FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 29. MARS 2023

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2023 til 2028.

Hagvöxtur reyndist vera 6,4% á síðasta ári og var m.a. drifinn áfram af aukningu einkaneyslu og bata í útflutningi. Í ár eru horfur á að hagvöxtur verði 3,8%. Reiknað er með hægari vexti innlendrar eftirspurnar en að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði jákvætt.

Mikill kraftur hefur verið í einkaneyslu síðustu tvö ár sem jókst um 7% árið 2021 og 8,6% árið 2022. Gert er ráð fyrir að hægi á einkaneyslu í ár og hún vaxi um 1,9%. Sterk staða vinnumarkaðar styður við einkaneyslu en mikil verðbólga og hátt vaxtastig draga hins vegar úr kaupmætti. Horfur eru á vaxandi einkaneyslu á spátímanum samhliða minnkandi verðbólgu. Samneysla hins opinbera jókst um 1,6% í fyrra. Búist er við að samneysla muni vaxa um 2% í ár og 1,7% á næsta ári. Hlutur samneyslu í vergri landsframleiðslu var tæplega 26% í fyrra og er gert ráð fyrir að hlutfallið verði nokkuð stöðugt í ár og á næsta ári.

Horfur eru á hægari vexti atvinnuvegafjárfestingar í ár eftir umtalsverða aukningu síðustu tveggja ára. Reiknað er með að atvinnuvegafjárfesting aukist um 3,4% í ár. Fyrir utan samdrátt í fjárfestingum skipa og flugvéla er áætlað að aukningin verði á breiðum grunni. Árið 2024 er gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting aukist um 5,4%. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dróst saman um 6,3% í fyrra annað árið í röð. Fjöldi starfandi í byggingariðnaði jókst um rúm 11% á síðasta ári og voru í lok árs um 17.000 manns starfandi, það mesta síðan 2008. Búist er við rúmlega 14% vexti íbúðafjárfestingar í ár og um 8% vexti á næsta ári. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 0,9% í fyrra. Gert er ráð fyrir að 3,5% samdráttur verði í fjárfestingu hins opinbera í ár m.a. vegna frestunar fjárfestingaverkefna ríkissjóðs til að draga úr verðbólgu. Á næsta ári er áætlað að fjárfesting hins opinbera vaxi um 2,1%.

Útflutningur hefur aukist mikið á undanförnum tveimur árum vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Þrátt fyrir það reyndist framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar í fyrra neikvætt vegna mikils vaxtar innflutnings sem m.a. er rakinn til meiri neyslu erlendis og innflutnings hrá- og rekstrarvara. Talið er að útflutningur vaxi um 7,8% í ár og innflutningur um 5,1%. Halli hefur verið á jöfnuði vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd síðastliðin þrjú ár og gangi þjóðhagsspáin eftir verður áfram halli til 2026.

Verðbólguhorfur hafa versnað. Mikil alþjóðleg verðbólga, gengisveiking undir lok ársins og spenna á vinnumarkaði hafa ýtt undir verðbólguþrýsting innanlands. Í ár eru horfur á að vísitala neysluverðs hækki um 8,2% að meðaltali á milli ára. Á næsta ári er reiknað með að dragi úr verðbólgu og hún verði 4,6%, m.a. vegna hjöðnunar verðbólgu erlendis og minni spennu í hagkerfinu.

Atvinnuleysi á síðasta ári var að meðaltali 3,8%. Á sama tíma var mikil mannfjöldaaukning en fólki á vinnufærum aldri fjölgaði um 2,7%. Atvinnuþátttaka jókst einnig og var 80,1% samanborið við 78,8% árið 2021. Gert er ráð fyrir að staða á vinnumarkaði verði áfram sterk í ár og atvinnuleysi að meðaltali 3,8% líkt og í fyrra. Horfur eru á að mannfjöldaaukning verði áfram mikil og að fólki á vinnufærum aldri fjölgi svipað og á síðasta ári sem verði helsti drifkraftur aukningar í heildarvinnustundum í ár. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist árið 2024 samhliða minni hagvexti og verði 4%.

Heildarskuldir heimila eru lágar samanborið við ráðstöfunartekjur, eignir og verga landsframleiðslu. Skuldir atvinnufyrirtækja hafa aukist undanfarin misseri en sem hlutfall af landsframleiðslu er staða þeirra hagstæð. Nokkur órói hefur verið á fjármálamörkuðum sökum rekstrarerfiðleika erlendra viðskiptabanka en samanlagt eiginfjárhlutfall innlendra kerfislega mikilvægra banka er 2,3-4 prósentustigum yfir lágmarkskröfum Seðlabanka Íslands. Hrein erlend skuldastaða Íslands í árslok var jákvæð um 24,2% af vergri landsframleiðslu.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 11. nóvember og er næsta útgáfa fyrirhuguð í júní nk.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.