrir að fólksfjölgun verði hægari næstu ár. Óvissu um launahækkanir næstu ára hefur að mestu leyti verið eytt með undirritun kjarasamninga á almenna markaðnum. Áætlað er að samningar á opinbera markaðnum verði sambærilegir og að launavísitala miðað við fast verðlag hækki um 0,6% í ár og 1,7% árið 2025.

Lántökur heimila að frádregnum uppgreiðslum hafa aukist á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Aukningin er einkum vegna nýrra verðtryggðra lána en uppgreiðslur óverðtryggðra lána hafa verið umfram ný óverðtryggð lán. Erlend eignastaða þjóðarbúsins batnaði frá áramótum og var jákvæð um 41,1% af vergri landsframleiðslu við lok fjórðungsins. Í maí staðfesti alþjóðlega matsfyrirtækið S&P A+ lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 16. apríl og er næsta útgáfa fyrirhuguð í nóvember nk.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.